Konur hér á landi njóta skilyrðislauss réttar til verndar gegn kynbundnu ofbeldi með nýlegum alþjóðlegum skuldbindingum ríkisins (Istanbúlsamningi Evrópuráðsins) og öðrum lögum og reglum, bæði til réttarverndar og verndar af ýmsu öðru tagi. Þennan rétt þarf að virkja í ofbeldismálum og hann hefði átt að virkja í Klausturmálinu – en það var ekki gert. Engum stendur það þó nær en Alþingi sem er í lifandi sambandi við framkvæmd samningsins og Evrópuráðið – og svo lögreglu og ákæruvaldi. Enn er það ekki of seint.
Istanbúlsamningurinn
Samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, frá 2011, sem kenndur er við Istanbúl, ber með sér einhvern glæsilegasta árangur 3. og 4. bylgju femínismans. Samningurinn var staðfestur hér á landi vorið 2018 og ákvæði hans færð í hegningarlög 2016. Hann hefur því fullt gildi hér á landi. Samningurinn er að því leyti sérstakur að hann hefur femíníska sýn á kynferðislegt ofbeldi, þ.e. að ofbeldi sé hluti af mismunun milli kynjanna, einkum vegna sögulegs ójafnvægis í valdahlutföllum sem meðal annars „kemur í veg fyrir fullan framgang [kvenna] … og er eitt helsta félagslega tækið til að neyða konur til að skipa lægri sess í samfélaginu en karlar“ (Inngangur og 1. gr.).
Istanbúlsamningurinn inniber ákvæði sem skilgreina hvaða ofbeldi er refsivert og viðurlagaskylt í greinum 33.-40. Það er ástæðan fyrir því að ákvæði hans voru innleidd í hegningarlög. Þau eru að finna í 23. tölul. 6. gr. laganna. En leiða má að því sterk rök að samningurinn hafi ekki komið til framkvæmda hér á landi enn sem komið er.
Samningurinn er ekki eins þekktur hér á landi og vert væri og hann virðist ekki vopn í daglegri femínískri baráttu og kom lítið til umræðu í tengslum við brot Klausturdólganna. Við endurlit höfundar þessara orða á þennan samning og með hugann við Klausturmálið nú ári síðar virðist hins vegar ljóst að hann hefði getað orðið miðlægur í umræðu um réttarfarslega stöðu þolenda í því máli – og vil ég vekja máls á því þótt seint sé. Kærufrestur fyrir einkaréttarlega ákæru er runninn út, en hið opinbera ákæruvald hefur alla möguleika á að ákæra gerendurna enn um sinn (í tvö ár frá atburði) – og veit ég ekki af hverju það hefur ekki gerst. Eftir hverju bíður lögregla og saksóknari?
Brot á Istanbúl-samningnum er hegningarlagabrot
Í 3. gr. samningsins er skilgreint hvað kynbundið ofbeldi er. Þar segir m.a. að „kynbundið ofbeldi gegn konum merkir ofbeldi sem er beint að konu vegna þess að hún er kona eða ofbeldi sem konur verða hlutfallslega meira fyrir“. Enginn vafi er á því að þessi skilgreining á við í Klausturmálinu.
Tökum eftir því að í 50. gr. samningsins segir að viðbrögð eiga að vera tafarlaus. Á því hefur orðið nokkur misbrestur.
Fjölmörg orð Klausturdólganna brjóta í bága við 40. gr. samningsins sem hljóðar svo: „Samningsaðilar skulu … gera refsivert eða beita viðurlögum gegn kynferðislegri áreitni, hvort sem hún er orðbundin, táknræn eða líkamleg sem viðhöfð er í óþökk þess sem fyrir henni verður og er til þess gerð að brjóta eða leiðir til þess að brotið er gegn mannlegri reisn einstaklings, einkum þegar áreitnin skapar kúgandi, fjandsamlegar, lítillækkandi, niðurlægjandi eða móðgandi aðstæður.“
Skyldur íslenska ríkisins í þessu efni eru meðal annars skilgreindar í 23. tölul. 6. gr. hegningarlaganna eins og fyrr segir og kemur þar eftirfarandi fram: „Enn fremur skal refsað eftir íslenskum hegningarlögum fyrir brot…“ gegn ákvæðum „sem [frá] greinir í samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi frá 11. maí 2011.“ Það er mikilvægt að þetta sé bundið í hegningarlög þannig að ofbeldi af þessu tagi sé skilgreint sem refsiverður glæpur. Refsiþyngingarástæður eru síðan fyrir hendi í 46. gr. hegningarlaganna og eru til staðar ef fleiri en einn maður er í sameiningu sekur um kynbundið ofbeldi.
