Það er þriðjudagur. Við erum þrjár vinkonur, 12 ára og fullar af ævintýraþrá þar sem við tökum annars tóman Álftanesstrætó út úr vernduðu umhverfi þorpsins þar sem við þekkjum alla og yfir í nágrannasveitarfélagið Garðabæ, þar sem framboðið af sjoppum og gangbrautarljósum og öllu því sem ekki fyrirfinnst á Álftanesi fortíðarinnar virðist okkur sem æsispennandi borgarumhverfi. Við hlaupum í rigningunni frá Ásgarði upp á Garðatorg og eyðum öllum vasapeningunum í allt of mikið kryddaðar frönskur á Skalla. Við þurfum hvort sem er að bíða í 70 mínútur eftir að KFUK-fundur hefjist - strætósamgöngurnar eru svo ófullkomnar. En í stað þess að reiðast yfir skörðum hlut Álftnesinga í almenningssamgöngukerfinu finnst okkur þetta fullkomið frelsi, þar sem við leikum okkur á Garðatorgi á meðan droparnir dynja á plexíglerþakinu.
Vikulegu fundirnir hjá KFUK, Kristilegu félagi ungra kvenna, í Garðabæ voru líka þess virði. Á meðan skólasystkin okkar heima á Nesinu æfðu fótbolta, höfðaði söngurinn og föndrið meira til okkar þriggja, sem höfðum fengið sköpunarkraftinn umfram íþróttahneigðina í vöggugjöf. Og samhliða föndri á mósaík-krossum og söngvastundum þar sem þrjátíu stelpur sungu Með Jesús í bátnum get ég brosað í stormi við hæstu raust, átti sér stað örlítil kristileg innræting. Við heyrðum dæmisögur og ígrunduðum lífið og tilveruna út frá kristilegum gildum. Og þetta svínvirkaði á okkur. Við mættum á hverjum einasta þriðjudegi í mörg ár, tilbúnar að taka við kristilegum boðskap. Í einfeldni barnshugans voru Biblíusögurnar sveipaðar dýrðarljóma og tengdar við skapandi verkefni, vinalega leiðbeinendur og lyktina af gólfteppinu í Kirkjuhvoli.
En börn vaxa úr grasi og unglingsárin færa með sér uppreisn og gagnrýna hugsun. Þá fyrst settist ég niður og las Biblíuna. Ekki ritskoðaðar Biblíusögur fyrir börn, heldur Biblíuna, beint úr bókahillu foreldra minna. Og það sem blasti við mér voru ekki krúttlegar sögur um velmeinandi Palestínumann sem gerði kraftaverk og sagði sniðuga hluti. Það sem tók við mér voru mótsagnir á mótsagnir ofan, afar frumstæður texti sem var sífellt í andstöðu við sjálfan sig. Kvenfyrirlitning. Hómófóbía. Útlendingaandúð. Þjóðernishreinsanir.
Á skömmum tíma gekk ég í gegnum mín eigin siðaskipti.
Hin kristna þjóð
Traust á Þjóðkirkjunni hefur dregist talsvert saman frá því mælingar hófust. Á meðan 61% Íslendinga bar mikið eða fullkomið traust til stofnunarinnar árið 1999, ber aðeins þriðjungur slíkt traust til Þjóðkirkjunnar í ár. Jafnframt hefur stöðugur meirihluti verið hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju um árabil og aðeins 19% bera traust til starfa biskupsins sjálfs.
Biskup fjallaði um orsakir takmarkaðs traust á störfum hennar og stofnunarinnar sem hún starfar fyrir í tíufréttum RÚV þann 28. október sl.: „Það hefur orðið siðrof, held ég. Fólk áttar sig ekki á því hvaðan hlutirnir koma sem við viljum gjarnan lifa eftir og starfa eftir. Það náttúrulega segir sig sjálft að ef að börnin læra ekki heima hjá sér til dæmis biblíusögurnar eða í skólanum þá verður framtíðin þannig að þau vita ekki að þetta er til. Ef maður veit ekki að eitthvað er til þá skiptir það mann engu máli, -fyrr en kannski allt í einu að eitthvað kemur upp á.“
Biskup hefur áhyggjur af því siðrofi sem skapast hefur í samfélaginu, að hennar mati, við það að kristinfræðikennslu hafi verið hætt. Þegar fréttir berast af vaxandi vantrausti þjóðarinnar á Þjóðkirkjunni og störfum biskups er varla litið í eigin barm, heldur býsnast yfir veraldlegri þróun menntakerfisins og aukinni notkun samfélagsmiðla.
Siðrofið
Ég verð að viðurkenna að notkun biskups á orðinu siðrof fær á mig. Líkt og margir í kring um mig upplifi ég siðrof frekar sem einkennisorð fyrir 2007 hugarfarið, þar sem kapítalisminn yfirtók samfélagið og heiðarleiki var sendur lönd og leið. Ég upplifi siðrof sem lýsandi hugtak fyrir vaxandi hatur vestanhafs, þar sem útlendingaandúð, kvenhatur og lygar tröllríða samfélaginu. Ég tel siðrof ekki vera lýsandi hugtak fyrir samfélag sem vex hægt og rólega - jafnvel aðeins of rólega að mínu mati - í átt að veraldlegu samfélagi þar sem jafnræði og trúfrelsi eru í hávegum höfð.
