Nýlega birtist í fjölmiðlum áhugaverð frétt um félagið Lindarhvoll ehf. Félagið var sett á laggirnar af Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, og hafði það hlutverk að selja eignir sem ríkið fékk upp í hendurnar í tengslum við nauðasamninga við þrotabú föllnu bankanna.
Í fréttinni kom fram að skrifstofustjóri Fjármálaráðuneytisins hafi fengið um 330 þúsund krónur greiddar fyrir hvern fund meðan hann gegndi formennsku í stjórn félagsins. Sem skrifstofustjóri Fjármálaráðuneytisins er hann með vel yfir milljón króna á mánuði og fékk nýverið launahækkun upp á 30 prósent í boði Kjararáðs.
330 þúsund krónur fyrir hvern fund, á dagvinnutíma, ofan á rúma milljón í föst mánaðarlaun. Í fréttinni kom fram að fundirnir voru haldnir á miðvikudögum eftir hádegi.
Ég ætla að setja þessa upphæð í samhengi sem á vel við í dag, á frídegi kvenna. 330 þúsund krónur er um eða yfir þeirri upphæð sem birtist á launaseðlinum mínum og þúsunda annarra, aðallega kvenna, í minni starfsstétt. Þetta eru mánaðarlaun okkar ófaglærðs starfsfólks í leikskólum - fyrir skatt.
Leikskólastarfsfólk er ómissandi
Við seljum ekki ríkiseignir. Eina hlutverk okkar leikskólastarfsfólks er að stuðla að því að börn læri að bera virðingu og umhyggju fyrir sjálfu sér, umhverfinu og öðru fólki og þau þrói með sér samkennd, tillitsemi og vináttu. Að þau tileinki sér aga, samvinnu og sjálfstæð vinnubrögð, fái tækifæri til að gera sitt besta og þroska fjölþætta eiginleika sína. Þá er leikskólinn fyrsta skólastigið og því er sífellt meiri áhersla lögð á lestrarkennslu frá yngstu stigum. Það er ekkert annað en smánarblettur á okkar samfélagi að fólkið sem sinnir þessum verkefnum skuli upplifa mest álag og sé lægst launaða starfsfólkið á íslenskum vinnumarkaði.
Fyrir fólk sem skilur bara tölur skal ég setja hlutverk leikskólastarfsfólks í tölulegt samhengi: Ég er hópstjóri með fimm börn á aldrinum tveggja til þriggja ára. Á bakvið þessi fimm börn eru 10 foreldrar. 10 foreldrar sem geta, af því að ég er til staðar, tekið virkan þátt í atvinnulífinu og stuðlað þannig að sameiginlegri velferð okkar allra. Þjóðhagslegur ávinningur þess að 10 einstaklingar taki virkan þátt í atvinnulífinu er, gróflega reiknaður, um 130-140 milljónir króna á ári.
Efnahagslegur ávinningur þjóðarbúsins af vinnuframlagi okkar ófaglærðs starfsfólks í leikskólum er gríðarlegur. Við sjáum til þess að hjólin snúist. Ávinningurinn einskorðast hins vegar ekki við efnahaginn. Hvernig reiknum við annars efnahagslegan ávinning alls þess sem börnin læra í leikskólanum? Lestur, hreyfing, samskipti, sköpun og svo mætti lengi telja. Þessi færni verður seint metin til fjár en skiptir öllu máli að börn tileinki sér sem allra fyrst.
Ég fór á fund leikskólastjórans, yfirmanns míns, á dögunum og spurði hvort ég gæti minnkað við mig vinnu. Fengið að mæta kannski einn miðvikudag í mánuði, eftir hádegi, eins og skrifstofustjórinn í fjármálaráðuneytinu, en haldið sömu launum. Beiðnin var að sjálfsögðu ekki tekin til greina, enda færi allt þjóðfélagið á hliðina ef vinnuframlags okkar nyti ekki við. Það er kominn tími til að við fáum laun til samræmis.