Rick Perry, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, ávarpaði setningarathöfn Arctic Circle í Hörpu á fimmtudaginn. Þar sagði hann að Norðurslóðir væru barmafullar af orkuauðlindum og hvatti til þess að þær verði nýttar „íbúum þar og heimsbyggðinni til hagsbóta“. Perry er ekki einn um þessa skoðun, en á dagskrá ráðstefnunnar var heilt málþing um nýtingu jarðefnaeldsneytis á Norðurslóðum.
Það er mikill misskilingur að nýting jarðefnaeldsneytis geti orðið til hagsbóta fyrir íbúa Norðurslóða. Þvert á móti stafar íbúum þessa heimshluta, sem og jarðarinnar allrar, alvarleg ógn af nýtingu jarðefnaeldsneytis vegna staðbundinna og hnattrænna áhrifa loftslagsbreytinga.
Loftslagsbomba sem má ekki springa
Í jarðlögum undir hafsbotni Norðurslóða má finna gríðarlegt magn olíu og jarðgass. Umhverfisverndarsamtök skilgreina svæðið sem eina af „kolefnisbombum“ jarðar vegna þeirra afleiðinga sem það gæti haft fyrir loftslagið að brenna jarðefnaeldsneytið sem þar má finna. Það væri eins og að sprengja kolefnisbombu út í andrúmsloftið.
Staðreyndin er þessi: Ef allt jarðefnaeldsneyti sem vitað er um í heiminum yrði sótt upp úr jörðinni og brennt myndi það losa um 2795 gígatonn af koltvísýringi. Til þess að ná markmiði Parísarsáttmálans um að hlýnun jarðar haldist innan tveggja gráðna megum við hins vegar ekki losa meira en 565 gígatonn, eða einn fimmta þess magns. Þetta þýðir að 80% alls jarðefnaeldsneytis sem vitað er um í heiminum verður að liggja ósnert ofan í jörðinni ef við ætlum að eiga möguleika á að ná markmiðum Parísarsáttmálans.
Það er óðs manns æði og ætti hreinlega að vera glæpur gegn mannkyni að leita að nýjum olíu- og gaslindum á Norðurslóðum þegar við vitum nú þegar um fimmfalt meira magn jarðefnaeldsneytis en við megum brenna.
Loftslagsbreytingar ógna hagsmunum Íslendinga
Áhrif loftslagsbreytinga á Norðurslóðir verða gríðarleg og við Íslendingar förum ekki varhluta af þeim. Tíðni ofsaveðra mun aukast hér eins og annars staðar. Bráðnun jökla mun ógna möguleikum okkar til raforkuframleiðslu og gæti einnig aukið tíðni eldgosa. Hlýnun og súrnun sjávar hafa áhrif á fiskistofna við landið. Bráðnun Grænlandsjökuls gæti hægt á Golfstraumnum, en slíkar breytingar hefðu alvarleg áhrif á búsetuskilyrði á Íslandi. Þá eru ófyrirséðar þær afleiðingar sem auðlindaþurrð og aukinn fólksflótti af völdum loftslagsbreytinga gæti haft fyrir félagslegan og efnahagslegan stöðugleika í heiminum öllum.
Það er í þessu samhengi sem við verðum að ræða sókn olíuframleiðenda í nýjar olíu- og gaslindir á Norðurslóðum. Opnun Norðurslóða fyrir nýtingu jarðefnaeldsneytis verður engum til hagsbóta. Í reynd ógnar hún þjóðaröryggi okkar Íslendinga og annarra þjóða á Norðurslóðum. Íslensk stjórnvöld ættu því tafarlaust að setja bann við nýtingu jarðefnaeldsneytis í lögsögu Íslands og hvetja til þess á alþjóðlegum vettvangi að allar slíkar auðlindir á Norðurslóðum verði látnar liggja undir hafsbotninum.