Og tekið skal fram að ákvæði 49. gr. stjórnarskrár um þinghelgi hindrar ekki framlagningu ákæru gegn þingmanni ef hún er um refsiverða háttsemi, þá gildir þinghelgin einfaldlega ekki lengur.
Viðbrögð við ofbeldi
Klausturdólgarnir töluðu um nokkrar nafngreindar konur. Þær eiga allar rétt á vernd samkvæmt ákvæðum Istanbúlsamningsins og minnt skal á að: „Samningsaðilar skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir … til að veita eða sjá til þess að fyrir hendi sé fullnægjandi stuðningsþjónusta sérfræðinga sem sérhver þolandi hefur tafarlausan aðgang að, hvort sem er til skamms eða langs tíma, sem orðið hefur fyrir nokkru ofbeldisbroti er fellur undir gildissvið samnings þessa.“ (22. gr.).
Spyrja má hvaða stuðningsþjónustu þolendur ofbeldisins fengu og frá hvaða aðila. Það hefur ekki komið fram og er hér gengið út frá því að hún hafi verið lítil eða engin, nema hvað samkennd þjóðarinnar var einlæg eftir sjónvarpsviðtal við Lilju Alfreðsdóttur.
Sennilega hefði það staðið Alþingi næst að takast á við það mál, tryggja að þolendum væri gert auðveld að ákæra eða að undirbúa ákæru stjórnvalda, úrskurða hratt og vel í siðanefnd þingsins og sjá til þess að þær þyrftu ekki að umgangast ofbeldismennina, t.d. að þeir sætu ekki í sömu nefndum og þær. Stuðningsþjónusta snýst m.a. um lagavernd og réttarfarslega vernd. Lögregluyfirvöld og saksóknari höfðu þannig einnig skyldur í málinu og ekki bara rannsóknarskyldu – en í raun og veru er eðlilegast að saksóknari ákæri í þessu máli.
Meira um hlut Alþingis
Skyldur Alþingis sem vinnustaðar og þess samstarfsvettvangs sem leiðir gerendur og þolendur saman, eru vissulega ýmsar í þessu máli. Í fyrsta lagi er þjóðþingum boðið af hálfu Evrópuráðsins að taka þátt í eftirliti með þeim aðgerðum sem gripið er til vegna framkvæmdar samningsins (70. gr.), þannig að Alþingi á að gerþekkja rétt kvenna samkvæmt samningnum og jafnvel standa í framkvæmd hans á alþjóðavettvangi – og þá ekki síður hér heima. Má spyrja hvort Alþingi sinni slíku alþjóðlegu eftirliti og tali þannig tungum tveim. Þá hefur þingið siðferðislegar skyldur til að framkvæma vilja samningsins. Það er vegna þess að Alþingi er æðsta stofnun lýðveldisins og á að vera leiðandi fyrirmynd í samfélaginu – og ekki síst í löghlýðni.
Hér skal því bætt við að í Reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr. 1009/2015 segir: „Atvinnurekandi skal bregðast við eins fljótt og kostur er þegar honum berst kvörtun eða ábending um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað sem og verði hann var við slíka hegðun eða aðstæður á vinnustaðnum.“
Hér er eins og í Istanbúl-samningnum bæði talað um skyldur til viðbragða og að þau eigi að koma fram án tafar. Í þessu ljósi verður að telja að fordæming þingforseta á verknaðinum í ræðustól Alþingis, sem kom skjótt fram – hafi verið viðeigandi. En svo kom ekkert meira, það var eins og botninn dytti úr forsætisnefnd þingsins; málið lenti í endalausum formgöllum, engin ákæra, lítil eða engin rannsókn – og konurnar þurftu að verja sig sjálfar í sjónvarpi. Og siðareglur þingsins reyndust gagnslausar.
