Á föstudaginn var síðasti dagur allsherjarverkfalls fyrir loftslagið. Viku mótmælum þar sem um 6,6 milljónir hafa tekið þátt á heimsvísu. Þetta eru því ein mestu alþjóðlegu mótmæli sögunnar. Á Íslandi lauk mótmælavikunni með því að aðstandendur loftlagsverkfallanna kynntu stjórnvöldum tvær meginkröfur sínar: 1) Að lýst verði yfir neyðarástandi og 2) Að 2,5 prósent af landsframleiðslu fari í loftlagsaðgerðir.
Kröfur sem ráðherrar sögðust myndu taka tillit til en gátu ekki skrifað undir á staðnum. Kröfur sem margir myndu telja að séu óraunhæfir draumórar. Kröfur sem ég styð og styð ekki.
Krafan um að 2,5% af þjóðarframleiðslu fari í loftlagsaðgerðir
Sú krafa sem ráðherrum var kynnt gengur lengra en krafan um að 2,5% af þjóðarframleiðslu fari í loftlagsaðgerðir. Ég mun hér halda mér við hana. Sú tala er byggð á mati IPCC skýrslunnar um hversu mikið það muni að jafnaði kosta lönd á heimsvísu að ná markmiðinu að halda sér innan 1,5 gráðu hlýnunar. Þessari tölu er hægt að andmæla á þeim grundvelli að ekki er víst að alheimsmeðaltal eigi vel við íslenskar aðstæður þar sem nóg er af endurnýjanlegri orku og hreinu vatni. Á móti kemur að Íslendingar losa hvað mest á mann í heimi. Þessari tölu er líka hægt að andmæla á þeim grundvelli að það er ólíklegt að við í einu stökki förum frá hlutfalli dagsins í dag yfir í að eyða 2,5% af þjóðarframleiðslu.
Vandamálið er, eins og Greta Thunberg benti á 20. september síðastliðinn í ræðu sinni fyrir ameríska þinginu, að óvinur okkar eru ekki pólitískir andstæðingar eða almenningsálitið. Óvinur okkar er eðlisfræðin. Náttúrunni er alveg sama þó að framlög til loftlagsaðgerða hafi hlutfallslega aukist mjög mikið í tíð núverandi ríkisstjórnar. Náttúrunni er sama þó að við séum hlutfallslega að ná meiri árangri núna í orkuskiptum en við vorum í fyrra. Ef við byrjum á of lágum punkti, getur hlutfallsleg aukning aldrei orðið nóg. Það eitt skiptir náttúruna máli að raunverulegur árangur náist. Og náttúran er ekki smár málaflokkur í litlu ráðuneyti heldur forsenda alls. Það er vegna þess að röskun á loftslaginu er röskun á möguleikum okkar til þess að lifa heilbrigðu lífi, lifa á sjávarútvegi og lifa í friði.
Þess vegna tel ég að 2,5% markmiðið sé mun betra markmið heldur en 1,5 gráðu markmiði Parísarsáttmálans sem ríkisstjórn Íslands hefur skrifað undir. Gráðu markmiðið segir ekkert um aðgerðir, aðeins hvert við ætlum að stefna. 2,5% markmiðið segir hvað við ætlum að verja miklum mannauði, hugsun, kröftum, og fjármagni í loftlagsaðgerðir. Þetta er eitthvað sem allar þjóðir heimsins þurfa að sameinast um til að ná árangri. Ísland getur fyrst og fremst haft áhrif á loftslagið með því að vera fyrirmynd annarra þjóða. Ef Íslendingum er alvara með að vera leiðandi í loftlagsmálum þá þurfum við að setja tóninn. Og þó það sé langt frá núverandi stöðu þá segi ég eins og Greta í sömu ræðu: Við verðum að gera hið ómögulega.
Krafan um að lýst verði yfir neyðarástandi
Nú þegar ég hef opinberað mig sem loftlagsaktivista og draumórakonu, kann einhver að undrast af hverju ég segi þá nei við því að lýsa yfir neyðarástandi. Var ekki náttúran forsenda alls? Erum við ekki þegar búin að raska loftslaginu? Er ekki neyðarástand? Svarið er auðvitað jú, jú, og jú. Vandamálið í mínum huga er hvað það þýðir að lýsa yfir pólitísku neyðarástandi. Í mínum huga getur það þýtt þrennt.
Í mínum huga gæti það í öðru lagi jafnvel verið verra ef yfirlýsing um neyðarástand fylgdu afleiðingar, á borð við þær sem eru fylgifiskar slíkra yfirlýsinga á stríðstímum. Í þeim tilvikum fá almannavarnir og pólitíkusar auknar valdheimildir til að framfylgja vilja sínum. Viljum við virkilega gefa íslenskum pólitíkusum leyfi til þess að þvinga fram aðgerðir í óþökk þjóðarinnar? Viljum við að lögreglan fari að handtaka þá sem nota jarðefnaeldsneyti? Þó að ástandið sé svart þá vil ég ekki láta blekkjast af skammsýnum lausnum sem opna dyr fyrir ófyrirsjáanlegri valdníðslu og einræðisherrum.
Að lokum veit ég ekki hvaða tilgangi það þjónar að lýsa yfir neyðarástandi sem við sjáum ekki fyrir endann á. Hvenær verður hægt að aflýsa neyðarástandinu? Röskunin á loftslaginu er þegar orðin, og mun halda áfram jafnvel þótt allar mannverur hyrfu af jörðinni á morgun. Að lýsa yfir neyðarástandi er eitthvað sem manneskjur gera á mannlegum tímaskala. Mannlegt viðvörunarkerfi er ekki gert fyrir að búa við neyðarástand í árhundruð. Það er kominn tími til þess að átta sig á því að baráttan við loftlagsröskunina hefur engan endapunkt á okkar tímum. Hún mun fylgja okkur á einn eða annan hátt um ókomna framtíð.
Við höfum aldrei staðið frammi fyrir annarri eins áskorun og loftlagsröskuninni. Það þýðir að við sem einstaklingar og samfélag þurfum að vera betri heldur en nokkurn tímann áður. Kerfin okkar þurfa að vera sterkari en verið hefur. Við þurfum að treysta þeim og þau þurfa að vera traustsins verð. Við þurfum að kjósa grænt, pólitíkusar þurfa að framkvæma grænt og við þurfum að sætta okkur við grænt. Við þurfum að vinna betur saman, með hvert öðru, með fyrirtækjum, og með þjóðum heimsins. Og vegna þess að ríkustu þjóðirnar og einstaklingarnir menga lang mest, þá eru aðgerðir sem stuðla að jöfnuði og réttlæti með kröftugustu loftlagsaðgerðunum sem við getum ráðist í. Náttúran er í neyð, og átakið sem við þurfum að fara í má jafna við stríðsrekstur, en það þýðir ekki að við eigum að fórna lýðræði og mannréttindum á altari loftslagsaðgerða.
Höfundur er doktor í umhverfis- og félagssálfræði.