Það morgnaði fallega, sólin gerði sig líklega til að varpa geislum sínum yfir þá hálu skurn sem hafði myndast kvöldið áður. Það yrði varasamt að vera á ferli þótt dagurinn yrði eflaust fagur. Og nú var kaffið að verða tilbúið og ég gerði mig líklegan til að fá mér aðra brauðsneið, núna með marmelaði og osti. Ég seildist í símann, athugaði jarðskjálftasíðu veðurstofunnar, síðan helstu fréttir, opnaði því næst facebook til að vita hvort vinir mínir, nánir eða ekki, væru ekki líka að byrja enn einn dýrðardaginn. Þá blasir við mér þessi mynd.
Undir myndinni stendur: „Í kvöld um 18:00 mætti lögreglan í lokað úrræði ÚTL fyrir fjölskyldur, konur og fylgdarlaus ungmenni og ætlaði að handtaka unga fjölskyldu frá Albaníu. Fjölskyldan samanstendur af ungu pari og 2 ára barni, en konan er einnig kasólétt, komin á 35-36 viku. Parið hefur ekki fengið svar frá kærunefnd Útlendingamála í hendurnar og því gæti verið að máli þeirra sé ekki lokið.“
Þetta var augljóslega ekki það sem ég vildi lesa á þessum fallega morgni. Samt las ég áfram. Þótt nóg sé af hörmungarfréttum, og ég sé sumpart orðinn dofinn yfir sársauka annarra, þá vildi ég vita hvernig þessu máli myndi ljúka. Ég fann fyrir barnslegri sannfæringu um að þetta færi vel. „Konan er komin á steypirinn, það fer enginn að þvinga hana upp í flugvél og senda úr landi,“ hugsaði ég.
Ég las áfram, klukkan 1:30 var færslan uppfærð og bætt við: „Konan er komin út af mæðradeild þar sem hún fékk vottorð með upplýsingum um hversu langt hún væri gengin og að ekki væri mælt með að hún myndi fljúga. Venjulega þegar óléttar konur fljúga þurfa þær að fá svokallað „fit to fly“-vottorð en engin fordæmi voru hins vegar fyrir að gefa „not fit to fly“-vottorð þar sem enginn læknanna hafði upplifað það áður að verið væri að neyða ólétta konu í flug gegn vilja hennar. Vonast er til að þetta vottorð hafi eitthvað að segja, en nú er hún á leið heim til sín þar sem lögreglan bíður.“
Þegar ég las þetta var mér létt. Ég hugsaði sem svo að úr því að við lifum í siðuðu samfélagi, þá væri konan og barnið hólpin. Fréttin var aftur uppfærð klukkan þrjú, þá var sagt frá því að mat læknanna og ljósmæðranna á Landspítalanum skipti engu máli og að einhver annar læknir, sem hafði ekki hitt hana, hefði gefið út yfirlýsingu um að konan væri „fit to fly“. Loks var fréttin uppfærð klukkan 5, þá hafði lögreglan komið og sótt fjölskylduna til að fara með hana út á flugvöll.
Við vitum ekki hvers vegna þau komu hingað, alla þessa leið í kuldann og myrkrið, af því að við – þessi íslenska þjóð sem mættum þeim – vildum ekki spyrja. Af hverju mátti ekki spyrja? Kannski af því að það er ekki skilvirkt að heyra sögu fólks. Það truflar þegar óvelkomnir gestir, sem knýja dyra í okkar huggulega heimi, fá andlit, eignast jafnvel sögu. Nafnleysi þeirra er okkar vörn.
Kaffið kólnaði í bollanum og ég hafði naumast lyst á brauðsneiðinni sem hafði verið svo lystug skömmu áður. Mér varð líkamlega illt af því að lesa lýsinguna á þessum atburðum. Ég spurði sjálfan mig: „Hvernig get ég sagst vera Íslendingur?“ Ég er kannski ekki sekur í þessu máli, en ég ber ábyrgð á þessu. Hvernig get ég horfst í augu við sjálfan mig frammi fyrir svona tilgangslausu grimmdarverki?
Ég er kannski ekki sekur í þessu máli – ég átti ekki frumkvæði að þessu ódæði og tók ekki beinan þátt í því – en þetta er gert í nafni Íslands og ég er hluti af því. Ég er einn af þeim sem mynda þessa íslensku þjóð sem ákvað að ganga svona fram gegn verðandi móður – og verandi móður, því ungu hjónin eiga líka tveggja ára barn. Tveggja ára; þegar okkar börn ná þeim aldri viljum við að þau séu komin á leikskóla, meðal annars af því að það er svo gott fyrir félagsþroska þeirra. En hvar er okkar siðferðisþroski?
Sem faðir og eiginmaður hugsa ég daglega um að reyna að mæta þessum heimi sem heilsteypt manneskja. Gagnvart vinum reyni ég að vera ærlegur; hlusta, leggja gott til, finna tækifæri til að hlæja og brosa. Á daginn vinn ég við að kenna verðandi kennurum, þroskaþjálfum, og fleira fólki sem vinnur við að rækta mennsku þess fólks sem á vegi þess verður. Og þessa vinnu mína reyni ég að vinna í samræmi við margvísleg lög og námskrár sem leiðbeina mér um að leggja lóð mín á vogarskálar lýðræðis, réttlætis, mannréttinda, jafnréttis, sjálfbærni, heilbrigðis, velferðar ... Og svo þetta! Um miðja nótt er kona, komin á steypirinn, ásamt eiginmanni sínum og tveggja ára, barni sótt af lögreglu svo hægt sé að losna við þau. Konan, eiginmaðurinn, tveggja ára barnið, og fóstrið sem kannski brýst inn í þennan heim áður en vikan er liðin, örugglega fyrir jól, eru óvelkomin. Á sama tíma á ég að segja nemendum mínum að umfram allt verði þau að sjá manneskjuna í hverju barni, að leggja lóð sín á vogarskálar mennskunnar.