George Orwell var gjarnan umhugað um valdskiptingu mannlegs samfélags. Í bókinni Animal Farm skrifaði hann: „All animals are equal, but some animals are more equal than others.“
Skoðanakönnunin
Nú eru sjö ár liðin frá þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem markaði vatnaskil í sögu lýðveldisins. Skil milli gamla Íslands og hins nýja. Breyting stjórnarskrárinnar með staðfestingu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20.10.2012 var sú langþráða siðbót sem þjóðin krafðist eftir hrun. Stjórnlagaráð með stuðningi meirihluta Alþingis og skipað af ríkisstjórn, skilaði breytingum stjórnarskrárinnar með stuðningi 2/3 kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í stað þess að Alþingi virði lýðræðið og lögleiði þennan merka áfanga lýðræðisumbóta er nú sett af stað skoðanakönnun formanna flokkanna með handvöldu samráðsúrtaki.
Þessi skoðanakönnun væri fagnaðarefni við aðrar aðstæður en marka tilurð hennar, sem er hrunið, búsáhaldabyltingin, Þjóðfundurinn, Stjórnlagaþing, Stjórnlagaráð og þjóðaratkvæðagreiðslan. En hvergi er minnst á tillögur Stjórnlagaráðs sem valkost við hlið tillögu formanna flokkanna. Hvergi er minnst á úrslit og niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Hvergi er minnst á þá sögulegu staðreynd að þjóðin hefur samið og kosið sér nýja stjórnarskrá. Hefði ekki verið heiðarlegra af hálfu fulltrúa almennings að efna til opins samráðsvettvangs og skoðanakönnunar út frá þeim tillögum sem þjóðin kaus sér? Þar sem gagnsæi er viðhaft, er heiðarlegur ásetningur í fyrirrúmi en hið öndverða þar sem leynd hvílir. Þessi framsetning skoðananakönnunarinnar nú, endurspeglar annarlega hagsmuni fárra í fyrirrúmi fjöldans. Hún birtist sem lýðræðisbjögun og fyrirlitning fulltrúarvaldsins gagnvart umbjóðendum sínum, almenningi. Tilurð þessarar skoðanakönnunar brýtur gegn réttlætisvitund hins almenna borgara og gegn trausti á Alþingi og ríkisstjórn sem vart mátti við frekari álitshnekki.
Mannlegt eðli og stjórnmál
Hinn almenni borgari sækist ekki til valda, og enn síður í fé annarra, en lítur frekar til stjórnmála með væntingu um sanngirni, velferð og réttlæti; að hans eigin sjóðum og annarra sé varið af heiðarleika og kostgæfni samfélaginu til heilla.
Stjórnmál eiga að vera vettvangur gagnvirkra samskipta hugsandi fólks um hagrænar lausnir samfélaginu og lífríkinu til góðs. Og þá skiptir höfuðmáli hvaða hugmyndir menn aðhyllast; hvort þeir líta á samfélagið sem hagsmunabandalag sérhagsmuna, eða sem samfélag hugsandi fólks? Ríki fyrra viðhorfið, þá gildir fyrst og fremst að hafa sterkan foringja og viðhlæjandi flokksheild, sem stendur vörð um sérhagsmunina og skiptingu þeirrar köku. Ráði síðari viðhorfið, gildir fyrst og fremst að leyfa ólíkum sjónarmiðum að takast á, innan flokka sem utan, í þeirri von að það leiði til farsællar niðurstöðu fyrir samfélagið í heild.
Andleg, siðferðileg og efnahagsleg sköpun samfélagsins á að vera á ábyrgð heiðarlegs fólks sem leggur sig stöðugt eftir að hugsa og ræða um sameiginleg málefni með almannaheill að leiðarljósi. Farsæl niðurstaða fæðist stundum í samhljómi skoðana en einnig oft í aðstæðum þar sem heggur nærri skoðunum andstæðra fylkinga sem oft á tíðum og óhjákvæmilega reynist, til ásættanlegra lausna. Það er jú eiginlegt markmið lýðræðis, að sem flestir njóti sannmælis skoðanna sinna. Lýðræðið hvílir þannig á stjórnarskrá sem á að ýta undir gagnvirk samskipti hinna mismunandi kerfa samfélagsins sem myndar þjóðfélagið sem við þráum. Pólitísk hugmyndafræði, hægri, vinstri, eða miðja, eiga í engu að gilda um þau sameiginlegu markmið stjórnmálanna, að skapa betra líf og samfélag þorra almennings í hag.
