Ákveðinn samhljómur er í máli lögmannanna tveggja sem síðast hafa skrifað greinargerðir um Guðmundar- og Geirfinnsmál og tengist óhugnanlega þeirri heitu kartöflu sem endurupptökunefnd vildi heldur ekki snerta á: Falsvitnisburðirnir í G&G málinu. Guðmundar- og Geirfinnsmálin eru þrjú. Eitt er hvarf Guðmundar og annað er hvarf Geirfinns, en hvorugt það mál hefur nokkurntíma verið upplýst. Hið þriðja er það frægasta og hefur tekið alla athygli af skortinum á að upplýsa hin fyrri – það er Guðmundar- og Geirfinnsmálið.
Í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu (G&G) gerðist tvennt sem ég ætla að benda á hér. Annað er að handteknir, grunaðir og sakfelldir samþykktu allir á einhverjum tíma fjölmargar verknaðarlýsingar sem sakbentu aðra og hitt er að þeir samþykktu líka fjölmargar verknaðarlýsingar sem sakbentu þá sjálfa og játningar á eigin sök.
Sýknuð af morðum en ekki af sakargiftum
Í fyrsta kafla ákærunnar í G&G eru fjórir karlmenn ákærðir fyrir tvö morð og þar af tveir þeirra fyrir þau bæði og ennfremur einn (AKS) fyrir að hindra að upp komist í annarri morðsökinni. Í öðrum köflum ákærunnar eru nokkrir úr hópnum ákærðir fyrir ýmsar aðrar sakir sem ótengdar eru G&G og ennfremur eru þeir sem ákærðir eru fyrir morðið á Geirfinni og ein kona (EB) í viðbót ákærð fyrir rangar sakargiftir gegn fjórum mönnum sem lengi sátu í gæsluvarðhaldi vegna þess, oft kölluðum Klúbbmönnum (þótt aðeins tveir þeirra tengdust Klúbbnum).
Endurupptökunefnd leggur til endurupptöku á I. kafla ákæranna, en ekki á neinum öðum köflum og þar með ekki á ákærum vegnan rangra sakargifta í G&G. Við dóm sinn í endurupptöku málsins kemst hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt annað en að sýkna AKS líka af aðild sinni að því morðmáli sem áður dæmdir morðingjar eru nú sýknaðir af.
Eftir standa ennþá af G&G dómarnir yfir öllum þeim sem dæmdir voru fyrir rangar sakargiftir gegn fjórum mönnum (Klúbbmönnum).
Samhengið í játningum og öðrum frásögnum
Þegar hæstiréttur sýknar dæmda loksins af morðákærum í G&G er hann fáorður um forsendur sínar, hann fellst bara á formsatriðin og sýknukröfurnar. Slær hamrinum í borðið: Púff! Vofa G&G er hins vegar ekki kveðin niður. Af hverju urðu allar þessar sögur til í meðförum réttarkerfisins? Af hverju allar þessar fölsku frásagnir, bæði af eigin verknaði og annarra? Af hverju er kominn hæstaréttardómur um sýknu á játningum á eigin verknaði, en sekt stendur samt ennþá um ásakanirnar um verknaði annarra? Hver er munurinn á því hvernig þessar frásagnir urðu til?
Réttarkerfið ætlar að sleppa með það eitt að sýkna af morðum, en sleppa því hvernig játningarnar, ásakanir á aðra og fjölmargar skrautlegar frásagnir urðu til í meðförum réttarkerfisins. Hver var hlutur réttarkerfisins í því hvernig G&G veltist og fór?
Þessa stöðu nota tveir lögmenn nýlega í skriflegum greinargerðum sínum. Annar er settur ríkislögmaður til að svara fyrir kröfur sýknaðra sakborninga um miskabætur, hinn er lögmaður sem skrifar forsætisráðherra til að mótmæla því að greiddar verði miskabætur fyrir meinsærisdóm sem stendur ennþá. Báðir vitna til þess að þeir sem óski eftir miskabótum hafi komið sér sjálfir í þá stöðu sem þeir enduðu í með því að ljúga upp endalausum sögum í allri meðferð málsins, að ljúga bæði upp á sjálfa sig og aðra.
Það skiptir máli að taka á því hvernig hinar fölsku játningar urðu til og það verður óhjákvæmilega ekki skilið frá því hvernig hinar fölsku ásakanir urðu til.
Samsæri um að bera af sér sakleysi
Það er eðlilegt að menn sem bornir voru röngum sökum séu ekki sáttir við að manneskjan sem lék stórt hlutverk í þeim sakargiftum fái miskabætur fyrir sinn hlut á meðan hún hefur ekki verið sýknuð af þeim röngu sakargiftum sem hún var dæmd fyrir. Lögmaður þeirra lætur sér hins vegar ekki nægja að vísa í slíkar forsendur, heldur skrifar langloku þar sem hann rekur rangar sakargiftir Erlu og lætur eins og þær komi nýjum sýknudómi hæstaréttar í málinu ekkert við.
Í bréfi sínu rekur Valtýr Sigurðsson lögmaður (sá sami og stýrði upphaflegri rannsókn á hvarfi Geirfinns) það hvernig Erla og félagar hennar fóru til Keflavíkur, fóru í Hafnarbúðina, fóru í Slippinn – drápu ekki Geirfinn – fóru aftur til Reykjavíkur og héldu fund þar sem þau sammæltust um að ef þau yrðu einhverntíma handtekin fyrir að myrða Geirfinn þá ætluðu þau að kenna Klúbbmönnum um og fóru svo og grófu líkið af Geirfinni. Hann lætur þess hins vegar ekki getið að atvikalýsing á Keflavíkurförinni er í veigamiklum atriðum samhljóma frásögn manns sem áður spann upp samsvarandi sögu með tveimur Klúbbmönnum í og gerð var lögregluskýrsla um, þar sem atburðarásinni var lýst en henni hafnað sem fylleríisrausi. Sú saga var skráð nokkrum mánuðum áður en Erla sagði samsvarandi sögu.
Með stöðu grunaðs manns
Í einum af mörgum eftirmálum G&G var opinber rannsókn á því hver bar sök á því að Magnús Leópoldsson var dreginn inn í G&G. Í því máli átti m.a. að bera vitni nefndur Valtýr Sigurðsson lögmaður og fyrrum fógetafulltrúi. Hann krafðist þess að fá stöðu grunaðs manns í málsmeðferðinni og fékk það. Þar með þurfti hann ekki að bera vitni í rannsókn sem hefði getað leitt til sakfellingar hans sjálfs. Hann hefur því í raun ennþá stöðu grunaðs manns um það hvernig sök var komið á Magnús Leópoldsson.