„Reynið þér að hugsa yður Dettifoss, sem ekki hafið séð hann. Jökulsá á Fjöllum, eitt af agalegustu fljótum þessa lands […] Straumþungi árinnar er svo ógurlegur, bjargið svo þverhnípt, að vatnið þeytist fram af brúninni í óskaplegum flekum, sem springa og sundrast í fallinu, leysast sundur í vatnsstjörnur, sem þjóta í allar áttir og draga eftir sér úðahala. […] Menn standa eins og frammi fyrir dómstóli, þar sem hið dýpsta í þeim er knúið fram. Vitið skilur ekki. Viljinn bognar.“
Textinn hér að ofan er úr grein Sigurðar Nordal, sem birtist í Eimreiðinni frá árinu 1921. Já - þegar fólk horfir á gífurlegt vatnsrennsli og afl Dettifoss hljóta að vakna ýmsar hugrenningar. Sumir dást að óbeisluðu og villtu náttúruaflinu, meðan aðrir freistast fremur til að hugsa um orkumagnið sem þarna steypist fram og streymir óvirkjað til sjávar.
Sigurður heitinn Þórarinsson, jarðfræðingur, benti á að í jökulfljótinu og Dettifossi búi annað og meira en kílóvattstundir; nefnilega verðmæti sem „mælast í unaðsstundum“. Þannig veiti frjáls fossinn okkur í reynd miklu meiri verðmæti í formi ánægju og unaðar, heldur en ef hann væri virkjaður.
En Dettifoss gefur líka tilefni til annarra hugrenninga. Sbr. það hvernig Andri Snær Magnason, rithöfundur, hefur sett gríðarlegt vatnsmagn fossins í áhugavert samhengi við olíuframleiðslu heimsins. Sem vert er að staldra við og íhuga.
Eins og flestir vita þá hefur olíuframleiðsla í heiminum lengi vaxið nokkuð jafnt og þétt. Þegar Orkubloggið byrjaði göngu sína árið 2008 nam olíuframleiðsla og olíunotkun í heiminum á hverjum sólarhring rétt rúmlega 80 milljónum tunna. Síðan þá hefur framleiðslan og olíunotkun okkar aukist verulega. Í dag er magnið af olíu sem framleidd er og notuð á hverjum sólarhring komið yfir 100 milljónir tunna. Og fer enn vaxandi.
Það vill svo til að þetta magn olíu sem framleitt er á degi hverjum í dag, um 100 milljónir tunna, mun vera nánast jafn mikið að rúmmáli eins og daglegt meðalrennsli Dettifoss. Reyndar er eðlismassi olíu og vatns ekki hinn sami, en hér erum við að bera saman rúmmál. Samanburðurinn þarna er mjög áhugaverður og til þess fallin að vekja fólk til umhugsunar.
Það er sem sagt svo að þegar við stöndum á gljúfurbarmi Dettifoss og horfum á ægikraft fossins getum við ímyndað okkur að þar steypist ekki gruggugt jökulvatn fram af fossbrúninni, heldur kolsvört olía sem knýr efnahagslíf heimsins. Til hagsbóta fyrir flest okkar, en með tilheyrandi mengun og geysilegri kolefnislosun. Þannig getur Dettifoss verið nokkuð áþreifanlega áminning um það hvernig olíuflóðið streymir úr iðrum jarðarinnar á hverju andartaki veraldarinnar fyrir tilverknað manna.
Eftir einungis fáein ár verður framleiðsla og notkun heimsins á olíu svo orðin ennþá meiri en nú er, enda eykst hún um u.þ.b. 1,5-2% á ári. Mest af þessu sístækkandi, orkuríka og eldfima olíufljóti er notað sem brunaeldsneyti. Hvaða áhrif sá mikli og sívaxandi brennandi olíuflaumur mun hafa á líf og unaðsstundir komandi kynslóða er kannski ófyrirsjáanlegt. En varla er þessi flaumur af olíu og bruninn á henni áhrifalaus á lífríkið.
Samanburður á olíuframleiðslu við rennsli Dettifoss er okkur líka áminning um geysilegt orkuinnihald olíu. Og þar með um það risaátak sem er framundan til að þróa aðra hagkvæma orkugjafa sem geta orðið til þess minnka þörfina á olíu (og jarðgasi og kolum).
Þarna er sannarlega mikið verk óunnið og ekki dugar að sitja og snúa þumlum. Það er því afar einkennilegt að sjá suma þingmenn á hinu háa Alþingi og jafnvel leiðtoga valdamikilla ríkja reyna að gera lítið úr alvarleika málsins. Heilbrigð skynsemi segir okkur að leggja ber höfuðáherslu á að finna leiðir til að auka framboð endurnýjanlegrar orku og draga úr bruna olíufljótsins.
Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland.