Í ljósi frétta gærdagsins og umræðu í kjölfarið um skvísubörnin svokölluðu langar mig að leggja orð í belg þar sem stór hluti af mínu starfi sem talmeinafræðingur á Barnaspítala Hringsins snýst um að sinna börnum sem gengur illa að borða og/eða drekka – af ýmsum ástæðum. Mér fannst nefnilega alveg vanta hagnýt ráð til foreldra og umönnunaraðila, bæði um eðlileg viðbrögð barna þegar þau fá fyrst að borða og leiðir til að hvetja til og ýta undir að börn borði fjölbreyttan mat.
Eftirfarandi ráðleggingar miða við börn sem eru í „eðlilegu“ þroskaferli en ekki með þekkt undirliggjandi vandamál og erfiðleika í tengslum við fæðuinntöku eða kyngingu. Stundum þarf að laga fæðuna að börnum sem glíma við einhver vandamál, tímabundið eða í lengri tíma. Sum þurfa meira svigrúm en önnur til að æfa sig og ná upp færni á hverju tímabili.
- Fyrsti punkturinn er þessi: Það að læra að borða mat er lærdómsferli. Alveg eins og barn þarf að æfa sig til að læra að ganga eða skríða, þarf barn að æfa sig til að læra að borða allan mat.
- Helstu tímabilin þar sem upp koma erfiðleikar hjá börnum í fæðuinntökunni er annars vegar þegar þau færast af vökva (brjósti/pela) yfir í mauk og svo af mauki yfir í grófara mauk eða bita.
- Þegar börn borða skiptir miklu máli að þau hafi góðan stuðning við líkamann. Ef þau upplifa að þau séu ekki alveg stöðug eða örugg í sætinu eiga þau oft erfiðara með að einbeita sér að matartímanum og það getur því gengið erfiðar að borða.
- Áður en börn eru farin að sitja alveg sjálf án stuðnings er best að gefa þeim að borða í ömmustól eða öðrum stól með góðum stuðningi við bak, háls og höfuð. Til dæmis eru svokallaðir bumbo stólar ekki endilega góðir fyrir þennan hóp því þar er ekki stuðningur við efra bak, háls og höfuð. Orka barna fer þá oft að miklu leyti í að halda þeim uppréttum.
- Þegar börn eru farin að halda höfðinu vel og sitja nokkurn veginn sjálf er samt mikilvægt að horfa á stöðu þeirra í stólnum og passa að styðja við þau ef þarf. Til dæmis með því að hafa pall eða einhvern stuðning undir fótum þeirra.
- Einnig þarf að ítreka mikilvægi þess að kenna börnum að nota áhöld. Það er mikilvæg færni fólgin í því að kunna að taka við mat úr skeið eða af gaffli, bæði með því að borða sjálf en líka með því að láta mata sig. Að sjúga mauk úr skvísu er ekki fullnægjandi færni til að byggja ofan á með það að markmiði að geta borðað allan mat. Ef börn hafa nánast eingöngu sogið mauk úr skvísu er ekki hægt að ætlast til að þau geti allt í einu einn daginn borðað bita, það vantar mörg færniskref þarna á milli.
- Þegar börn fá mauk í fyrsta skipti er eðlilegt að það gangi ekki alveg vandræðalaust. Í fyrstu ulla börnin maukinu/grautnum út úr sér af því þau kunna ekki ennþá að gera það sem þarf – færnin er ekki komin. Svo með æfingunni þá læra þau að opna munninn, taka við skeiðinni með matnum og kyngja.
- Um leið og börn geta haldið höfði og setið sjálf í stól er tímabært að leyfa þeim að taka þátt í máltíðinni. Já, það MÁ og Á að leika sér með matinn. Þ.e.a.s. leyfið börnunum að snerta, sulla, klína, skvetta. Finna lyktina, finna áferðina. Það eru til rannsóknir sem sýna að þegar börn fá tækifæri til að snerta matinn og upplifa hann á annan hátt en beint í munninn líklegra að þau fáist til að borða hann.
- Það gildir eins með erfiðari áferð. Í fyrstu vantar þau færni til að takast á við bita eða grófara mauk. En þau þurfa æfingu og með því að gefa þeim tækifæri til að æfa sig og leyfa þeim að prófa sjálf, hræra, sleikja, pota og kremja verða þau viljugri að taka við matnum í munninn og setja upp í sig sjálf.
- Þó börn kúgist eða setji upp grettu þegar þau fá einhvern mat í fyrsta skipti þýðir það ekki að þeim finnist sá matur vondur og það þýði ekkert að gefa þann mat. Prófið aftur daginn eftir eða þarnæsta dag. Börn þurfa að smakka mat 10-15 sinnum að minnsta kosti til að vita hvað þeim raunverulega finnst (og það á ekki bara við um að smakka 10 bita í sama matmálstíma, heldur í 10 mismunandi skipti).
- Hafið fæðuna alltaf fjölbreytta. Frá fyrsta grautnum og fram eftir öllu. Það þarf í fyrstu að passa upp á að áferð og bitar séu við hæfi aldurs barnanna en hafið fjölbreytni í bragði, lykt og lit. Notið heimagert mauk og keypt mauk í bland. Þannig fæst mun fjölbreyttari bragð, áferð og lykt en ef eingöngu er notað búðarkeypt mauk.
- Ekki plata börnin. Ekki blanda grænmetinu saman við annað og segja þeim að það sé ekki grænmeti í matnum. Kynnið þau fyrir öllu mögulegu frá upphafi.
- Leyfið börnunum alltaf að fá allt á diskinn sinn (ef það passar fyrir þeirra aldur). Ekki ákveða fyrirfram að þeim finnist eitthvað ekki gott. Hafið fjölbreytni alltaf í fyrirrúmi.
- Ef það er eitthvað í matinn sem þið eruð óviss um að börnin borði, hafið þá alltaf eitthvað með sem þið vitið að þeim líkar við.
- Bjóðið allar sortir. Talið um eiginleika matarins, lyktina, litinn, hvað heyrist þegar við bítum í þennan mat, heyrist eins þegar við bítum í hinn matinn? Talið um hvað ykkur finnst um matinn og hvers vegna.
- Ekki pressa. Ekki tala um hversu marga bita á að borða. Reynið eins og þið getið að halda matmálstímum stresslausum. Eigið jákvæð samskipti og ræðið um allt milli himins og jarðar.
- Treystið því að börnin finni sín eigin svengdar- og seddumörk. Lærið á merki barnanna og takið mark á þeim. Stoppið þegar börn sýna merki um að þau séu södd, ekki suða um „einn bita í viðbót fyrir þennan eða hinn“ – börn eiga ekki að borða af því einhver annar vill það heldur af því þau eru svöng.
- Síðast en ekki síst. Haldið öllum skjátækjum og öðru sem dregur athyglina frá matnum utan við matmálstíma.
Það gildir það sama í þessu og öllu öðru. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Ef þið bjóðið upp á fjölbreytta fæðu frá upphafi, hafið jákvæðni, gleði, traust og jafnvel smá ævintýramennsku að leiðarljósi í tengslum við matmálstíma eru allar líkur á að börnin borði fjölbreytta fæðu og nái góðum tökum á þeirri færni sem til þarf – án nokkurra inngripa.