Árið er 1990. Berlínarmúrinn er fallinn, Nelson Mandela látinn laus úr fangelsi, George W. Bush eldri var forseti Bandaríkjanna og ég fæðist. Margir muna eflaust eftir þessum atburðum og fleirum á þessum árum. Töluvert færri muna örugglega eftir því að um þetta leyti var milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) stofnuð. Hún fékk það hlutverk að rannsaka og birta vísindaleg gögn um áhrif og orsakir loftslagsbreytinga. Það hefur hún gert og birt 43 skýrslur um málefnið og fjórar til viðbótar væntanlegar. Óháð, þverfagleg, alþjóðleg nefnd sem fær til sín færustu sérfræðinga í heiminum til að segja okkur hinum hvað er eiginlega í gangi í litla lofthjúpnum okkar.
Ef einhver skyldi nú velta fyrir sér hver árleg losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum er af mannavöldum þá er auðvelt að finna þær upplýsingar á netinu. Hún er áætluð vera 35 milljarðar tonna af CO2 ígildum á ári. Það jafngildir því að 640 Eyjafjallajökulsgos væru í gangi á sama tíma. Allan daginn, allt árið. IPCC fær síðan það hlutverk að segja okkur hvort það sé allt í lagi eða hvort það sé bara alls ekki í lagi.
Uppruni þessarar losunar er að mestu leyti vegna bruna á jarðefnaeldsneyti, kolum, olíu og gasi. Til að mynda er olíuframleiðsla í heiminum að jafnaði 100 milljón tunnur á dag. 100 milljón tunnur sem fara í dísel, bensín, plast, flugvélaeldsneyti og svo mætti lengi telja. Án olíu væru samfélögin okkar allt öðruvísi en þau líta út í dag, það er staðreynd. En staðreyndin sem ég vil koma á framfæri er sú að 100 milljón tunnur á dag eru 1157 tunnur á sekúndu sem jafngilda 180 rúmmetrum á sekúndu. Kæri lesandi, það er um það bil einn Dettifoss af olíu.
Loftslagsváin er mörgum ennþá fjarlæg. Á Íslandi finnum við varla fyrir áhrifunum ennþá, en það mun breytast. Við erum að taka lán, allsvakalegt lán á hrikalega lélegum vöxtum. Lánið felst í því að við erum að nýta auðlindir jarðar á þann hátt að fyrir árið 2100 munum við ekki hafa aðgang að þeim lengur. Ég og þú verðum farin þá, en hver verður ennþá á lífi? Börnin okkar, barnabörn og barnabarnabörn. Börnin mín verða 83 og 84 ára, þeirra börn kannski milli fertugs og fimmtugs og barnabörnin þeirra nýstúdentar. Mikið öfunda ég þau ekki að þurfa að borga til baka lánið sem við tókum í dag. En þau munu þurfa að borga. Spurningin er hvernig? Það veit ég ekki en sjálfsagt verður það engin óskastaða, langt í frá.
Þessi síðasta málsgrein var svolítið þung og leiðinleg, ég viðurkenni það. En að sama skapi þá er málefnið þungt og leiðinlegt og erfitt þegar við erum búin að gera okkur grein fyrir því hvernig staðan er í dag í raun og veru. Andri Snær hélt sýningu í Borgarleikhúsinu um daginn, Um tímann og vatnið, þar sem hann útskýrði á mannamáli hvernig staðan er í dag og hvernig framtíðarhorfurnar eru. Titilinn á greininni Hvað skiptir þig máli? var mér einmitt ofarlega í huga eftir umrædda kvöldstund í Borgarleikhúsinu.
Eru það góð laun? Fallegur, kraftmikill bíll? Dýrindis kjötmáltíð í hádeginu og á kvöldin? Verslunarferð til Glasgow og Köben tvisvar á ári, Tene um páskana og Flórida á sumrin? Fylgjendur á Instagram eða like á Facebook?
Eða er það tilfinningin að þú sért að gera allt sem í þínu valdi stendur til að tryggja börnunum þínum og afkomendum örugga og innihaldsríka framtíð? Að þau geti búið við matvælaöryggi, lifað í öruggu og heilbrigðu samfélagi og verið óttalaus um sína eigin framtíð og framtíð barna sinna?
Kæri lesandi,
ætlar þú að leggja þitt af mörkum í að lágmarka skaðann sem er yfirvofandi? Getur þú fækkað flugferðum til útlanda og fundið lífsfyllingu og hamingju nær þér? Getur þú fækkað kjötmáltíðum um helming eða borðað bara eina gæðasteik á laugardögum? Getur þú keyrt minna, hjólað meira, gengið meira, skipt út bensín/dísel bíl fyrir metan eða rafmagnsbíl? Getur þú keypt minna dót og drasl, hugsað hvaðan það kemur, hvernig það er búið til og hvar það endar eftir að þú ert hætt/ur að nota það? Geturðu reynt að nýta hlutina sem þú átt betur og lengur?
Ef svarið er já við spurningunum hér að ofan þá máttu vita að það hefur áhrif. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi og það er akkúrat hugarfarið sem við þurfum að tileinka okkur! Nú ert þú tilbúin/n að taka af skarið og breyta til hins betra. Byrjaðu smátt og ekki hætta þar, haltu áfram að bæta þig, vertu gagnrýnin/n á sjálfa/n þig og aðra í kringum þig. Þegar þú missir dampinn og þér finnst þetta erfitt og leiðinlegt, sem gerist alveg endrum og sinnum og er fullkomlega eðlilegt, taktu þér þá hálfa mínútu ... dragðu andann djúpt fimm sinnum ... og spyrðu þig sjálfa/n spurningarinnar:
„Hvað skiptir mig raunverulega máli?”
Höfundur er umhverfisverkfræðingur.