Hvað kom fyrir þingforseta?
Hér er spurt:
(i) Af hverju var málið ekki kært tafarlaust til lögreglu af forsætisnefnd þingsins og einnig til siðanefndar Alþingis?
(ii) Af hverju var ekki hafin tafarlaus lögreglurannsókn á málinu?
(iii) Til hvaða stuðningsaðgerða var gripið gagnvart þolendunum, var þeim veitt einhver þjónusta, voru gerendurnir einangraðir frá þeim eða aðrar ráðstafanir gerðar, t.d. stuðningur lögfræðideildar þingsins við undirbúning ákæru.
(iv) Var samráð haft við saksóknara um málatilbúnað.
(v) Voru dólgarnir sviptir þinghelgi í framhaldi af ákæru gegn þeim?
(vi) Var hafin innanhúsrannsókn á stöðu þingkvenna gagnvart kynbundnu ofbeldi?
(vii) Var í framhaldi af slíkri rannsókn gripið til ráðstafana og nýrra verkferla til að styrkja konur á Alþingi?
Svo virðist sem æðsta stjórn þingsins hafi snúist hugur í stuðningi við þolendur eftir samtal við lögmann gerandanna eða af öðru tilefni. Til að kóróna enn frekar það yfirklór sem fram fór skal nefnt að ráðgefandi siðanefnd hafði ekki nútímalega félagsfræðilega þekkingu til þess að taka á málinu eins og sjá má af úrskurði hennar. Hún mat það svo að gerendur hafi verið þeir einir sem töluðu berlegast; þeir einir hafi brotið siðareglur og er það áratuga gömul nálgun. Í nútíma eineltisfræðum (sem ég er kunnungur vegna starfa minna á alþjóðavettvangi gegn net-einelti) eru áhorfendur eða áheyrendur líka sökudólgar í persónulegum árásum og einelti. Þeir eru það sem heitir á ensku enablers – þeir gera ofbeldið í raun mögulegt. Ofbeldi er jafnan í boði áhorfandans. Þá skal aftur minnst á það ákvæði hegningarlaga að ef margir eiga í hlut leiðir það til hærri refsingar. Siðanefnd átti ekki aðeins að bregðast hratt við heldur átti hún að tilgreina brot allrar Klausturdólganna, þótt aðkoma þeirra að ofbeldinu hafi verið ólík.
Þar sem stuðningur við þolendur var ekki veittur, handarbakavinnubrögð viðhöfð og undansláttur og sniðganga á lögum og reglum einkenndu viðbrögð stjórnvalda í málinu – auk þess sem Persónuvernd felldi rangan úrskurð um lögmæti upptakanna sem gekk gegn grundvallarsjónarmiðum um upplýsingagjöf og persónuvernd – má spyrja sig hvernig opinber yfirvöld bregðist yfirleitt við kynbundnu ofbeldi gagnvart konum sem eru lægra í þjóðfélagsstiganum en alþingiskonur.
Að öllu samanlögðu skýrist að þegar til kastanna kom brást Alþingi þolendum í málinu. Enn getur það bætt úr því með því að óska eftir að ákæra verði lögð fram. Og það þarf að endurmeta hvort þöggun og yfirgangur sé besta leiðin til að vernda mannorð þingsins – og betri en að virða lög og reglur sem settar hafa verið til að takast á við ofbeldi.
Rangur úrskurður Persónuverndar
Það hefur verið ljóst frá um 1970 að upplýsingatæknin beindi ljósi sínu einkum niður á við samfélagslega - einkum að einstaklingum - en ekki upp á við og að valdinu. Með valdinu á ég við ríkisstofnanir, stjórnarráð og stjórnvöld sveitarfélaga eða alla þá sem hafa yfir almenningi að segja í nafni okkar sameiginlega valds – og þá m.a. við þingmenn.
Uppruni reglusetningarinnar
Í upphafslandi tölvubyltingarinnar, Bandaríkjunum, hófst eftir miðja síðustu öld barátta, m.a. með málaferlum, sem snerist um aðgang að opinberum gögnum: Annars vegar að almenningur ætti rétt á að sjá hvað um hann væri skráð í opinberar skýrslur og hins vegar til að beina ljósi upplýsingatækninnar upp á við samfélagslega, að valdinu. Að beina ljósi upplýsingatækninnar að valdinu – var rökstutt þannig að almenningur ætti rétt á að ganga nær hinu opinbera en áður, þar sem það gengi sífellt nær og nær almenningi.
