Frelsið er yndislegt en það getur líka verið óttalega snúið. Það sem ein/n upplifir sem frelsi upplifir næsta manneskja sem anarkí og enn önnur sem ógn. En það er mikilvægt að hafa frelsi i daglegu lífi við jafn hversdagslegar athafnir og val á mat, val á daglegum samgöngum og val á fjölmörgum öðrum þáttum daglegs lífs.
Til dæmis er aukið framboð af grænmetisfæði í eldhúsum Reykjavíkurborgar til þess fallið að bjóða upp á fleiri valkosti og þar með að auka frelsi fólks. Fleiri valkostir er ekki ógn við það fólk sem vill áfram borða sitt kjöt. Fleiri valkostir í samgöngumálum er ekki aðför að eða ógn við einkabílinn heldur spurning um meira valfrelsi. Sama má segja um fjölmarga aðra hluti sem snúa að umhverfismálum; það þurfa ekki allir alltaf að flokka rusl en með því að bjóða upp á aðgengilegt flokkunarkerfi sem víðast hafa fleiri val (og frelsi) til að flokka, með því að hafa vatnshana aðgengilega víða hefur fólk val (og frelsi) til að sleppa einnota plastflöskum. Og svo mætti áfram telja.
Umræðan um umhverfismál einkennist oft af blöndu vísindalegra staðreynda og persónulegra skoðana. Það heyrast alls kyns upphrópanir eins og „Grænmetisfæði bjargar ekki heiminum!“ eða „Einkabíllinn breytir engu í loftslagsvánni“ og fleiri. Skilaboð vísindanna eru þó skýr – við þurfum öll að axla ábyrgð í umhverfismálum og stíga öll þau skref sem við getum; einstaklingar, fyrirtæki og samfélög.
Síðast en ekki síst vil ég undirstrika að það skiptir ekki síður miklu máli að kjósa rétt; að kjósa stjórnmálaflokka með virka, öfluga og róttæka umhverfisstefnu vilji fólk leggja sitt af mörkum í baráttunni við umhverfisvána.
Höfundur er borgarfulltrúi fyrir Samfylkinguna.