Ár hvert er haldinn svokallaður Þjóðarspegill Félagsvísindastofnunnar Háskóla Íslands. Í ár voru margir áhugaverðir fyrirlestrar og meðal annars pallborð um stöðu erlendra verkamanna á Íslandi. Hagsmunaaðilar, sérfræðingur og ráðuneytisstjóri félags- og jafnréttisráðuneytisins sátu í pallborði.
Eins og fram hefur komið þá fór ráðuneytisstjórinn, Gissur Pétursson mikinn. Hann opnaði pallborðið með þeim orðum að það væri stór kostur við íslenskan vinnumarkað að auðvelt sé að „losa“ starfsfólk sem og sagði hann að enginn hefði beðið erlenda verkamenn um að koma til landsins til að vinna. Því væri það ekki á ábyrgð Íslenska ríkisins að hjálpa fólkinu við að koma undir sig fótunum með nokkrum hætti eða að auðvelda þeim að læra íslensku því hver er sinnar gæfu smiður eins og hann orðaði það. Fyrir vikið er auðvelt að áætla að þetta sé opinber stefna ráðuneytisins.
Á Íslandi hefur vaninn verið að gefa öllum jöfn tækifæri til þeirra tækifæra sem bjóðast í samfélagi okkar hvað varðar nám, sjúkrahúsþjónustu og vinnu. Miðað við orð ráðuneytisstjóra er ráðherra hans og ríkisstjórn ósammála þessu og er stefnan greinilega í þveröfuga átt. Sabine Leskopv, borgarfulltrúi skrifaði opið bréf til Ásmundar Einars Daðasonar félags- og jafnréttismálaráðherra er varðar þetta efni. Lítið hefur verið um svör.
Undanfarna áratugi hefur fjöldi komu erlendra verkamanna til Íslands orðið að kjölfestu flestra láglaunastarfa á íslenskum vinnumarkaði. Frá árinu 1993 hefur hagvöxtur verið jákvæður og þjóðarframleiðsla aukist fyrir utan árin 2009 og 2010. Á þessum tíma hefur erlendu vinnuafli fjölgað úr um 5000 í 38125 í árslok 2018 samkvæmt Hagstofu Íslands. Íslendingar geta að miklu leyti þakkað erlendu vinnuafli fyrir góða stöðu Íslands er varðar vöxt atvinnulífsins. Ásamt þessu sýna margar rannsóknir jákvæð áhrif innkomu erlends verkafólks á samfélög og efnahagslega stöðu landa.
Félagsmálaráðuneytið hefur gefið út stefnumótun fyrir útlendinga sem koma hingað til starfa, þar eiga allir sem flytjast til landsins að eiga góðan kost á íslenskukennslu og gæðamat á að vera á kennslunni, samfélagsfræðsla á að fara fram og innflytjendur eiga að eiga góðan kost á aðgengilegu efni er varðar íslenskt samfélag, réttindi og reglur. Því er rétt að spyrja sig hvort þessi stefnumótun sé ekki lengur til staðar og mun harðneskjulegri stefna tekin við. Ef þessi stefna hefur ekki breyst þá hlýtur Gissur Pétursson að íhuga stöðu sína enda ófært fyrir mann sem hefur þessar skoðanir að starfa gegn opinberri stefnu ráðuneytisins. Ef ekki þá ætti Ásmundur ráðherra að víkja honum úr starfi, því jú, það er svo auðvelt að reka fólk á Íslandi!
Höfundur er nemandi í stjórnmálafræði.