Þegar Kvika banki vann skýrslu sína um sæstreng milli Íslands og Evrópu var einn ljóður á. Bankinn byggði á úrleltum upplýsingum um kostnað vindorku. Síðan þá hefur kostnaður þessarar óvenju umhverfisvænu tækni til raforkuframleiðslu lækkað enn meira. Fyrir vikið er vindorkan orðin enn áhugaverðari. Og það líka fyrir land með mikið af tiltölulega ódýru vatnsafli og jarðvarma.
Fyrir fáeinum dögum birti fjármála- og ráðgjafarfyrirtækið Lazard uppfærðar upplýsingar um kostnað vindorku. Og skemmst er frá að segja að kostnaður hagkvæmustu vindorkuverkefnanna er kominn niður í sem nemur 28 USD/MWst. Þessi hraða kostnaðarlækkun vindorku er helsta ástæða þess að stórnotendur, eins og t.a.m. bæði gagnaver og álfyrirtæki, keppast nú um að fá samninga við vindorkufyrirtæki.
Vilji lesendur heyra meira um þessa mögnuðu þróun er upplagt að koma í Hörpu á morgun (þriðjudaginn 12. nóvember) þar sem samtökin Konur í orkumálum efna til málþings um vindorkuna. Þar mun fjöldi áhugaverðra fyrirlesara fjalla um hina ýmsu vinkla vindorku. Auk áhugaverðu erindanna mun greinarhöfundur segja frá innkomu norska vindorkufyrirtækisins Zephyr inn í íslenska orkugeirann.
Það er engin tilviljun að raforkan frá tveimur nýjustu vindorkuverkefnum Zephyr í Noregi er öll seld til Google annars vegar og Alcoa hins vegar. Þetta eru fyrirtæki sem sækjast eftir umhverfisvænu og þó enn fremur ódýru rafmagni. Og nú hefur Zephyr Iceland verið stofnað og fyrstu verkefnin að fara í gang. Á grafinu hér að neðan má sjá þróun kostnaðar í vindorku, sbr. nýjasta skýrsla Lazard. Þetta er ekkert flókið. Vindorkan er ódýrust.