Enn og aftur er farið að ræða Sundabraut og nú hefur samgönguráðherra mikinn áhuga á málinu. Það er framför frá fyrri árum þegar landsbyggðarráðherrar sáu fáa kosti við hana aðra en að fljótlegra væri í bæinn en áður og síðan voru grafin göng annars staðar á landinu. Það er gott og blessað, Sundabraut er ekki lífsnauðsyn og nýjustu rannsóknir benda ekki til að hún komi Reykvíkingum að miklu gagni, nema kannski þeim sem búa á Kjalarnesi. Samkvæmt nýjustu fréttum er ekki talið að hún létti á umferðarþunga um Ártúnshöfða nema lítillega og tvöfaldi raunar umferðarþunga á Sæbraut, sem ekki er á bætandi á álagstíma eins og ökumenn vita.
En samgönguráðherra hefur sem sagt mikinn áhuga, svo mikinn að eftir er tekið. Hann fékk líka í sumar skýrslu frá hópi sérfræðinga um Sundabraut þar sem farið var yfir alla möguleika. Þar voru nokkrir gamlir og úreltir kostir endanlega slegnir út af borðinu, svokölluð innri leið innst inni í Kleppsvíkinni og botngöng yfir víkina. Eftir stóðu svokölluð lágbrú yfir á Holtaveg og jarðgöng undir víkina sem kæmu upp við gatnamót Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar. Göngin lægju að töluverðum hluta undir Sæbraut og léttu þannig í raun á umferðarþunga hennar eins og fram kemur í skýrslunni. En veigamesta niðurstaða skýrslunnar er þessi:
Starfshópurinn telur að miðað við gildandi skipulag, stefnu stjórnvalda og framtíðaráform Faxaflóahafna og skipafélaganna hvað varðar hafnarsvæðið sé í́ raun aðeins einn raunhæfur möguleiki fyrir útfærslu Sundabrautar þvert yfir Kleppsvík, jarðgöng. (26)
Þrátt fyrir þessa afdráttarlausu niðurstöðu sérfræðinganna kemur samgönguráðherra fram og talar um lágbrú eins og ekkert sé sé sjálfsagðara, lágbrú með 30 þúsund bíla á dag sem renna á inn á Holtaveg, þann sama Holtaveg og Langholtsskóli stendur við og vegna stíflna á Sæbraut færi stór hluti umferðarinnar áreiðanlega í gegnum gróin íbúahverfi, Langholtsveginn, Laugarásveginn, Álfheima. Ráðherra hefur alveg gleymt að ræða við íbúa þessa hverfis sem hafa að vísu bara hálft atkvæði á við suma aðra íbúa á landinu, en við erum mörg og eigum okkar rétt líka. Enda var það svo að síðast þegar rætt var um Sundabraut þá var einróma samþykkt af öllum flokkum að jarðgangaleiðin yrði farin.
Rök ráðherra með lágbrú eru einkum tvenn: 1) brú er ódýrari framkvæmd 2) brú laðar að sér meiri umferð og fremur hjólandi og gangandi umferð. Tökum þessi rök fyrir hvor um sig.
- Vissulega er rétt að kostnaður við brú yrði lægri en við jarðgöng. Þá er hins vegar eftir að reikna kostnaðinn við að flytja starfsemi helmings Sundahafnar eitthvert annað, kannski til Þorlákshafnar eða Grundarfjarðar, hver veit? Sá kostnaður hleypur áreiðanlega á milljörðum ef ekki milljarðatugum og hver á að greiða hann? Þeir sem aka yfir brúna? Við það bætist kostnaðurinn við að flytja megnið af þeim vörum sem nú koma til Sundahafnar til Reykjavíkur, kolefnissporið yrði enn stærra og vörurnar dýrari. Eiga neytendur að greiða fyrir brúardrauma ráðherrans?