Aðdragandi nýju stjórnarskrárinnar
Brotlending Íslenska lýðveldisins raungerðist í október 2008 en var ljóst hvert stefndi löngu áður. Hrunið var dropinn sem fyllti mælinn og stjórnmálafólki og almenningi var ljóst að lýðræðisbjögunin var orðinn hættuleg og stjórnarskránni varð að breyta.
Þetta sagði Mr Paul M Thompsen frá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum er hann kom til
Reykjavíkur 2008:
„When I traveled to Reykjavik in October 2008 to offer the IMF’s assistance, the situation there was critical. The country’s three main banks—which made up almost the entire financial system—had just collapsed within a week of each other. The sense of fear and shock were palpable—few, if any, countries had ever experienced such a catastrophic economic crash.
....The seriousness of the situation was such, the IMF Mission Chief Iceland, Paul Thomsen, described the Iceland crash as unprecedented and near death experience.“
Afleiðing pólitískt-tengdrar einkavæðingar ríkisbankanna átti sér enga forsögu meðal vestrænna þjóða en gjaldþrot Landsbanka, Kaupþings og Glitnis trónuðu meðal tíu stærstu gjaldþrotum veraldarsögunnar.
Þjóðfundurinn
Eftir að rykið settist fóru Íslendingar að öðlast trú á endurreisnina. Fæðing nýja Íslands varð einhvern veginn sameiginlegur draumur okkar allra.
Þjóðfundinn sóttu 950 manns af landinu öllu, 18 ára til 91 árs, karlar og konur í því sem næst jöfnum hlutföllum. Sjö manna stjórnlaganefnd, skipuð af Alþingi, lagði grunn að skipulagi þjóðfundarins undir forystu Guðrúnar Pétursdóttir líffræðings og formanns nefndarinnar og birti helstu niðurstöður hans. Breið samstaða náðist meðal allra flokka á Alþingi um skipun stjórnlaganefndar og var engin flokkur undantekning í því efni. Sjálfstæðisflokkurinn var þar á þessum tímamótum virkur og viljugur stuðningsaðili. Þverpólitísk samstaða og eining um endurreisn nýja Íslands einkenndi hið pólitíska andrúmsloft og brú samstöðu myndaðist milli þings og þjóðar. 950 þátttakendur voru valin af handahófi úr þjóðskrá sem tryggði að niðurstöður þjóðfundarins endurspeglaði vilja þjóðar í tölfræðilega marktækum skilningi. Tilurð, skipulag og viðurkennd aðferðafræði þjóðfundarins endurspeglaði því lýðræðið í hnotskurn. Um þetta voru allir flokkar, Alþingi og almenningur sammála. Íslendingar 18 ára og eldri áttu jafna möguleika til setu á þjóðfundinum og lögðu þar með grunninn að nýrri stjórnarskrá. Hlutverk Stjórnlagaþings, seinna Stjórnlagaráðs, var í reynd ekki annað en að færa niðurstöður þjóðfundarins í nothæfan frumvarpsbúning. Stjórnlagaráð taldi það skyldu sína að virða niðurstöður þjóðfundarins að megininntaki. Það tókst með smávægilegum frávikum.
Þjóðaratkvæðagreiðslan 20.10.2012 er því niðurstaða þjóðfundarins 2010, útfærð af
stjórnlagaráði:
Fræðasamfélag vesturlanda er samróma um að aðdragandi og tilurð þjóðfundarins og nýju stjórnarskrárinnar sé ein af merkari lýðræðishreyfingum síðari tíma en aðdragandi hans var hvorki sársaukalaus né án tilefnis. Íslenska fjármálakerfið hrundi með afleiðingum sem áttu sér enga hliðstæðu meðal vestrænna þjóða á friðartímum. Án stuðnings Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins, sem skipulagði neyðarbjörgun og lagði línur að endurreisn hagkerfisins, hefði Íslensk þjóð glímt við fátækt um ókomna tíð og liðið fyrir skort á trúverðugleika gagnvart umheiminum.
