Þann 20. nóvember 1974 hóf lögreglan í Keflavík rannsókn á því af hverju maður að nafni Geirfinnur Einarsson hafði horfið sporlaust frá deginum áður. Stjórnandi rannsóknarinnar var Valtýr Sigurðsson fulltrúi bæjarfógetans í Keflavík, en hann fór með stjórn lögreglu í umboði fógeta. Rannsóknarlögreglumaðurinn Haukur Guðmundsson var settur í verkefnið, en ábyrgðarmaður þess var yfirmaður hans, Valtýr Sigurðsson.
Rannsókn mannshvarfsins var með slíkum endemum að vinnubrögð við hana ná ekki einusinni að falla undir fúsk. Til eru lögregluskýrslur frá því og af þeim að dæma líkist rannsókn málsins meira tilraun til yfirhilmingar en upplýsingar. Það er full ástæða til að taka upp rannsókn málsins Maðurinn sem hvarf í Keflavík og reyna loks að upplýsa það mannshvarf. Það mannshvarf er nefnilega algjörlega óháð því gerningaveðri sem síðar varð að hinu alræmda Guðmundar- og Geirfinnsmáli. Það er ekkert sem bendir til að persónur og leikendur í öllu GG-málinu komi Geirfinni og hvarfi hans við.
Klúbbmálið í Keflavík
Það gerðist tvennt markvert í rannsókn málsins Maðurinn sem hvarf í Keflavík. Annað er framangreint, það að rannsóknin snerist ekki um að upplýsa hvað varð um manninn sem hvarf. Hitt er að við meinta rannsókn þess máls hóft fyrsta tilraunin til að bendla forsvarsmenn Klúbbsins við mannshvarfið. Þann 15. nóvember fékk lögreglan tilkynningu um að marga kúta með spíra hafi rekið á land á Vatnsleysuströnd. Kristján Pétursson deildarstjóri tollgæslu var búinn að vera að rannsaka grun um stórfellt spírasmygl til landsins og hafði Hauk rannsóknarlögreglumann með sér í því máli. Þeir höfðu forsvarsmenn Klúbbsins grunaða í málinu. Þegar farið var að kanna ferðir Geirfinns síðustu dagana fyrir hvarf hans, þá kom í ljós að hann hafði farið í Klúbbinn helgina áður en hann hvarf. Rannsókn lögreglu snýst mun meira um það að afla tengsla við spírasmygl og Klúbbinn, en við það hvað varð um Geirfinn. Margar frásagnir eru um það að lögregla hafi látið teikna myndir og móta Leirfinn eftir ljósmynd af Magnúsi Leópoldssyni, en það kemur vissulega ekki fram í neinum lögregluskýrslum.
Þann 10. desember er öll rannsókn málsins komin í öngstræti, ekkert vitað um hvarf Geirfinns og engin tenging komin við Klúbbinn eða spírasmygl. Þá flytur Valtýr skrifstofu sína aftur af lögreglustöðinni og Haukur fer til starfa í Reykjavík, þar með hættir virk rannsókn málsins. Formlega var málinu lokað sem óupplýstu hinn 5. júní 1975.
Lögmaður gengur aftur
Í desember 1975 voru Sævar og Erla handtekin og hneppt í gæsluvarðhald vegna gruns um aðild að póstsvikamáli, sem fram fór ári áður. Fljótlega blandast meint aðild þeirra og fleiri að hvarfi Guðmundar Einarssonar og svo enn síðar meint aðild þeirra og fleiri að hvarfi Geirfinns Einarssonar. Þar fór af stað hið alræmda Guðmundar- og Geirfinnsmál. Því lauk ekki með dómi hæstaréttar og áralangri fangelsisvist sakborninga. Það hélt áfram sem mara á þjóðarsálinni, þar sem margir bentu á fjölmargt sem ekki stóðst í málsmeðferðinni. Síðasta uppákoman í því máli er að lögmaður, sem kominn er á eftirlaun eftir vaxandi virðingarstöður innan íslenska réttarkerfisins og sestur var í leðurstól á skrifstofu LEX lögmannsstofu, skrifar bréf til forsætisráðherra og fer fram á að ráðherra hlutist til um að Erla fái ekki greiddar miskabætur nema að undangengnum sýknudómi fyrir ljúgvitni sín í GG-málinu.
Undir bréfið ritar Valtýr Sigurðsson hæstaréttarlögmaður.