Nýlega fóru forsvarsmenn loftslagsverkfallsins á fund með fulltrúum ríkisstjórnarinnar þar sem lagðar voru fram tvær kröfur, að ríkisstjórn lýsi yfir neyðarástandi með viðeigandi aðgerðum og að ríkisstjórn láti 3,5% af vergri landsframleiðslu í loftslagsmál eins og milliríkjanefnd Sameinuðu Þjóðana, IPCC segir að þurfi til að takast á við loftslagsmál.
Ríkisstjórn skrifaði ekki undir þessar kröfur okkar og voru það mikil vonbrigði fyrir ungt fólk. Í kjölfar þessarar niðurstöðu skrifaði Gró Einarsdóttir, doktor í umhverfis- og félagssálfræði, grein í Kjarnann þar sem hún segist vera sammála 2,5% (ekki talan sem við nefndum) en mótfallin yfirlýsingu um neyðarástand. Því verður hér farið yfir hvað neyðarástand gæti gert og hvað það myndi þýða fyrir samfélagið.
Markmiðið með yfirlýsingunni er að undirstrika hversu aðkallandi loftslagsváin er. En til þess að sjá hvað neyðarástand þýðir þarf ekki að leita lengra en í greinargerð forsvarsmanna loftslagsverkfallsins þar sem það er skilgreint. Neyðarástandið er ekki leið fyrir Alþingi til þess að taka upp á ólýðræðislegum hlutum eins og höfundur nefnir í grein sinni þar sem hún óttast það að „lögreglan fari að handtaka þá sem nota jarðefnaeldsneyti.”
Neyðarástandið eru tveir hlutir, bæði viðurkenning á alvarleika vandamálsins og tillögur að aðgerðum sem yrði gripið til strax. Í tillögu forsvarsmanna loftslagsverkfallsins er meðal annars vísað í losunartakmörk á fyrirtæki, takmörkun á innflutning jarðaefnaeldsneyti, bann á olíuleit, bann á fjárfestingum í olíutengdum verkefnum og viðskiptaþvinganir á mengandi ríki. Aðgerðirnar sem þessar virðast kannski róttækar, en þær eru fremur lítilfjörlegar í samanburði við þær aðgerðir sem við munum þurfa að ráðast í, ef ekki verður gripið í taumana núna.
Myndlíking af brennandi húsi er oft notuð til þess að lýsa loftslagsvánni, en það er ekki að ástæðulausu, því að húsið okkar er vissulega að brenna. En vegna þess að við breytingarnar eru ekki af jafn augljósum toga og bókstaflegt brennandi hús er auðvelt að hundsa vandann þar til það er um seinan. Ef jörðin okkar, húsið okkar, væri bókstaflega að brenna væri ekkert sjálfsagðara en að lýsa yfir neyðarástandi. Við þurfum leið til þess að taka þetta huglæga, óáþreifanlega vandamál sem virðist eins og hægt lestarslys fyrir augum okkar og færa aðgerðir gegn því í eitthvað tafarlaust, eitthvað sem við getum strax séð og mælt árangur af. Eitthvað sem gerir öllum ljóst hver staðan er. Til þess er neyðarástandið.
Með neyðarástandinu, er lýðræðinu svo sannarlega ekki aflýst, en því verður hins vegar aflýst ef það verður enginn lýður eftir til þess að ráða.
Höfundar eru loftslagsaktívistar.