Samherji og hvað svo?

Indriði H. Þorláksson skrifar um Samherjaskjölin og eftirmála birtingu þeirra.

Auglýsing

Nokkuð er um liðið síðan birt voru Samherjaskjölin þar sem upplýst var um ætlaðar mútugreiðslur félagsins til að komast á billegan hátt yfir fiskveiðikvóta í fátæku landi og hulunni var svipt  af bankareikningum í skattaskjólum og fjárflutningum milli þeirra. Viðbrögð fyrirtækisins voru ekki óvænt. Staðreyndum var neitað í fyrstu en síðan komið fram með “annan sannleika” og kenninguna um falskar fréttir fjölmiðlasamsæris. Að lokum var því lofað að sannleikurinn yrði leiddur í ljós með rannsókn innvígðra og geislabaugurinn fægður. Til þess að auðvelda það steig framkvæmdastjóri félagsins til hliðar og sagði sig úr stjórn tuga félaga heima og erlendis.

Viðbrögð í umhverfinu voru misjöfn en ekki síður áhugaverð. Hneykslun og fordæming þessa framferðis var algeng meðal almennings nema í nærumhverfi fyrirtækisins þar sem viðurværi manna er undir því komið og molar hrjóta af borði þess. Talsmenn sjávarútvegs og atvinnulífs steinþögðu svo eftir var tekið. Á stjórnmálasviðinu skipti í tvö horn. Fordæming annars vegar en allt að því réttlæting hins vegar. Viðbrögð stjórnvalda voru nokkuð óræð í byrjun. Forsætirráðherra var afdráttarlaus í afstöðu sinni en stjórnvöld viðskipta, fjármála og sjávarútvegs voru hikandi. Eftir viku kynnti ríkisstjórnin aðgerðir til að auka traust á íslensku atvinnulífi, sem með nafni og að efni beina athyglinni frá því sértæka, þ.e. starfsháttum stórútgerðar, en að hinu almenna, þ.e. atvinnulífi í landinu í heild, sem þó á vonandi ekki mikið sammerkt með hátterni Samherja. Aðgerðirnar eru í nokkrum liðum.

Þegar í upphafi var því lýst yfir að meint lagabrot yrðu rannsökuð af þar til bærum aðilum og í aðgerðaáætluninni er þeim heitið fé til þess að vinna að þessum tilteknu málum. Það er sjálfsagt mál að jafn vel upplýst meint lagabrot verði rannsökuð án þess að til sérstakrar ákvörðunar ríkisstjórnar komi. Hið athyglisverða er að aukinn fjárstuðningur er takmarkaður við rannsókn þessara sakamála eða skattalagabrota tengdum þeim. Ekki einn eyrir og ekki eitt orð um viðbrögð við því að svipt var hulunni af velskipulagðri brotastarfsemi sem blómstrað hefur árum saman án þess að “þar til bærir” eftirlitsaðilar fengju rönd við reist hvort sem það nú var vegna ófullkomins regluverks og sljórra tóla í höndum þeirra eða vegna þess að þeim hefur ekki verið gert það kleift af fjárhagsástæðum. Það er svo umhugsunarefni út af fyrir sig hvort einstaka ákvarðanir og athafnir eftirlitsaðila eigi að vera háðar samþykki stjórnvalda eða stýrt með því að fjárveitingar séu merktar tilteknum verkefnum.

Auglýsing

Í öðru lagi lögðu stjórnvöld áherslu á orðspor landsins og sjávarútvegsins og vöktun þess á alþjóðavettvangi. Utanríkisráðuneytinu var falið hlutverk Heimdallar að hlera um heim allan hvort illa sé talað um okkur. Ekki er ljóst hvernig við illu umtali skuli brugðist, t.d. hvort farið yrði að fordæmi hrunstjórnarinnar í bankamálunum og efnt til ímyndarherferð fyrir íslenska sjávarútveg. Blessunarlega herma fréttir að illt umtal hafi verið lítið og því væntanlega hægt að sleppa þeim áhyggjum og halda strikinu.

