Þann 9. nóv. n.k. verða 30 ár liðin frá því að íbúar Berlínar rifu niður Berlínarmúrinn. Fáa grunaði þá, að tveimur árum síðar yrðu hin voldugu Sovétríki ekki lengur til. Endatafl Kalda stríðsins var hafið. Af þessu tilefni kemur á næstunni út ný bók undir heitinu: „Exiting the Cold War, Entering the New World . Útgefendur eru Henry Kissinger Center for Global Affairs , Johns Hopkins University í samvinnu við The Brookings Institute í Washington D.C. Höfundar voru flestir í innsta hring leiðtoga stórveldanna á þessum umbrotatímum (1989-92) . Tveir höfundanna eru fulltrúar smáþjóða, sem komu við þessa sögu: Mart Laar, fyrrum forsætisráðherra Eistlands, og fyrrum untanríkisráðherra Íslands, Jón Baldvin Hannibalsson (1988-95) . Það sem hér fer á eftir er stutt brot úr bókarkafla Jón Baldvins, þar sem hann skýrir ,hvers vegna Ísland tók forystu um viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á endurreistu sjálfstæði Eystrasaltsþjóða – í andstöðu við yfirlýsta stefnu leiðtoga Vesturveldanna.
Þegar sagan um endatafl Kalda stríðsins og Hrun Sovétríkjanna er rifjuð upp aldarfjórðungi síðar, er mörgum spurningum enn ósvarað. Ein spurningin er þessi: Voru leiðtogar vestrænna lýðræðisríkja (Bush eldri Bandaríkjaforseti, Kohl kanslari, Mitterarand og Margaret Thatcher) virkilega svo kaldrifjaðir, að þeir væru reiðubúnir að fórna réttmætum kröfum Eystrasaltsþjóða um endurreist sjálfstæði í staðinn fyrir margvíslegan pólitískan ávinning í samningum við Gorbachev? Þótt svo virðist vera við fyrstu sýn, er viðhlítandi svar talsvert flóknara.
Höfum í huga, að Eystrasaltsþjóðirnar þrjár, Eistar. Lettar og Litháar, höfðu horfið af pólitískum ratsjám samtímans í næstum hálfa öld. Í hugum flestra voru þær orðnar „gleymdar“ þjóðir. Svar eins utanríkisráðherra NATO-ríkis til mín, þegar ég eitt sinn sem oftar talaði máli þessara þjóða í NATO, endurspeglar ríkjandi hugsunarhátt: Hann sagði: „Hafa þessar þjóðir ekki alltaf tilheyrt Rússlandi, alla vega?“.
Nýlenduveldi
Ef þetta voru ríkjandi viðhorf stjórnmálaelítunnar í Evrópu, þá voru leiðtogar Vesturveldanna, að eigin mati, ekki að fórna neinu. Höfum í huga, að forysturíki Evrópu – Stóra Bretland, Frakkland, Spánn – og reyndar Bandaríkin líka – voru öll fyrrverandi nýlenduveldi. Bandaríkjamenn háðu á sínum tíma blóðuga borgarastyrjöld til að koma í veg fyrir, að sambandsríkið leystist upp. Með þessum orðum er ég ekki að gefa í skyn, að bandaríska borgarastyrjöldin, sem átti að binda endi á þrælahald þeldökkra, sé sambærileg við framferði hefðbundinna nýlenduvelda við að gera frjálsar þjóðir sér undirgefnar. En grundvallarreglan er sú sama: Að hindra upplausn sambandsríkisins.
Það er varla við því að búast, að leiðtogar gamalla nýlenduvelda skipi sér í fremstu röð við að halda fram sjálfsákvörðunarrétti smáþjóða. Þess eru fá dæmi, ef einhver, að smáþjóðir hafi endurheimt frelsi sitt fyrir náð nýlenduvelda. Þar gildir hið fornkveðna: „Lýður bíð ei lausnarans, leys þig sjálfur“. Við vissar kringumstæður getur samstaða „smáþjóða“ skipt sköpum – þrátt fyrir allt.
Þegar það var orðin opinber stefna vestrænna lýðræðisríkja upp úr 1990 að halda bæri Sovétríkjunum saman, hvað sem það kostaði – í nafni friðar og stöðugleika – mátti flestum ljóst vera, að eitthvað hafði farið úrskeiðis. Hvað var að? M.a. kolrangt mat á pólitískum og efnahagslegum lífslíkum sovétkerfisins, að óbreyttu.
Stefna NATO: Sovétríkin lengi lifi...
Þrátt fyrir allt umbótatal Gorbachevs, létu raunverulegar umbætur á sér standa. Veruleikinn, sem almenningur bjó við í daglegri tilveru sinni, var allur annar. Hagkerfið var lamað. Þetta var sveltandi sósíalismi. Þar að auki var það ótrúlegur barnaskapur að binda allar vonir um árangur stefnunnar við pólitísk örlög eins manns – þ.e. Gorbachevs. Það var engan vegið sjálfgefið, að allt færi í bál og brand, þótt honum yrði steypt af stóli – eins og reyndar kom á daginn.
