Fyrr í þessum mánuði tók ég sæti á Alþingi í nokkra daga. Þetta er í annað sinn sem ég sinni slíkum afleysingum eftir að ég hætti á þingi 2013. Mér finnst stórkostlega gaman að vera svona spariþingmaður, eins og sumir kalla það. Ég kann á kerfið, veit hvað hægt er að gera, get lagt fram fyrirspurnir og þingmál og jafnvel vaðið í ráðherra. Mér finnst gaman að kynna mér ný mál og ólík sjónarmið í nefnarstarfi og yfirleitt skemmtilegt að kynnast þingmönnum sem ég hef ekki unnið með áður. Það er líka gaman að hitta gamla vini meðal starfsfólksins.
Svo er það hitt. Það sem maður finnur strax þegar inn á þingið er komið er að það yfirtekur allt líf manns og gerir það undir eins, jafnvel þótt manni finnist maður eiginlega ekki vera að gera neitt af viti þar. Það fyrsta sem fær að fjúka er daglega hreyfingin. Númer tvö er kvöldmatur og samvera í lok dags með fjölskyldunni. Númer þrjú er góður nætursvefn.
Ég var þingmaður eftir hrunið, á árinum 2009–2013, og þá var hægt að afsaka marga kvöldfundi, glundroða í þinginu og vinnu nánast allan sólarhringinn með fordæmalausum aðstæðunum. Við vorum að slökkva elda og í rústabjörgun alla daga. Þáverandi forseti setti engu að síður á fót starfshóp um fjölskylduvænt Alþingi. Á hann var reyndar aðallega minnst á kvöld- og næturfundum þegar þingmenn voru komnir með svefngalsa enda þótti þetta mikill brandari. Kannski er þó kominn tími til að endurvekja þann ágæta starfshóp.
Í þetta skiptið var ég á þingi í átta daga. Hluti tímans lenti á kjördæmaviku og vinnudegi þingflokks en svo voru þrír hefðbundnir þingdagar. Hver dagur hófst með nefndarfundi kl. 9 að morgni og svo var ég á þinginu fram á kvöld við umræður og stúss. Ég er ekkert að kvarta yfir því enda fannst mér það alveg ljómandi skemmtilegt, eiginlega mikið stuð. Fyrir mig var þetta svolítið eins og undarlegt orlof frá mínu daglega lífi og þá var eiginlega bara betra að vinnudagarnir væru langir og annasamir. Í lok vikunnar gat ég svo hvílt mig, farið í leikfimi og göngutúra eins og ég er vön og eldað góðan kvöldmat.
Ég hef hins vegar áhyggjur af þeim þingmönnum sem eru ekki bara þingmenn eina viku á ári heldur 52 vikur á ári. Almenningur heldur að á Alþingi sé lítið verið að vinna og að þingmenn séu alltaf í fríi, en það er ekki þannig.
Þá daga sem ég "sat inni" í þetta sinn var m.a. rætt um styttingu vinnuvikunnar og mikilvægi þess að launþegar geti átt meiri tíma með fjölskyldunni sinni. Þeir þingmenn sem fóru í pontu og ræddum um nauðsyn styttingu vinnuvikunnar voru flestir 10–12 tíma á Alþingi þann daginn, sumir jafnvel lengur. Þegar heim var komið áttu þeir svo sennilega eftir að svara tölvupóstum, fylgjast með fréttum og samfélagsmiðlum og stússast eitthvað vinnutengt í nokkurn tíma í viðbót. Þegar þingmenn tala um styttingu vinnuvikunnar eru þeir sem sagt ekki að tala um sinn eigin vinnudag. Hann virðist ekkert styttast þótt, með fullri virðingu fyrir þeim þingmálum sem nú eru til umfjöllunar, ekki sé verið að bjarga því sem bjargað verður í þjóðargjaldþroti. Og eiginlega er það eins og hálfgerður brandari að fólk sem vinnur 10-14 tíma á dag tali um styttingu vinnuvikunnar sem nauðsyn ... fyrir aðra.
Kannski verður Alþingi seint fjölskylduvænn vinnustaður. Starfið þar er að mörgu leyti og eðlilega hugsað eins og vertíð – og þannig var það líka áður. Þingmenn voru mikið til eldri karlar; lögfræðingar, bændur og prestar. Meiri hlutinn kom af landsbyggðinni og svo voru þingstörfin drifin af. Sumarfríið stóð frá vori fram í október og engir netmiðlar, tölvupóstar eða samfélagsmiðlar sem trufluðu menn við sauðburð, jarðarfarir eða heyskap. Svona er þetta ekki lengur. Þingmenn eru allskonar fólk á öllum aldri og flestir eiga fjölskyldu og líf sem þarf að sinna. Nútímaþingstörfum fylgir líka stöðugt áreiti allan ársins hring. Síminn byrjar að hringja upp úr sjö á morgnanna og dagurinn gengur oft þannig fyrir sig að þingmaðurinn er eins og hann sé í munnlegu prófi allan sinn vökutíma, oftar en ekki í efni sem hann hefur ekki haft mikil tækifæri til að kynna sér eins vel og hann vildi, íhuga eða haft tækifæri til að mynda sér ígrundaða skoðun á. Það er samt hægt að gera svo miklu betur en nú er með því að skipuleggja þingstörfin betur. Dæmi: Á þriðjudögum má þingfundur standa til miðnættis. Það gerði hann reyndar ekki þann þriðjudag sem ég var þarna í síðustu viku. Fundi var slitið kl. 20:26 og fyrst þá er boðað til næsta fundar með dagskrá. Það er sem sagt ekki fyrr en seint um kvöld, jafnvel eftir miðnætti, sem þingmenn geta kynnt sér hvaða mál eru á dagskrá þingsins daginn eftir. Sá dagur byrjar snemma með fundi og því sennilega fá tækifæri sem þingmenn hafa til að undirbúa sig undir umræður og enn færri sem þingflokkar hafa til að skipta með sér verkum eða ræða með hvaða hætti þeir vilja taka þátt í umræðunni og sjá til þess að sjónarmiðum flokksins og þar með kjósenda þeirra sé komið á framfæri. Þetta er ávísun á afar óskilvirkt þing þar sem umræður eru alltof oft grunnhyggnar, yfirborðskenndar og skila litlu til að dýpka mál. Þingmenn verða ósjálfrátt sérfræðingar í að tala lengi án þess að segja neitt sérstaklega merkilegt. Og ég er bara að tala um venjulega þingfundi, ekki þegar málþóf setja allt úr skorðum vikum saman. Auðvitað eru þetta alhæfingar hjá mér og margir þingmenn halda prýðilegar ræður og tala af þekkingu og innsýn en það er og verður alltaf erfiðara við þessar aðstæður.
Alþingi er fámennt þing og þess vegna höfum við getað komist upp með allskonar ósiði. Í flestum þingum er ræðutími mun takmarkaðri en hér er. Það geta ekki allir þingmenn bara talað alltaf. Þeir eru kannski 600 talsins en ekki bara 63. Flokkum er úthlutaður ákveðinn ræðutími, oftast ákveðinn í samráði við þingflokksformenn. Flokkar skipa talsmenn í málum sem sérhæfa sig meira en hér er þótt alþingismenn eigi sannarlega sínar nefndir og sitt kjöræmi.
Það er líka óþolandi fyrir þingmenn að geta ekki vitað hvenær eigi að greiða atkvæði um ákveðin mál eða bara svona almennt. Atkvæðagreiðslum getur jafnvel verið skellt á nokkurn veginn fyrirvaralaust, jafnvel um miðja nótt. Engir venjulegir starfsmenn í fyrirtæki eða stofnun myndu sætta sig við svona vinnuaðstæður. Ekki heldur þingmenn í flestum öðrum löndum. Víða eru t.d. atkvæðagreiðslur bara tvo morgna í viku. Við höfum reyndar horft upp á upplausnina í breska þinginu og atkvæðagreiðslur þar kvöld og helgar undanfarið en Alþingi er eins og alltaf sé eitthvað mini-brexit í gangi sem setji allt úr skorðum. Og í Bretlandi, jafnvel í þeim glundroða sem er þar núna, er vitað að atkvæðagreiðslur um nýja samninginn verða annað kvöld.
Það verður að endurskipuleggja Alþingi og þingstörfin og endurhugsa fyrirkomulag þingstarfa frá grunni. Það geta engir aðrir gert en þingmenn sjálfir, engir aðrir hafa vald til þess. Þetta er ekki bara nauðsynlegt fyrir fólkið sem þar starfar, þingmenn og annað starfsfólk þingsins. Það er líka nauðsynlegt fyrir þjóðina sem á miklu betra skilið. Og bottomlænið er kannski það að fólk sem forgangsraðar svona í lífi sínu – tekur ítrekað vinnu og skyldustörf fram yfir börnin sín, maka og vini – á ekki að ráða of miklu í samfélaginu okkar, jafnvel þótt það geri það af skyldurækni við land og þjóð.
Byggt að hluta til á ræðu sem flutt var við dagskrárliðinn störf þingsins þann 9. október 2019.