Í dag, 20. október 2019, eru liðin 7 ár frá því íslenska þjóðin sagði hug sinn til höfuðþátta nýrrar stjórnarskrá sem samin hafði verið árið áður af þjóðkjörnum fulltrúum stjórnlagaráðs. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafði ýtt úr vör ferli sem bar þess greinilega merki að rétt væri að málum staðið á allan hátt. Leiðin er þekkt og hefur verið farin áður af öðrum þjóðum t.d. Noregi, en framkvæmdinni þar lýsti ég í grein í Kjarnanum fyrr á þessu ári.
Mögur ár
Í dag eru liðin 7 ár, mögur ár, sé horft til afstöðu fjögurra ríkisstjórna til tillögu stjórnlagaráðs sem jafnan er kölluð af almenningi „nýja stjórnarskráin“. Þeirri fyrstu af þessum fjórum ríkisstjórnum stýrði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá tók við Sigurður Ingi Jóhannsson, svo Bjarni Benediktsson og loks Katrín Jakobsdóttir. Öll þessi mögru ár hefur lítið sem ekkert gerst af hálfu Alþingis í tengslum við stjórnarskrána.
Innbyggður ómöguleiki
Núverandi forsætisráðherra hefur haldið því fram að Alþingi eigi að skrifa stjórnarskrána. Hún á að vita að svo einfalt er málið ekki. Í alvöru lýðræði er sérstöku þingi falið að skrifa stjórnarskrá, setið af fólki sem til þess er valið af þjóð sinn. Þessari aðferð hefur verið beitt víða um heim til þess að forða því að stjórnmálamenn véli um sín mál og skrifi sína sérsniðnu stjórnarskrá. Sérhvert þjóðþing hefur í sér innbyggðan ómöguleika til að skrifa stjórnarskrá vegna hagsmunaárekstra því þingmenn gæta allir þröngra hagsmuna síns flokks og kjördæmis og hættir þar með til að tapa tilfinningu fyrir hagsmunum heildarinnar.
Liðhlaupar
Ferlið sem hleypt var af stokkunum eftir hrun var lýðræðislegt og opið ferli sem vandað var til á allan hátt. Alþingi tók við afurð stjórnlagaráðs og bar að leiða það fram til afgreiðslu. Því miður sýndu sumir þingmenn stjórnarflokkanna sem mynduðu ríkisstjórn undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur af sér ódrengilega hegðun þegar komið var að Alþingi að fjalla um tillögu ráðsins og komu þar með í veg fyrir að málið hlyti farsæla lausn.
Þar með hófust mögru árin sjö.
Viðvaningsleg stjórnsýsla
Stjórnmálahefðin á Íslandi er því miður mjög losaraleg og stjórnsýsla öll viðvaningsleg í landinu sé Ísland borið saman við mörg önnur lönd t.d. Noreg þar sem ég hef búið og starfað síðast liðin 5 ár. Samanburðurinn er sláandi á flestum sviðum stjórnsýslu. Drengskapur og heiðarleiki mættu að mínu mati vera ofar á baugi á Íslandi en raun ber vitni. Virðing fyrir hefðum Alþingis og hlutverki þess sem lýðræðisstofnunar þurfa þingmenn að sýna í verki. Einungis lítill hluti almennings ber nú traust til Alþingis (18% 1. mars 2019). Hver er hlutur alþingismanna sjálfra í þeirri hnignun sem átt hefur sér stað?
Lög sem Alþingi samþykkir eru lög og þeim ber að hlýða. Lögum má auðvitað breyta og gera á þeim bragarbætur. Lög skulu standa. Flokkar mega ekki hegða sér þannig að þeir virði bara lög sem þeirra flokkur stóð að en ekki þau sem aðrir náðu fram með meirihluta. Lýðræðinu er hætta búin af fólki sem þannig hugsar.
Valdið og sætin
Á alþingi eru 63 sæti. Sætin eru valdastólar og valdi fylgir ábyrgð, mikil ábyrgð. Ríkisstjórn er leidd af einstaklingi, embættismanni, sem situr í forsæti. Vert er að huga að merkingu orðins embætti í þessu sambandi. Embætti er af sömu rót og orðið ambátt sem merkir þræll eða þjónn. Einstaklingar taka við embætti og yfirgefa embætti. Einstaklingar koma og fara en embættið varir. "Ríkið, það er ég" sagði Loðvík 14. Hann var barn síns tíma og fangi síns uppeldis og forréttinda. Hann skyldi ekki lýðræðislega hugsun. Alþingismenn koma og fara en Alþingi er til staðar þar sem sætin 63 standa sem tákn um vald sem þjóðin felur sama fjölda þingmanna á hverjum tíma. Valdið liggur í þinginu í stjórnskipan lýðveldisins. Lög sem t.d. voru sett fyrir áratugum af þingmönnum, sem nú gætu þess vegna allir verið komnir undir græna torfu, gilda áfram sem lög, hafi þeim ekki verið breytt.
Þjóðin studdi nýju stjórnarskrána
Lög voru sett af Alþingi um stjórnlagaþing og þau sem til þess voru kosin skipuð í stjórnlagaráð sem vann verkið og skilaði því til Alþingis eins og vera ber. Allar greinar frumvarpsins voru samþykktar samhljóða. Þjóðin fékk svo að segja hug sinn til höfuðþátta í tillögum ráðsins og samþykkti þá alla utan einn með yfirgnæfandi meirihluta. Þjóðin felldi tillögu ráðsins um Þjóðkirkju Íslands og vildi hana þar með áfram í stjórnarskrá (54%). Mest fylgi hlaut tillagan um auðlindir í þjóðareign en 83% studdu hana. Mikill meirihluti þjóðarinnar eða 67% sögðust vilja að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
Borðleggjandi er hvað þjóðin hefur sagt og því má gjarnan halda á lofti að verk stjórnlagaráðs hefur hlotið lof fræðimanna víða um heim og verið mært af unnendum lýðræðis og mannréttinda í mörgum löndum.
Í þjónustu hvers?
Tómlætið hér heima í röðum þeirra er stólana sitja nú og hafa setið frá því tillögurnar litu dagsins ljós er nístandi kalt og ber að mínu mati vott um skertan embættisskilning, óvirðingu gagnvart lýðræði og valdi og skort á samstöðu með ákvörðunum sem teknar hafa verið af þjóðinni sjálfri, sem er uppspretta valdsins sem þingmönnum er falið sem þjónum lýðræðisins.
Vonandi eigum við í vændum önnur 7 ár, betri og vænni en þau sem liðin eru með sínum horfnu tækifærum.
Á 7 ára afmæli þjóðaratkvæðagreiðslunnar um tillögu stjórnlagaráðs óska ég þjóðinni til hamingju með að hafa hleypt af stokkunum svo fögru og lýðræðislegu ferli sem raun ber vitni, en harma um leið með andvörpum og tárum, tómlæti alþingismanna sem mér þykir hafa brugðist grunngildum og heilbrigðum hefðum á margan hátt og standi þar með vart undir nafni sem þjónar lýðræðisins í þágu heildarinnar.
Höfundur er sóknarprestur og fv. fulltrúi í stjórnlagaráði.