Sjónarmið upplýsingafrelsis urðu ofan á og upplýsingalög voru leidd í bandarísk lög undir stjórn Lyndon B. Johnson 1966. Þau hétu Lög um frelsi upplýsinga (e. The Freedom of Information Act) og sögðu fyrir um opnun og dreifingu opinberra gagna, bæði sem vörðuðu almenning og stjórnvöld. Níu undantekningar voru leyfðar frá meginreglum laganna. Margar viðbætur hafa verið samþykktar við þessi lög síðan, margir úrskurðir felldir og almenningur unnið marga sigra gegn hinu opinbera valdi.
Árið 1973 samþykktu síðan heilsumála-, menntamála- og velferðarráðuneyti Bandaríkjanna reglur um Sanngjarna meðferð upplýsinga (e. Fair Information Practice Principles), sem urðu grunnurinn að persónuverndarlögum sem sett hafa verið um allan heim, en Bandaríkin hafa þó ekki fært reglurnar, eða aðrar sem hafa þróast út frá þeim, í lög.
Í þessum hálfrar aldar gömlu átökum komu fram sjónarmið sem endurspegla afstöðu Vesturlandabúa til upplýsingafrelsis á upplýsingaöld: (i) Almenningur á rétt á aðgangi að upplýsingum um hið opinbera, um opinbera starfsemi, um ákvarðanir og um fulltrúa sína, (ii) hann á rétt á að vita hvað um hann er skráð og (iii) hann á rétt á persónuvernd og einkalífi hvað þeim skráningum viðkemur. ESB hefur á síðustu árum bætt við fjórða sjónarmiðinu: (iv) Að almenningur hafi ákveðna stjórn og yfirráð yfir skráningum um sig.
Upplýsingalög og persónuvernd á Íslandi
Þessi barátta og reglusetning barst til Evrópu og við fengum tiltölulega þróaða útgáfu af henni með EES-samningnum: Fyrst upplýsingalögin 1995, sem varðaði lið (i) og síðan persónuverndarlög á árinu 2000, sem varða liði (ii) og (iii). Upplýsingalögin voru endurnýjuð með nýjum lögum nr. 140/2012 og persónuverndarlögin voru endurnýjuð með lögum nr. 90/2018, sem innibáru einnig lið (iv).
Íslensk stjórnvöld hafa átt erfitt með að sætta sig við upplýsingalögin og tilheyrandi grundvallarreglur laga um upplýsingarétt almennings í lýðræðisþjóðfélagi. Um það má m.a. lesa í Skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2018, sem út kom 15. ág. 2019. Þessi tregða hefur margar birtingarmyndir, t.d. (i) virðast stjórnvöld hafna beiðnum reglulega og neyða fréttamenn til þess að fara með mál til úrskurðarnefndar, (ii) þannig hrannast mál upp hjá henni og ríkið sveltir nefndina fjárhagslega til að veikja hana, (iii) úrskurðarnefndin hefur, samkvæmt Umboðsmanni Alþingis, lengri málsmeðferðarfrest en tíðkast í nágrannaríkjunum; (iv) raunar segir Umboðsmaður Alþingis að hún þurfi að standa hærra í skipuriti Stjórnarráðsins en er tilfellið og (v) einnig eru upplýsingafulltrúar hjá opinberum stofnunum notaðir til þess að snúa út úr upplýsingabeiðnum eða leita leiða til þess að gefa ógreinileg og ófullnægjandi svör.
Nýjasta tilhneigingin er að nota persónuverndarsjónarmið, sem hafa einmitt fengið sterkari stöðu í Evrópu og víðar en áður, til þess að skapa óréttmæta leynd. Umboðsmaður Alþingis talaði um þessa tilhneigingu á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis 9. október 2019. Það var reynt í Glitnis-málinu gegn Stundinni og það var reynt í Klausturs-málinu. Í fyrra dæminu gekk það ekki, en Persónuvernd brást almenningi og úrskurðaði Klausturupptökurnar ólöglegar með afgreiðslu máls nr. 2018/1741, og að þeim skyldi eyða. Úrskurður Persónuverndar gengur gegn megintilgangi persónuverndar og upplýsingafrelsis eins og hann hefur verið borinn fram og í þeim málum dæmt á Vesturlöndum.