- Brú tekur áreiðanlega fremur að sér hjólandi og gangandi umferð, en það á ekki alveg við um hraðbrautarbrú með 30 þúsund bíla umferð. Nú þegar er er göngu- og hjólabrú yfir Elliðaárnar innst í voginum og fólk kýs þá leið áreiðanlega miklu fremur en brú út á miðri víkinni innan um þúsundir bíla og þá vinda sem þar blása. Hvort meiri umferð fari um brúna er háð fleiri þáttum, eins og til dæmis hversu greið umferðin er eftir að á land er komið. Það er lítið gagn að brú með fleiri bílum sem lenda í stíflu um leið og yfir er komið.
Í skýrslu starfshópsins kemur fram kostnaðarmat (með fyrirvörum) þar sem kostnaður við þverun Kleppsvíkur með lágbrú er talinn vera 35 milljarðar króna, en það er án alls kostnaðar við að flytja hálfa Sundahöfn eitthvert annað. Jarðgöngin eru talin kosta 52 milljarða og það er vissulega töluverður munur. Nú hafa verið gerð jarðgöng um allt land og flest án gjaldtöku nema undir Hvalfjörð og gegnum Vaðlaheiði. Hvalfjarðargöng greiddu sig upp á tveimur áratugum með umtalsvert minni umferð áætlað er að fari um Sundabraut, í kringum 6000-7000 bíla á dag, gjaldið var um eða kringum þúsund krónur, muni ég rétt. Vaðlaheiðargöng hafa ekki reynst eins vel og eru komin í fangið á skattborgurum, andstætt loforðum þáverandi þingmanna og ráðherra kjördæmisins. Þar fara innan við 2000 bílar um á dag og gjaldið er 15 hundruð krónur fyrir þá sem skrá sig fyrir fram og eru ekki með einhvers konar áskrift. Það tekur því langan tíma að fá þessi göng endurgreidd.
Skýrsluhöfundar halda því einnig fram að Sundagöng þyrftu einhvers konar meðgjöf vegna kostnaðar. Það er þó hægt að velta því fyrir sér. Sé gert ráð fyrir aðeins 20 þúsund bílum á dag og hver greiðir að meðaltali 300 krónur fyrir ferðina fengjust 2,2 milljarðar króna í brúttótekjur á ári, meira eftir því sem umferð er meiri eða gjald hærra. Afskriftatími gæti þannig verið í kringum þrjá áratugi og það þótt vaxtakostnaður og annar kostnaður sé reiknaður með. Það er ekkert tiltökumál við svo stóra framkvæmd.
Sundagöng hafa einnig þann kost að þau liggja að hluta til undir Sæbraut og létta þannig á umferð þar eins og áður greindi og síðan kæmu þau að tveimur meginumferðaræðum Reykjavíkur, Kringlumýrarbraut og Sæbraut, umferðin dreifist þannig betur á hraðbrautir sem hafa það hlutverk að taka við henni, ekki íbúagötur í Reykjavík sem búa við næga umferð fyrir.
En eftir stendur að ráðherrann á eftir að tala við þá sem mestra hagsmuna eiga að gæta í hverfum borgarinnar og hafa engan áhuga á að fá aukna bílaumferð um hverfin sín. Það er líka undarlegt hve rík áhersla er lögð á brúna eftir afdráttarlausa niðurstöðu starfshópsins, maður spyr sig, er það vegna þess að einhverjir fái þessa fínu höfn til sín með tilheyrandi tekjum? Og hverjir eiga atvinnulóðirnar við Holtagarða, sem hækka vafalaust mikið í verði við brúargerðina? En íbúar í kringum Laugardalinn vilja alls ekki fá Sundabraut inn í hverfin sín og hafa margítrekað það og eru tilbúnir að berjast áfram gegn slíkri ósvinnu.
Höfundur er stjórnarmaður í Íbúasamtökum Laugardals og var fulltrúi ÍL í samráðshópi um Sundabraut 2005-2006.