Í þriðja lagi eru boðaðar ráðstafanir til að auka gagnsæi hjá óskráðum fyrirtækjum, einkum sjávarútvegsfyrirtækjum. Virðist þar um að ræða aðlögun að nýjum reglum ESB sem fela m.a. í sér að óskráð fyrirtæki hlíti að einhverju marki þeim reglum sem gilda um skráð fyrirtæki svo sem um birtingu ársfjórðungsyfirlita. Erfitt er að sjá fyrir sér að þessar reglur hefði breytt einhverju um mál Samherja, möguleikum hans á sviðsetningu viðskipta eða líkunum á því að eftirlitsstofnanir en ekki rannsóknablaðamenn hefðu flett ofan af ósómanum. Það verður ekki fram hjá því horft að sú starfsemi sem þar birtist er möguleg vegna skorts á fullnægjandi lagareglum hér á landi m.a. um upplýsingagjöf íslenskra aðila um starfsemi sína erlendis t.d með þeim hætti að hún sé skráð hér á landi eins og starfsemi á Íslandi. Þá verður ekki framhjá því litið að íslensk félagalögjöf, einkum lög um einkahlutafélög og skattareglur um þau, bjóða upp á skattasniðgöngu sem iðkuð er m.a með notkun tengdra erlendra félaga. Afleiðingin er sú að ætla má að stór hluti eignarhalds á fyrirtækjum, hlutabréfum og öðrum peningalegum eignum sé falinn í eignarhaldsfélögum, þar sem þær eru hultar fyrir upplýsingamiðlun og komið í veg fyrir að raunverulegir eigendur þeirra sæti skattlagningu í samræmi við raunverulegar eignir og tekjur eins og aðrir borgarar landsins. Því til staðfestingar má benda á upplýsingar Stundarinnar fyrir nokkru um skatta og skattleysi auðugust landsmanna.

Að lokum má nefna að einnig var brugðið á það ráð að óska eftir úttekt FAO á viðskiptaháttum Samherja og áþekkra aðila. FAO er samkvæmt heimasíðu sinni: “a specialized agency of the United Nations that leads international efforts to defeat hunger. Our goal is to achieve food security for all and make sure that people have regular access to enough high-quality food to lead active, healthy lives.” Af þessu og öðrum upplýsingum um hlutverk stofnunarinnar má búast við því að það taki Sameinuðu þjóðirnar nokkurn tíma að breyta hlutverki FAO í viðskiptarannsóknir. En vera kann að vegna áhrifa þessar viðskiptahátta á lífskjör vannærðra Afríkubúa takist það og að seta Íslands í mannréttindaráði SÞ flýti fyrir því að svo verði.

Rýrt innihald aðgerða stjórnvalda skýrist etv. af því að talið hafi verið að bregðast þyrfti skjótt við eins og kom fram hjá forsætisráðherra þegar í upphafi en þegar til hafa átt að taka hafi ekkert bitastæðara fundist hjá þeim fagráðuneytum sem málið snertir og stjórnvöld ekki gefið sér tíma til að greina flókið málið. Það sem afhjúpað var, að mútunum frátöldum, svo sem eignarhaldsflétturnar hafa verið á flestra vitorði árum saman og að minnsta kosti frá uppljóstrunum Panamaskjalanna. Röng verðlagning í viðskiptum tengdra aðila, en grunur um hana var undirrót Samherjamáls Seðlabankans, er vel þekkt leið til skattundanskota og annars “rekstrarhagræðis” sbr. grein formanns Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda í Fréttablaðinu 29. nóv. 2019.