Úrskurður Persónuverndar
Úrskurður Persónuverndar vekur upp spurningar um hvort úrskurðarvald skuli liggja hjá stofnun sem hefur aðeins með ein lög að gera því þarna eiga fleiri sjónarmið við – og þá er spurning hvort eitthvað sé að marka úrskurði Persónuverndar ef þeir byggjast á þröngri sýn á einum lagabálk. Þannig gætu persónuverndarmál framvegis þurft að fara fyrir dómstóla til að fá réttmætan úrskurð yfirleitt. Sá sem þetta ritar telur mjög mikilvægt að réttmæt niðurstaða fáist í málum og persónuvernd sé ekki misnotuð af yfirvöldum.
Í ESB-reglugerðinni, ESB 216/679, sem liggur til grundvallar íslensku persónuverndarlögunum segir í 4. gr.: „Vinnsla persónuupplýsinga ætti að hafa það að markmiði að þjóna mannkyninu. Rétturinn til verndar persónuupplýsingum er ekki ófrávíkjanlegur, hann þarf að ígrunda í tengslum við hlutverk hans í samfélaginu og vega hann og meta gagnvart öðrum grundvallarréttindum í samræmi við meðalhófsregluna.“ Þessa reglu ber Persónuvernd að virða því í 3. mgr. 5. gr. íslensku persónuverndarlaganna nr. 90/2018 segir: „Ákvæði reglugerðarinnar [ESB 216/679] ganga framar ákvæðum laga þessara.“
Uppljóstrun í almannaþágu
Þá er það ósagt að upptakan á Klaustrinu var dæmigerð uppljóstrun í almannaþágu. Uppljóstranir brjóta gjarnan í bága við einhver lög – og er skemmst að minnast uppljóstrana Panamaskjalanna og uppljóstrana í Namibíumáli Samherja – en hlutverk þeirra í upplýstum lýðræðisþjóðfélögum er gjarnan að koma upp um ósiðlegt, ólöglegt og/eða saknæmt athæfi yfirvalda – og yfirstæðar grundvallarreglur laga og skilningur á upplýsingarétti leiðir til þess að uppljóstranir eru ávallt dæmdar löglegar. Þessu til staðfestingar keypti Skattrannsóknarstjóri illa fengin gögn um peningaeignir í skattskjólum, sem þýðir að íslenskt ríkisvald virðir lögmæti gagnanna þrátt fyrir uppruna þeirra. Nú er auk þess unnið að lagasetningu um vernd uppljóstrara.
Persónuvernd veikir réttaröryggi þolenda kynbundins ofbeldis Það eru raunar ekki bara yfirstæðar grundvallarreglur laga sem Persónuvernd gekk gegn. Hún gekk einnig gegn 23. tl. 6. gr. hegningarlaga, þar sem – eins og fyrr greinir – lögtekin eru refsiákvæði samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samningurinn) hér á landi. Þá varðar ofbeldið á Klaustrinu 70. gr. hegningarlaganna sem fjallar um hvaða áhrif það hefur á refsihæðina ef margir koma að málinu.
Í þessu ljósi sést að úrskurður Persónuverndar spillti réttarstöðu þolenda málsins og gekk þannig gegn réttaröryggi og kröfunni um eyðingu gagna var jafnvel ætlað að hindra notkun upptakanna fyrir rétti.
Ólögleg sönnunargögn
En nú kemur upp spurningin: Er hægt að ákæra í máli þar sem sönnunargögnin hafa verið úrskurðuð ólögleg og gefin skipun um að þeim sé eytt? Svarið er tvímælalaust: Já, enda eru ólögleg gögn oftar en ekki notuð í uppljóstrunum gagnvart æðsta valdi og raunar í ofbeldismálum yfirleitt. Það getur réttarkerfið gert og þótt Bára Halldórsdóttir hafi eytt sinni útgáfu eru upptökurnar til um allt Internetið og uppskriftir til víða og þeim þurfti ekki að eyða. T.d. voru upptökurnar skrifaðar upp fyrir siðanefnd Alþingis – og þær eru væntanlega til í fórum lögreglu.