Andi sáttar, vonar og uppbyggingar sveif yfir vötnum og 28. júlí 2011 samþykkti
stjórnlagaráð eftirfarandi:
„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.
Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.
Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.
Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.
Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða.
Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni. Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins sem öllum ber að virða.“
Stjórnlagaráð
Þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs
Eftirfarandi eru niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur Stjórnlagaráðs sem Alþingi hefur umliðin sjö ár dregið að leiða í lög gegn vilja þjóðar.
Um þetta kusu Íslendingar 20.10.2012
Bæklingur til samanburðar stjórnlagaráðs og núgildandi stjórnarskrár.
Kúvending hluta fulltrúarvaldsins
Það er vandfundin ánægja í því að rifja upp neikvæðar afleiðingar mistaka og enn síður fróun í umvöndun í garð stjórnmálamanna. Of lítið hefur hins vegar verið fjallað um og farið eftir ályktunum og lærdómum merkasta þjóðarspegils sem Íslendingar hafa staðið að, Rannsóknarskýrslu Alþingis.
Auðmýkt og skömm einkenndi stjórnmálastéttina í kjölfar hruns, sem virtist ætla að horfast augu við misgjörðir sínar í fyrstu, án þess þó að biðja almenning nokkurn tíma afsökunar, eins undarlegt og það mátti virðast eftir útgáfu skýrslu RNA. Lúpulegir þingmenn hrunflokkanna sem enn tókst að hanga á þingsætum sínum, létu lítið fyrir sér fara og læddust með veggjum þingsins. Skýrsla RNA vakti sérstaka athygli á samhengi efnahagshrunsins við stjórnmálin og komst m.a. að þeirri niðurstöðu að hrunið, eins skelfilegt og það var þjóðinni, var að mestu afleiðing manngerðra mistaka Íslenskra stjórnmálamanna og flokka. Þeirra sömu flokka og fylktust síðan um endurreisnina og breytingu stjórnarskrárinnar í september 2010, og einnig þeirra sömu, sem seinna, þann 24. mars 2011 studdu tillögu ríkisstjórnarinnar um skipun stjórnlagaráðs, að undanskildum einum flokki, Sjálfstæðisflokki. Einhverra hluta vegna, ventu sjálfstæðismenn þarna kvæði sínu í kross og ákváðu að lúta ekki vilja niðurstöðu þjóðfundar og brýns ákalls Alþingis og þjóðar um endurskoðun stjórnarskrárinnar frá 1944 grundvallaða á alvarlegum niðurstöðum skýrslu RNA sem setti hrunið í beint samhengi við stjórnarskrána og vanþroskað lýðræði. Þrátt fyrir meirihluta stuðning allra flokka Alþingis við skipun stjórnlagaráðs eftir ógildingarákvörðun Hæstaréttar á kosningum Stjórnlagaþings vegna formgalla, ákvað Sjálfstæðisflokkurinn þarna að standa gegn lýðræðisumbótum stjórnarskrárinnar og hefur gert æ síðan.
Af hverju? Í hruninu mátti þjóðin þola þungar búsifjar sem höfðu djúpstæð áhrif á alla, fyrirtæki, almenning, stjórnmálamenn, flokka og þjóðfélagið í heild. Vegna hrunsins má þjóðin nú búa við skert heilbrigðiskerfi, menntakerfi, vegakerfi, velferðakerfi og orðið eftirbátur vestrænna þjóða í margvíslegu tilliti. Þjóð blæðir enn afleiðingum hrunsins 2008 og mun gera svo til áratuga, efnahagslega, heilsufarslega og ekki síst siðferðislega.
Alþingi ályktaði einum rómi 28. september 2010, með öllum 63 atkvæðum greiddum, um nauðsyn endurskoðunar stjórnarskrár lýðveldisins frá 1944. Hvað breyttist á tveimur árum sem gerði það að verkum að Alþingi, nánast eins og það lagði sig, kúvendist í afstöðu sinni? Hafði Sjálfstæðisflokkurinn þessi miklu áhrif á aðra flokka eða náðu pólitískt tengd sérhagsmunasamtök svo djúpt inn í flokkana að þeir ákváðu að snúast gegn lýðræðisumbótum eigin þjóðar?
Hvers vegna studdi Alþingi Þjóðfundinn, Stjórnlagaþing, Stjórnlagaráð, breytingu stjórnarskrárinnar og lýðræðisumbætur í hendur fólksins í landinu en lutu síðan ekki vilja þess þegar hann lá ljós fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20.10.2012? Það eru liðin sjö ár! Orðalag einstakra greina nýju stjórnarskrárinnar hafa lítið með þetta að gera þar sem Alþingi var í lófa lagið að aðlaga þær í anda sáttar við menn og þjóð. Ákall þjóðar um lýðræðisumbætur snérist ekki um formsatriði heldur aðalatriði.
Hugleiðing
Fyrsta skýringin lýtur að fjármagnsvaldi sjávarútvegsins og tengsl hans við stjórnmálamenn og flokka sem er áleitin spurning í meira lagi. Hvar er lýðræðið statt, sé það raunin að stjórnmálin séu til sölu þeim sem hæst bjóða hverju sinni? Sé þessi tilgáta rétt, virðist sem stjórnmálamenn hafi takmarkað, eða ekkert lært af eigin mistökum þar sem misfarið var með eigur almennings í greiðagjörningum milli stjórnmála og óreiðumanna við einkavæðingu bankakerfisins.
Önnur skýringin á kúvendingu Alþingis til nýju stjórnarskrárinnar er fordæmisgildi í ákvörðun Hæstaréttar 27.11.2010 að ógilda kosningu til stjórnlagaþings. Að sú ákvörðun, sem n.b. ekki er dómur, hafi í raun ógilt umboð Alþingis frá 28.09.2010 og að skipun ríkistjórnarinnar til stjórnlagaráðs hafi því ekki lotið einróma óbreyttu umboði, þrátt fyrir þingmeirihluta, og að þar með hafi niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20.10.2012 breyst í skoðanakönnun í stað ráðgefandi stjórnarskrárbreytinga sem Alþingi bæri að lúta?
Þriðja skýringin er sú að flokkum hafi mislíkað svo við verklag og niðurstöður stjórnlagaráðs að þeir töldu sem svo, að Alþingi bæri að standa að tillögum um breytingu stjórnarskrárinnar hér eftir sem síðan yrði lagt í dóm þjóðar gegn um tvö þing staðfest í kosningum?
Einu gildir hvaða réttlætingar fulltrúarvaldið kann að hafa eða bera fyrir sig í dag, vilji þjóðar hefur í engu verið virtur. Fulltrúavaldið misfer með vald umbjóðenda sinna. Það að hundsa vilja almennings í þjóðaratkvæðagreiðslu víkur til hliðar lýðræðinu á grundvelli annara hagsmuna og skoðana, hverjar sem þær kunna að vera. Alþingi hefur lögleiðingarvaldið sín megin en misbeitir því gagnvart umbjóðendum sínum, þjóðinni, sem hefur uppruna valdsins sín megin.
Grein í Vísi þ. 02.10.2019 Katrín Oddsdóttir
„Íslenska ríkið er fullvalda, en íslenska þjóðin er það ekki. Sjálfstæði íslensku þjóðarinnar hefur einfaldlega ekki enn verið náð. Við fögnuðum á sínum tíma sjálfstæði frá Dönum, en hvers virði er sjálfstæði frá nýlenduherrum ef innlend elíta tekur við sem herraþjóð almennings?
Í nýju stjórnarskránni eru reglur sem minnka vald þeirra sem berjast gegn því að þjóðin nýti rétt sinn sem stjórnarskrárgjafi. Þetta eru reglur á borð við:
- Náttúruauðlindir í þjóðareign
- Jafn atkvæðisréttur
- Sterk náttúruvernd
- Beint lýðræði
- Gegnsæi í stjórnsýslu
- Persónukjör
- Þjóðaratkvæðagreiðsla sem skilyrði fyrir framsali ríkisvalds til alþjóðlegra stofnanna.
Það sem þessar reglur eiga sameiginlegt er að þær færa vald frá elítum til almennings. Vald sem aldrei átti að vera annars staðar en hjá þjóðinni sjálfri.“
En aðeins um umdeilda ákvörðun Hæstaréttar að ógilda kosningu til stjórnlagaþings.
Frétt á Rúv, 25.01.2011
Eiríkur Tómasson lagaprófessor
„Eiríkur Tómasson lagaprófessor segir að deila megi um niðurstöðu Hæstaréttar á ógildingu kosninga til stjórnlagaþings - þar sem ekki sé ljóst að annmarkar hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Hæstiréttur komst að þeirra niðurstöðu í dag að kosningar til stjórnlagaþings hefðu verið ógildar. Fjölskipaður dómur fann alvarlega annmarka á framkvæmd kosninganna. Eiríkur segir niðurstöðu Hæstaréttar skýra og að fordæmisgildi hennar sé ríkt.“ - „Það má deila um þessa niðurstöðu. Hvort þessir annmarkar sem vissulega voru fyrir hendi – og voru meiri en ég hafði gert mér í hugarlund – hafi átt að leiða til þessarar niðurstöðu, vegna þess að í lögunum til kosningar til Alþingis er talað um að ekki skuli ógilda kosningu nema ætla megi að gallarnir á kosningunni hafi haft úrslit á niðurstöðu hennar. Það er ekki vikið að því í úrskurði Hæstaréttar eða leiddar líkur að svo hafi verið.“
Aðeins um tilurð Stjórnlagaráðs
Íslenskt samfélag lék á reiðiskjálfi eftir ákvörðun Hæstaréttar og svikabrigsl gengu fylkinga á milli.
Alþingi skipaði í kjölfarið samráðshóp með fulltrúum allra þingflokka til þess að fara yfir úrskurð Hæstaréttar. Meirihluti samráðshópsins komst að þeirri niðurstöðu að leggja fram þingsályktunartillögu um skipun Stjórnlagaráðs og fella úr gildi lögin um Stjórnlagaþing samhliða. Samkvæmt þingsályktunartillögunni skyldi Alþingi skipa þá 25 aðila sem hlotið höfðu kosningu í Stjórnlagaráð. Stjórnlagaráð skyldi vera Alþingi ráðgefandi um setningu nýrrar stjórnarskrár líkt og gert hafði verið ráð fyrir í lögum um Stjórnlagaþing. Athyglisvert er að allir flokkar voru áfram sammála um lýðræðisumbætur, nema Sjálfstæðisflokkurinn. Þarna varð sem sagt kúvending á afstöðu Sjálfstæðisflokksins til stjórnarskrárbreytinga og lýðræðisumbóta yfir höfuð þrátt fyrir fyrri stuðning þeirra þann 28.09.2010 ásamt öllum öðrum þingmönnunum allra flokka til aðkallandi breytinga á stjórnarskránni frá 1944 grundvallaða á niðurstöðum Rannsóknarskýrslu Alþingis.
Hvað sem öðru líður var tillaga endurskoðunarhópsins samþykkt á Alþingi þann 24. mars 2011 og tók Stjórnlagaráð til starfa þ. 6. apríl sama ár. 24 af þeim 25 fulltrúum sem hlutu kosningu þáðu sæti í Stjórnlagaráðinu og var varamaður skipaður í stað þess sem ekki þekktist boðið. Skýrsla Stjórnlaganefndarinnar til Stjórnlagaráðs var mjög ítarleg. Þar voru öll ákvæði Stjórnarskráarinnar skoðuð og krufin til mergjar. Nefndin setti fram tillögur að breytingu á þeim ákvæðum sem henni þótti ástæða til. Nefndin lagði samt sem áður áherslu á að Stjórnarskráin héldi sér að mestu leyti og að ekki yrði hróflað um of við Stjórnskipunarlegum ákvæðum hennar þó svo að sum þeirra yrðu skýrð nánar. Lagði nefndin m.a. til að skýrar yrði gerð grein fyrir þingræði í Stjórnarskránni frá því sem nú er. Stjórnlagaráð átti upphaflega að starfa í 3 mánuði en starfstími þess var framlengdur um mánuð. Heimild var fyrir framlengingunni samkvæmt þingsályktuninni um skipun þess. Stjórnlagaráð afhenti síðan Forseta Alþingis, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, frumvarp að nýrri Stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland þann 29. júlí 2011.