Ginnungargapið milli áróðursímyndar sovésku elítunnar og veruleika almennings var orðið óbrúanlegt. Það var ekki hægt að halda sovéska nýlenduveldinu saman, nema með ofbeldi. Reynslan sýndi það: Búdapest 1956, Prag 1968 og Vilníus 1991. Ætluðu leiðtogar Vesturveldanna að leggja blessun sína yfir það? Þetta gekk ekki upp. Greiningin á ástandinu var kolröng og stefnan vanhugsuð að sama skapi.
Veruleikinn var allur annar. Sovétríkin voru í tilvistarkreppu – rétt eins og evrópsku nýlenduveldin eftir stríð – og sovéska elítan var ráðalaus frammi fyrir ástandinu. Mér satt að segja ofbauð að þurfa að hlusta á leiðtoga vestrænna lýðræðisríkja innan NATO halda því fram, að hinar hernumdu þjóðir yrðu að sætta sig við að halda Sovétríkjunum saman, hvað sem það kostaði – í nafni friðar og stöðugleika. Þetta hljómaði í mínum eyrum eins og hrein öfugmæli. Ég hef hvergi séð né heyrt handbær rök fyrir þessari afstöðu.
Veruleikafirring
Á seinni árum hafa ýmsir vinir mínir í leiðandi stöðum með Eystrasaltsþjóðum iðulega spurt mig, hvort eitthvert sannleikskorn sé í því, sem fulltrúar bandarískra stjórnvalda haldi fram, nefnilega, að Bandaríkin hafi á bak við tjöldin stýrt orðum og athöfnum íslenska utanríkisráðherrans til stuðnings sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða á þessum árum.
Bandaríkin hafi á þessum tíma átt erfitt með að stíga fram fyrir skjöldu vegna samstarfsins við Gorbachev um væntanlegar umbætur innan Sovétríkjanna, endalok Kalda stríðsins og afskiptaleysi Rússa af innrásinni í Írak. Af þessum ástæðum hafi Bandaríkin fengið skjólstæðingsríki sitt, Ísland, til að tala máli Esystrasaltsþjóðanna. Þetta á allt saman að hafa farið fram leynilega. Reyndar svo leynilega, að það fór með öllu fram hjá mér á sínum tíma.
Hvers vegna Ísland?
Ég er oft að því spurður, hvers vegna Ísland hafi ekki, samkvæmt venjum og hefðum, fylgt leiðtogum NATO að málum í afstöðunni til sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða. Vissulega voru engir íslenskir þjóðarhagsmunir í húfi. Þvert á móti. Ísland var háð Sovétríkjunum vegna innflutnings á olíu og bensíni, sem er lífsnauðsyn fyrir samgöngukerfi þróaðra ríkja. Ástæðan er sú, að bandalagsþjóð okkar, Bretar, setti viðskiptabann á Ísland til að beygja Íslendinga til hlýðni og koma í veg fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur.
Reyndar sendi þessi bandalagsþjóð okkar flota hennar hátignar ítrekað á vettvang til að vernda breska veiðiþjófa innan íslenskrar landhelgi. Þetta var, þegar Kalda stríðið var í algleymingi. Þá skárust Sovétríkin í leikinn og buðust til að kaupa allar þær sjávarafurðir, sem væru nú bannfærðar á breska markaðnum. Þótt mikilvægi Sovétviðskiptanna hefði síðan hnignað, var samt mikið í húfi að viðhalda þeim.
Við viðurkenndum að sjálfsögðu, að það var mikið í húfi að ná samningum við Sovétríkin um lok Kalda stríðsins. Við sýndum því líka fullan skilning, að friðsamleg sameining þýsku ríkjanna og áframhaldandi vera sameinaðs Þýskalands í NATO hlyti að hafa forgang umfram allt annað út frá þeirra þjóðar-hagsmunum. En við féllumst ekki á, að lögmætar væntingar Eytrasaltsþjóða um endurheimt sjálfstæði þyrfti að tefla þessum hagsmunum í tvísýnu; ekki heldur að allt hlyti að fara í bál og brand, ef Gorbachev tapaði valdataflinu í Kreml.
Um þetta vorum við einfaldlega ósammála. Þegar það var allt í einu orðin yfirlýst stefna forystu Vesturveldanna í samningum um endalok Kalda stríðsins, að væntanlegur árangur ylti endanlega á því að halda Sovétríkjunum saman, hvað sem það kostaði – í nafni friðar og stöðugleika – þá ætti hugsandi fólki að vera orðið ljóst, að eitthvað meira en lítið hefði skolast til í meðförum leiðtoganna.