Ég hef ekki verið sú eina sem hef gúglað „siðrof skilgreining“ síðustu klukkustundirnar. Í það minnsta vissi leitarvélin alveg að hverju ég leitaði, um leið og ég var búin að slá inn nokkra stafi. Samkvæmt Vísindavefnum er oftast talað um siðrof „þegar siðferðileg viðmið og almennt viðurkennd gildi í samfélagi víkja fyrir siðleysi og upplausn eða sem getuleysi til þess að uppfylla siðferðisstaðla samfélagsins.“ Nú er mögulegt að biskup telji að kristnin hafi einkarétt á ákveðnum gildum og að það séu akkúrat þessi gildi og uppruni þeirra sem móti hina einu réttu siðferðisstaðla samfélagsins, en þeim fer fækkandi sem gera það. Ég hafna því að aukin veraldarhyggja leiði af sér „siðleysi og upplausn“. Þvert á móti held ég að gagnrýnin hugsun, aukin skoðun á siðferðilegum kröfum sem við gerum hvert til annars og krafan um raunverulegt trúfrelsi séu undirstaða siðræns samfélags.
Kristni á krítartöflunni
Aðgengi barna að Biblíusögunum veldur biskupi greinilega áhyggjum. Hún og sumt fylgisfólk kirkjunnar agnúast út í kristinfræðilaust skólastarf og oft sést í athugasemdakerfum orðalag um að búið sé að banna kristinfræði í skólum landsins. Þetta er hins vegar ekki rétt. Alþingi samþykkti ný lög um grunnskóla árið 2008, þar sem hugtakið „kristinfræði“ var tekið úr lögum og námsefnið fellt undir samfélagsfræðigreinar. Kristni hefur þó síður en svo verið úthýst, hvorki úr lögum né aðalnámskrá. Í 2. grein laga um grunnskóla kemur skýrt fram að starfshættir grunnskóla skuli mótast af m.a. kristinni arfleifð íslenskrar menningar. Í aðalnámskrá er svo tekið fram að nemendur í samfélagsfræði eigi að geta „sýnt fram á læsi á frásagnir, hefðir, kenningar, hátíðir, siði og tákn kristni og annarra helstu trúarbragða heims“ og „greint áhrif Biblíunnar og helgirita annarra helstu trúarbragða á menningu og samfélög.“
Kristni hefur því allsendis ekki verið úthýst úr skólastofunum, heldur hefur staða hennar réttilega verið leiðrétt frá því að vera í forréttindasæti sem eina rétta leiðin, grundvallað á sannleik og réttlætt með stöðu Þjóðkirkjunnar í stjórnarskrá og samfélaginu, í það að vera hluti af veraldlegri fræðslu þar sem afstaða er ekki tekin en nemendur fræddir um kristni í sögulegu samhengi og áhrif hennar á samfélagið eru skoðuð með akademísku sjónarhorni.
Ályktun biskups um að orsakir meints siðrofs virðist ekki á rökum reist, því samkvæmt Gallup er enginn marktækur munur á afstöðu þeirra sem ólust upp við fyrri grunnskólalög og námskrá og eru því á aldrinum 30-39 ára og svo þeim sem hafa fengið veraldlegri kennslu og eru undir 30 ára. Báðir hópar gefa Þjóðkirkjunni falleinkunn þegar kemur að trausti. Hnignandi traust stafar því varla af breyttum áherslum í samfélagsfræði. Mínar hugmyndir um orsakir þessa litla trausts eru svo efni í aðra og lengri grein.
Hvaðan koma hlutirnir?
Biskup staðhæfir svo að fólk átti sig ekki á því hvaðan hlutirnir koma sem við viljum lifa og starfa eftir. Þarna slæst hún í hóp þeirra sem hrópa að kristin gildi séu óskoruð gildi samfélagsins sem við búum í. En hver ákveður hvaða gildi séu kristin gildi? Er það túlkun fulltrúa Þjóðkirkjunnar? Er það túlkun lesandans sem blaðar í frumheimildinni? Er það kennarinn sem kennir 3. bekk trúarbragðafræði? Sum gildi eru nokkurnveginn sammannleg. Heiðarleiki, mannvirðing, mannréttindi, ást og fyrirgefning, tillitssemi og hjálpsemi. Þessi gildi endurspeglast vissulega í Biblíunni. En þau endurspeglast líka í Kóraninum og Torah. Og ennfremur, þau endurspeglast í bókunum um Harry Potter og Netflix-þættinum sem ég hámhorfði á í síðustu viku. Þau eru sammannleg.
Það var einmitt ungmenni sem kunni Biblíusögurnar sem áttaði sig á því að gildin sem hinn forni leiðarvísir að lífinu endurspeglaði voru alls ekki gildi sem ungmennið tengdi við. Þrátt fyrir að kunna allar Biblíusögurnar utanbókar og gítarhljómana við Upprisinn er hann var það gagnrýnin hugsun við Biblíulesturinn sem stuðlaði að því að litla stelpan, sem elskaði þriðjudaga því þá voru KFUK-fundir, elskar nú þriðjudaga því þá eru stjórnarfundir í stærsta veraldlega lífsskoðunarfélagi landsins, sem hún stýrir.
Höfundur er formaður Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi.