Mér finnst mjög gaman að horfa á fótbolta í sjónvarpinu og líka á vellinum. En mér finnst leiðinlegt að það sé ekki til alvöru deild fyrir krakka og eitthvað meira en bara tveir dagar. Það er leiðinlegt að geta aldrei séð fótboltaleiki krakka í sjónvarpinu. Ég er viss um að krakkar sem hafa gaman af fótbolta, og það eru MJÖG margir krakkar, hefðu gaman að því. Mig langaði að spyrja einhvern hvort það væri hægt að hafa alvöru deild fyrir krakka og sýna leikina í sjónvarpinu. Ég vissi bara ekki hvern ég ætti að spyrja.
Svo fór ég á hótel sem ég má kannski ekki segja hvað hét, segir mamma sem kom með mér. En þar voru fótboltamenn að tala saman fyrir leikinn við Frakkland. Ég fann þar mann sem var að drekka kaffi. Hann heitir Pétur Marteinsson og ég hafði séð hann í sjónvarpinu í HM-stofunni. Mjög oft. Að tala um fótbolta og útskýra allt. Svo mér fannst sniðugt að spyrja Pétur að þessu. Pétur var einu sinni í landsliðinu og Fram og KR. Hann spilaði líka fótbolta í Englandi, Svíþjóð og Noregi. Meira að segja pabbi hans var einu sinni fyrirliði landsliðsins.
Þegar ég kom var Pétur með sænskum markmannsþjálfara sem æfir Hannes. Hannes er í Val eins og ég. Svo ég gat ekki talað við Pétur fyrr en hann var búinn að tala við sænska manninn. En þegar ég kom kynnti Pétur mig samt fyrir Emil Hallfreðssyni. Hann er uppáhalds leikmaðurinn hans pabba míns því hann átti heima á Ítalíu og er sköllóttur og kann að tala ítölsku alveg eins og pabbi. Ég sagði það við Emil og þá sagði Emil að pabbi væri uppáhalds aðdáandinn sinn. Svo fengum við mamma okkur epladjús og kaffi á meðan Pétur kláraði að tala. Áður en hann gat talað við mig kynnti hann mig samt fyrir Birki Má Sævarssyni. Það var mjög gaman.
Svo tók ég viðtal við Pétur og spurði: Er hægt að búa til Pepsi Max deild handa krökkum og sjá þá alltaf spila fótbolta í sjónvarpinu?
Frábær hugmynd! sagði Pétur. Ég held að það sé mikill áhugi á að fylgjast með ungu íslensku íþróttafólki keppa. Hvort sem það héti Pepsi Max deild eða eitthvað annað, þá væri það gaman. Mögulega gætu verið fyrirtæki sem myndu vilja styrkja svoleiðis. Ég gæti trúað að mörgum krökkum gæti þótt mjög gaman að fylgjast með því og það gæti ýtt undir að fleiri krakkar tækju þátt í íþróttum.
Ég var glaður að heyra Pétur segja þetta.
Eru einhver fyrirtæki sem myndu vilja hjálpa við að gera þetta? Og kannski líka eitthvað fótboltafólk?
Næst ætla ég að tala um þegar Ísland mætir Andorra á mánudaginn.