Enda þótt upptökurnar hafi verið úrskurðaðar ólögmætar um sinn geta þær engu að síður, ásamt með öðrum gögnum, orðið grundvöllur ákæru. Í því efni þarf að hafa í huga eftirfarandi:
Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) miðar við að réttargögn sem aflað er með ólögmætum hætti (sem vissulega eru algeng, einkum í málaflokkum sem erfitt er að sanna, svo sem í ofbeldismálum og fjárkúgunarmálum) geti legið til grundvallar ákæru og dóms ef málsmeðferðin er réttlát að öðru leyti og sönnunargögnin hafa mikið sönnunargildi. Má í þessu sambandi minna á eftirfarandi efnisatriði:
(i) Að framlagning sönnunargagna má ekki hindra möguleika sakborninga til þess að halda uppi vörnum.
(ii) Sakborningar þekki til efnis sönnunargagnanna og hafa gert allan tímann og hafi haft tækifæri til þess að hafna því að þau væru ósvikin. Þeir hefðu líka getað hafnað því að þau hafi gildi gagnvart þeim. Í þessu tiltekna máli hafa sakborningar í raun gengist við orðum sínum með þegjandi þögninni og sumir þeirra hafa einnig játað réttmæti sönnunargagnanna með því að biðjast afsökunar.
Þá verður einnig að hafa í huga að sakborningar:
(i) voru ekki vélaðir til þess að fella sök á sjálfa sig;
(ii) þeir voru ekki þvingaðir til þess að beita ofbeldi og
(iii) þeir voru ekki hvattir til þess að fremja afbrot, enda ekki um tálbeitu að ræða. Þannig eru skilyrði MDE um að ólöglegum gögnum sé vísað frá ekki fyrir hendi. Það skal tekið fram að íslensk, dönsk og norsk réttarframkvæmd er enn opnari fyrir notkun ólögmætra sönnunargagna en MDE.
Réttarkerfið hefur í svona málum ýmsar skyldur, einkum regluna um sannleiksleit, sem þýðir að dómurinn þarf að meta hvort sönnunargögn séu áreiðanleg – og hefur þessi regla meira vægi en spurningin um hvort gagnanna hefur verið aflað með lögmætum hætti.
Þessar málsgreinar byggjast á bók Stefáns Más Stefánssonar, Um sönnun í sakamálum (2014) og grein Davíðs Þór Björgvinssonar, Þýðing sönnunargagna í sakamálum sem aflað hefur verið með ólögmætum hætti: Um dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu (2008).
Lokaorð
Höfundur þessara orða gerir sér grein fyrir að stjórnvöld eru ekki kunnug því hvaða skyldur þau hafa tekist á herðar með Istanbúlsamningnum. Engum stendur þó nær að framkvæma þær en Alþingi, lögreglu og saksóknara. Mikilvægt er að lyfta samningnum að ljósi hinnar opinberu umræðu þannig að stjórnvöld og vinnustaðir beiti réttum úrræðum og til þess að þolendur viti betur rétt sinn. Réttarfarsleg staða íslenskra kvenna er nefnilega eins góð og unnt er í heiminum í dag með því að samningurinn hefur verið fullgiltur af Íslands hálfu og ákvæði hans tekin inn í íslensk lög.
Enginn vafi er á því að lög og réttur var brotinn á þolendunum í Klausturmálinu og getur lögregla og saksóknari enn bætt úr því og hafið málatilbúnað vegna refsiverðrar háttsemi Klausturs-dólganna. Það myndi skapa mikilvægt fordæmi fyrir framkvæmd Istanbúlsamningsins – og hreinsað andrúmsloftið í stjórnmálunum.
Þá er alveg ljóst að Persónuvernd felldi rangan úrskurð þegar hún taldi að upptökurnar væru ólöglegar. Mikilvægt að taka á því af festu að íslenskir ráðamenn og stjórnvöld geti ekki notað persónuverndarlög til þess að skýla sér. Það stríðir gegn tilgangi laganna.
Höfundur er stjórnsýslufræðingur.