Á morgun, 18. október 2019 er alþjóðadagur málþroskaröskunar. „Hvað er málþroskaröskun?“ gætir þú spurt þig. Þeirri spurningu verður reynt að svara á málþingi Máleflis „Samskipti eru mannréttindi“ á morgun, 18. október 2019 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands kl. 14:00. Nánari upplýsingar og skráning á heimasíðu Máleflis, www.malefli.is.
Ég ætla að fara hér yfir nokkrar staðreyndir um málþroskaröskun og merki sem geta gefið vísbendingar um að málþroskaröskun sé til staðar. Hér á eftir fer mjög einfaldað mál, farið mjög grunnt í allar staðreyndir og listarnir alls ekki tæmandi. Þetta er aðeins til að gefa grunnhugmynd um um hvað málið snýst. Þessar upplýsingar eru helst fengnar af tveimur heimasíðum og nokkrum rannsóknum. Nánar um það seinna í greininni því ég vil ekki missa athygli þína frá lestrinum.
- Talið er að á bilinu 7-10% barna séu með málþroskaröskun.
- Málþroskaröskun er oft samhliða öðrum greiningum, t.d. ADHD, tilfinningalegum erfiðleikum og hegðunarerfiðleikum.
- Málþroskaröskun getur haft mikil áhrif á nám og störf einstaklingsins, félagsleg tengsl og almenna líðan.
Tungumál lærist í ákveðnum skrefum á fyrstu árum ævinnar. Oftast læra börn með málþroskaröskun málið í sömu skrefum og aðrir en eru seinni til að ná tökum á því. Hægt er að horfa eftir ákveðnum merkjum á ákveðnum aldri sem gefa vísbendingar um seinkun í málþroska. Eftirfarandi punktar eru skrifaðir um börn með ensku sem móðurmál en líklegt er að birtingarmyndin sé svipuð hjá íslenskum börnum. Ég hvet þig til að koma á málþingið á morgun eða leita þér frekari upplýsinga því eins og ég sagði áðan, þessi umfjöllun er ekki næstum fullnægjandi.
Leikskólaaldur (3-5 ára):
- Setningar eru einfaldar og málfræðiendingar vantar.
- Erfitt að fylgja fyrirmælum sem eru ekki hluti af daglegri rútínu.
- Málskilningur slakur.
- Erfiðeikar við að spyrja spurninga.
- Erfitt að finna orð til að nota þó barn viti hvað það vill segja.
Grunnskólaaldur:
- Erfiðleikar við að fylgja fyrirmælum sem innihalda nokkur skref/þrep.
- Erfiðleikar í lestri, skrift, stærðfræði og stafsetningu.
- Frásögn er óskipulögð og oft vantar upplýsingar í frásögnina.
- Setningar eru einfaldar.
- Erfiðleikar við að finna orð.
Fullorðnir (18+):
- Erfitt að skilja flókið ritað mál (t.d. skólabókartexta).
- Erfiðleikar við að finna réttu orðin til að nota.
- Setningar innihalda oft margar málfræðivillur.
Í lokin vil ég
minna á málþing Máleflis sem ég nefndi hér ofar. Þar getur þú fengið mun
ítarlegri og yfirgripsmeiri fræðslu um málþroskaröskun frá reyndum sérfræðingum.
Nánari upplýsingar og skráning á www.malefli.is.
Ég tók upplýsingar helst af þessum tveimur síðum, www.radld.org og www.dldandme.org. Ég hvet alla lesendur til að skoða þessar heimasíður, ásamt www.malefli.is og leita frekari upplýsinga um málþroskaröskun og skyld mál.