Andófsmenn
Við vorum, eins og fyrr sagði, þeirrar skoðunar, að sovéska nýlenduveldið væri í tilvistarkreppu, rétt eins og evrópsku nýlenduveldin að loknu Seinna stríði. Mestu máli skipti að koma í veg fyrir, að upplausn nýlenduveldisins leiddi til styrjaldarátaka; að þetta gæti gerst með friðsamlegum hætti, eins og reynslan hafði þegar sýnt í Mið- og Austur-Evrópu.
Hvernig má það vera, að við þættumst þess umkomnir að hafa raunsærra mat á stöðu mála innan Sovétríkjanna heldur en leyniþjónusta stórveldanna? Fyrir því eru ýmsar ástæður. Ein er sú, að fyrrnefndar leyniþjónustur höfðu iðulega í fortíðinni reynst hafa rangt fyrir sér í grundvallaratriðum. Önnur er af persónulegum toga.
Sjálfur var ég Fulbright-félagi við Harvard fyrr á árum, þar sem rannsóknarverkefnið var samanburður hagkerfa. Niðurstaða mín varðandi sovéska hagkerfið var einföld: Það var í lamasessi. Drifkraftinn hafði dagað upp. Það var ósveigjanlegt, sólundarsamt og óhagkvæmt, þótt einstakir geirar, tengdir vígbúnaðarkapphlaupinu, skiluðu árangri, en með óhæfilegum tilkostnaði. Síðan var því við að bæta, að pólitíska yfirstéttin – nomenklatúran – hafði glatað trúnni á kerfið. Þeir voru ekki lengur reiðubúnir að beita valdi til að viðhalda völdum sínum, jafnvel þótt þeir vissu, að Sovétríkjunum yrði ekki haldið saman án valdbeitingar.
Öfugt við núverandi forseta Rússlands, Vladimír Pútín – sem segir að „fall Sovétríkjanna sé mesta stórslys 20stu aldar“ – var ég sannfærður um það á árunum 1989-91 – og er enn – að upplausn sovéska nýlenduveldisins verði að teljast með jákvæðustu atburðum á næstliðinni öld. Ef það þurfti uppreisn Eystrasaltsþjóða til að hrinda ferlinu af stað, væri það bara af hinu góða.
Um hvað var Kalda stríðið í hálfa öld - ef ekki það að frelsa hinar hernumdu þjóðir?
Mér ofbauð að heyra leiðtoga vestrænna lýðræðisríkja prédika það —yfir hinum undirokuðu þjóðum (eins og Bush Bandaríkjaforseti eldri gerði í endemis ræðu í þinginu i Kyiv nokkrum vikum áður en 90% Úkraínumanna samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að segja sig úr lögum við Sovétríkin), að þær ættu að sætta sig við örlög sín til þess að við á Vesturlöndum gætum búið við frið og stöðugleika. Þetta hljómaði í mínum eyrum ekki bara sem skammarleg svik, heldur líka sem meiri háttar mistök.
Íslenskir hagsmunir
Persónulega gat ég ekki fylgt slíkum ráðum. Ef við Íslendingar gætum tryggt okkur aðgang að olíu og bensíni á öðrum mörkuðum, væri ekki hundrað í hættunni. Hafa ber í huga, að Sovétríkin voru á þessum tíma í djúpri efnahagslægð og hnignaði hratt. Þeir buðu lág verð fyrir léleg gæði. Við gátum tryggt aðgang að hagstæðari mörkuðum annars staðar. Við vissum, að við tókum yfirvegaða áhættu. En líka það reyndist rétt mat.
Greining okkar á veruleikanum innan Sovétríkjanna á seinustu árum Gorbachevs leiddi til allt annarrar niðurstöðu en þá var viðtekin viska. Það bar enga brýna nauðsyn til að fórna réttmætum kröfum Eystrasaltsþjóða um endurreist sjálfstæði til þess að ná hagstæðum samningum við Sovétríkin á öðrum sviðum. Ef þú ert sannfærður um, að þú hafir rétt fyrir þér – og það er mikið í húfi – hvers vegna þá ekki að fylgja sannfæringu sinni?
Ég hef aldrei verið þungt haldinn af minnimáttarkennd fyrir að vera fulltrúi smáþjóðar í fjölþjóðasamskiptum. Á pólitískum ferli mínum var ég iðulega í nálægð við leiðtoga „stórvelda“, sem reyndust ekkert stærri fyrir að tilheyra fjölmennari þjóðum. Ég veit líka af eigin reynslu, að ef fulltrúar smáþjóða standa saman og hafa á réttu að standa, geta þær breytt heiminum til hins betra. Þrátt fyrir allt.
Höfundur var utanríkisráðherra Íslands 1988-1995.