Stjórnlagaráð, vinna þess, tillögur og þjóðaratkvæðagreiðsla voru faglega unnin, yfir allan vafa hafin, og lögleg í alla staði. Alþingi getur ekki virt niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu að vettugi vegna þess að ákveðnum pólitískt vensluðum sérhagsmunaöflum mislíkar ákvörðun þjóðarinnar. Á hvaða forsendum og með hvaða haldbæru rökum getur Alþingi hafnað vilja þjóðarinnar? Það hlýtur að vera eðlileg krafa almennings að fulltrúavaldið geri ýtarlega og formlega grein fyrir afstöðu sinni, nokkuð sem ekki hefur verið gert.
Í þessu samhengi er ekki hægt að horfa fram hjá sögulegum aðdraganda nýju stjórnarskrárinnar, hruninu og þess siðrofs sem varð milli stjórnmálastéttar og þjóðar, en siðbót Íslenskra stjórnmála gagnvart þjóð fólst í ítarlegri sannleiksskýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og nýrri stjórnarskrá Íslendinga.
Ályktanir og lærdómar:
Rannsóknarnefnd Alþingis (2010, 8. bindi, bls. 184)
„Íslensk stjórnmálamenning er vanþroskuð og einkennist af miklu valdi ráðherra og oddvita
stjórnarflokkanna. Þingið rækir illa umræðuhlutverk sitt vegna ofuráherslu á kappræðu þar sem
þekking og rökræður víkja fyrir hernaðarlist og valdaklækjum. Þingið er líka illa í stakk búið til
þess að rækja eftirlitshlutverk sitt, meðal annars vegna ofríkis meirihlutans og framkvæmdarvaldsins, sem og skorts á faglegu baklandi fyrir þingið. Skortur á fagmennsku og
vantrú á fræðilegum röksemdum er mein í íslenskum stjórnmálum. Andvaraleysi hefur verið
ríkjandi gagnvart því hvernig vald í krafti auðs hefur safnast á fárra hendur og ógnað lýðræðislegum
stjórnarháttum.“
Aðeins um heiðarleikann
Svo virðist sem fulltrúar almennings hafi lítið tileinkað sér breytta hugsun né starfshætti þrátt fyrir alvarlega gagnrýni í skýrslu RNA. Heiðarleiki er gjarnan hátt skrifuð dyggð í mannlegu samfélagi. Allir vilja vera kenndir við heiðarleika, jafnvel þeir sem vita ekki hvað orðheldni er. Heiðarleiki er sumum meðfæddur en öðrum nauðsyn að læra og iðka í þágu þeirrar dyggðar að vaxa til manns. Heiðarleiki er samhljómur milli orðs og æðis sem elur af sér traust. Heiðarleiki raungerist þar sem vélabrögð eru ekki viðhöfð né aðrar gryfjur eða blekkingar mannlegra samskipta.
Lýðræðisumræðan á Íslandi, t.a.m. um stjórnarskrá, auðlindir og náttúru, þarf ekki á vélráðum að halda, né skammtímahagsmunum þröngs hóps fyrirtækja, stjórnmála, eða viðskiptamanna. Umræðan þarf ekki að litast kænskubrögðum, heldur krefst heiðarleika, gagnsæis og gagnrýnnar hugsunar. Ástæðan er skýr; niðurstaðan er oft óafturkræf og varðar komandi kynslóðir.
Hugleiðingar um raunverulegan ásetning ríkisstjórnarinnar
Frumvarpsdrög forsætisráðherra að tillögu formannanna um að ríkisstjórnin semji
stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við áður staðfestan meirihluta þjóðar hljóta að teljast andvana fædd. Samráðið virðist vera vísvitandi ásetningur til að tefja og drepa á dreif lögleiðingu nýju stjórnarskrár Stjórnlagaráðs og hafa að engu þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnsýsla sem þessi markar afturför lýðræðis og hnignunar siðferðis og má í því samhengi nefna að traust þjóðar á Alþingi er nú í sögulegu lágmarki eða 18% samkv., nýlegri könnun Gallup og hnignaði milli áranna 2018 og 2019 um 34%. Er það ekki alvarlegt umhugsunarefni fyrir forsætisráðherra og stjórnmálastéttina í heild hvernig komið er fyrir Alþingi þegar 10 ár eru liðin frá hruni? Er það ekki áleitin spurning í huga forsætisráðherra og formanna flokkanna á þessum tímamótum, að því siðrofi og þeirri gjá sem opinberaðist í hruninu fyrir 10 árum skuli vera viðhaldið og breikka?
