Meðfylgjandi grein var send Fréttablaðinu 11. október síðastliðinn sem svar við tveimur greinum sem birst höfðu í því blaði fyrr í þeirri viku. Fréttablaðið féllst á að birta greinina þegar vel stæði á en það hefur ekki gerst enn tveimur vikum síðar, þrátt fyrir ítrekanir mínar, og ekkert útlit virðist fyrir að það breytist í bráð. Þetta á sér vafalaust allt sárasaklausa skýringu. Ég hef því beðið Kjarnann að losa stjórnendur Fréttablaðsins úr klemmunni og birta greinina enda geta áhugamenn um „svæsin rifrildi valdamanna“ vart beðið mikið lengur.
Í grein í Fréttablaðinu 9. október sl. fjallaði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um það sem hann kallar útgjaldaþenslu hins opinbera og sérstaklega fjölgun opinberra starfsmanna. Af greininni mátti skilja að undanfarin ár hefði þessum starfsmönnum fjölgað nánast stjórnlaust, langt umfram fjölgun á almennum vinnumarkaði. Hörður Ægisson tók svo undir þetta í leiðara í blaðinu tveimur dögum síðar þar sem hann fullyrti m.a. að opinberir starfsmenn væru í einhverjum hliðarveruleika þar sem þeim fjölgaði stöðugt og laun þeirra hækkuðu endalaust.
Allt er þetta áhugavert en þó í litlu samræmi við hagtölur. Opinberum starfsmönnum á landinu hefur nefnilega fjölgað nánast nákvæmlega jafnhratt og starfsmönnum á almennum vinnumarkaði undanfarin einn og hálfan áratug. Þeim fjölgaði að vísu aðeins nokkur ár þar á undan, þ.e. í kringum síðustu aldamót, fyrst og fremst utan höfuðborgarsvæðisins. Það er því engin flóðbylgja opinberra starfsmanna að leggjast yfir hagkerfið um þessar mundir til að kremja úr því allan mátt eins og skilja má á skrifum þeirra félaga.
Skoðum tölurnar aðeins nánar. Hér verður byggt á sömu tölum og Halldór og Hörður, frá Hagstofunni um starfsfólk í opinberri stjórnsýslu, fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónustu. Það er reyndar ekki nákvæmur mælikvarði á fjölda opinberra starfsmanna, því að sumir sem vinna við þetta starfa hjá einkafyrirtækjum eða sjálfseignarstofnunum, en ekki fjarri lagi. Frá árinu 2000 til ársins 2018 fjölgaði þeim sem starfa í þessum geirum um 52%. Halldór og Hörður nota reyndar töluna 55% en ekki er ljóst hvaðan hún er komin. Það er nokkuð meiri fjölgun en varð á almennum vinnumarkaði og hækkaði hlutfall þeirra sem starfa við þetta úr 23,4% í 29,4%. Það er auðvitað nokkuð mikil breyting og getur kannski skýrt áhyggjur Samtaka atvinnulífsins.
Þegar nánar er að gáð sést þó að hækkun hlutfalls opinberra starfsmanna á þennan mælikvarða varð öll á árunum 2000 til 2003. Árið 2000 er raunar skemmtilega valið sem viðmiðunarár því að þá var fyrrnefnt hlutfall það lægsta sem það hefur orðið frá 1991. Ef ætlunin var að sýna fram á mikla fjölgun opinberra starfsmanna var því gráupplagt að velja 2000 sem viðmiðunarár en ekki eitthvert annað ár, t.d. 2010 þegar hlutfallið var hærra en nú.
Síðan 2003 hefur hlutfallið verið nokkuð stöðugt, á bilinu 28-30%, og var nánast nákvæmlega það sama í fyrra (29,4%) og árið 2003 (29,1%). Það er því engin innstæða fyrir áhyggjum Halldórs og Harðar núna. Breytingunum sem þeir fjalla um lauk fyrir hálfum öðrum áratug.
Það er jafnframt áhugavert að hækkun hlutfalls opinberra starfsmanna í kringum síðustu aldamót varð fyrst og fremst utan höfuðborgarsvæðisins. Frá árinu 2003 hefur hlutfallið verið nánast nákvæmlega það sama á höfuðborgarsvæðinu (28,6%) og utan þess (28,3%) en á tíunda áratugnum var hlutfallið mun hærra á höfuðborgarsvæðinu (27,2%) en utan þess (21,6%). Þróunin sem Hörður og Halldór óttast svo mjög varð því fyrir tæpum 20 árum utan höfuðborgarsvæðisins. Síðan þá hefur opinberum starfsmönnum fjölgað í takti við fjölgun á almennum vinnumarkaði, hvort heldur er á höfuðborgarsvæðinu eða utan þess. Ályktanir þeirra um bráðavá vegna ofsafjölgunar um þessar mundir eru því í engu samræmi við fyrirliggjandi hagtölur. Meðfylgjandi myndir sýna þetta glöggt.
Höfundur er dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.