Að reyna að skilja okkur sjálf
„The creatures outside looked from pig to man, and from man to pig, and from pig to man again; but already it was impossible to say which was which.“ Animal Farm, George Orwell.
All flest fólk kærir sig kollótt um völd og gnægð fjár, heldur velur lífi sínu farveg í umhverfi fjölskyldu, nánustu vina og þess atvinnuumhverfis sem það hefur valið sér. Fé, og valdgirnd munu seint teljast til höfuð dyggða, né vera hluti þeirra gilda sem andlegan þroska næra. Þorri almennings gengur þó til kosninga til að neyta réttar síns til að hafa áhrif á mótun hins stóra samfélags sem það tilheyrir þrátt fyrir nægjusemi heima fyrir. Kosningaþátttaka almennings byggir því á trausti í garð stjórnmálaflokka og fólks, sem ber að virða atkvæði umbjóðenda sinna og skoðun. Hér bregðast stjórnmálin fólkinu, og það svo að þjóðaratkvæðagreiðsla er virt að vettugi með framangreindri skoðanakönnun. Í trausti fólksins til fulltrúa sinna, misnota fulltrúarnir auðsýnt traust. Hvernig réttlætir stjórnmálafólk, sem eru einungis tímabundið kjörnir fulltrúar, þennan gjörning gagnvart eigin samvisku? Hvernig eiga kjósendur að réttlæta fyrir sér þátttöku í kosningum sem eru að engu hafðar?
Í 7 ár hefur Alþingi ekki fært handbær rök fyrir því að lögleiða ekki nýju stjórnarskrána. Af hverju?
Fari svo, að frumvarpsdrög forsætisráðherra að tillögu formanna flokkanna með breyttu og lakari orðalagi frá samþykktum tillögum Stjórnlagaráðs, verði að frumvarpi og lögum á Alþingi, myndi þurfa að rjúfa þing, boða til kosninga og leggja frumvarpið aftur til samþykktar fyrir nýtt Alþingi. Auk þess að leggja frumvarpið fyrir tvö þing, þyrfti að gæta jafnræðis gagnvart þjóð og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvörpin tvo samhliða, þ.e. frumvarp Stjórnlagaráðs og nýtt frumvarp ríkisstjórnar. Það er hægt að álykta sem svo, að slíkt yrði ekki raunhæft enda næsta útilokað að núverandi ríkisstjórn, sem gengi með þessum hætti í berhögg við fyrri vilja þjóðar, myndi ná endurkjöri.
Á hvaða vegferð eru formenn og stjórnmálaflokkar í lýðræðisríki sem ganga gegn vilja umbjóðenda sinna, þjóðar?
Engin stjórnvöld í þroskuðu lýðræðisríki fer fram með þessum hætti sem ber snefil af virðingu fyrir sjálfri sér, og umbjóðendum sínum, þjóðinni. Því má álykta að ásetningur ríkisstjórnarinnar með þessum frumvarpsdrögum nú, sé pólitísk umræðutöf gegn brýnu ákalli þjóðar um hið gagnstæða. Sé sú raunin, að töf og blekkingarleikur sé raunverulegur ásetningur fulltrúavaldsins, grundvallast slíkt ekki á tilraunum til lýðræðisumbóta með skoðanakönnun, heldur hygling þröngs hóps sérhagsmunaaðila á kostnað heildarinnar, nokkuð sem hlýtur að teljast skaðlegt lýðræðisþróun og hagsmunum þjóðar.
Engin lýðræðisþjóð ætti að sætta sig við slíkt.
Til ánægju fyrir lesendur, læt ég hér fylgja með tvo tengla af Animal Farm eftir George Orwell. Fyrri hlekkurinn er inn á hljóðbók á ensku en seinni inn á vel gerða teiknimynd frá 1954.
Frh. lll verður af greininni, Að skilja okkur sjálf.
Árni Már Jensson
Áhugamaður um betra líf.