Í skýrslu nefndar fjármála- og efnahagsráðherra 2016 um eignir Íslendinga á aflandssvæðum er sá þáttur, m.a. í sjávarútvegi, nefndur til skýringa á uppsöfnun aflandseigna og sagt varfærnislega að ekki sé hægt að útiloka að slíkt sé enn í gangi. Í skýrslunni er m.a. þetta orðalag að finna: “Til skamms tíma áttu mörg sjávarútvegsfyrirtæki dótturfyrirtæki á Kýpur sem nýttust þeim í skattalegu tilliti. Telja sumir að þessi dótturfélög íslensku sjávarfyrirtækjanna hafi einnig verið notuð við milliverðlagningu afurðanna.” Ekki er vitað til þess að þessi skýra ábending nefndarinnar hafi orðið stjórnvöldum tilefni til aðgerða eins og saga Samherja á Kýpur sannar. Það hefði einnig komið á óvart að stjórnvöld sem vissu eða máttu vita hvað í gangi var hefðu haft á takteinunum viðbrögð við því og gætu gripið til þeirra með skömmum fyrirvara enda hefðu þau þá þurft að svara spurningunni: Hvers vegna ekki fyrr? Það ráðaleysi sem einkennir aðgerðir stjórnvalda kemur ekki á óvart. 

Aðgerðir stjórnvalda, sem beinast fyrst og fremst mútuþætti málsins, mega ekki verða til þess að bægja athyglinni frá öðrum þáttum þess. Mútugreiðslur eru að sjálfsögðu alvarlegur siðferðibrestur og lagabrot og eiga að sæta rannsókn sem slíkar af til þess bærum aðilum án íhlutunar og inngripa framkvæmdavaldsins með fyrirmælum eða fjárstýringu. Hlutverk stjórnvalda hins vegar er að greina það lagalega og skipulagslega umhverfi sem gert hefur þessa starfshætti mögulega og leggja mat á hvað hefur brugðist og vinna á því bót. Sú greining þarf að taka til félagaréttar, skattaréttar og þeirra sérstöku lagareglna sem gilda um sjávarútveg hér á landi.

Fullyrt hefur verið að engin tengsl séu á milli Samherjamálsins og kvótakerfisins. En er það svo? Með kvótakerfinu er byggð upp einokun eða fákeppni í sjávarútvegi og sú auðlegð sem þjóðin á í fiskveiðiréttindum er að mestu leyti seld í hendur fárra aðila. Ein af helstu röksemdum fyrir því hefur verið að þannig verði til fé í höndum þessara aðila til fjárfestinga og uppbygginga á “samkeppnishæfum” sjávarútvegi sem skapi svo velferð fyrir alla. Þessi brauðmolakenning lifir góðu lífi þótt fyrir liggi að æ minni hluti virðisauka í sjávarútvegi renni til annarra en útgerðarinnar og eigenda fjármagns í henni. Við það bætist að glöggt má sjá hvernig hagnaður af fiskveiðumum, þ.m.t. auðlindarentan, streymir beint eða í gegnum eignarhaldsfélög sægreifa inn í aðra atvinnustarfsemi, fasteignafélög, verslunarkeðjur, ferðaþjónustufyrirtæki, fjölmiðlafyrirtæki o.fl. með þeim árangri að þessi sameign þjóðarinnar er að færa fáeinum fjölskyldum eignarhald á stórum hluta atvinnutengdra eigna í samfélaginu. Þeirri þróun lýsir Jón Baldvin Hannibalsson vel í grein á Kjarninn.is 16. nóvember sl.: Ætlar enginn (virkilega) að gera neitt í þessu? Með Samherjamálinu bætast nú við upplýsingar um að einhverjir þeirra sem trúað hefur verið fyrir fiskveiðiauðlind þjóðarinnar nota fjármuni og aðstöðu sem þeir hafa þannig fengið til sniðganga skattalög hér á landi og óhæfuverka erlendis. Það ætti að verða stjórnvöldum og stjórnmálaöflum landsins tilefni til að íhuga siðferðilegan og lagalegan grundvöll þessa kerfis þar á meðal hvort ekki sé nauðsyn á stjórnarskrá sem taki af tvímæli um að þjóðin sé raunverulegur eiganda náttúruauðlinda landsins þmt. fiskveiðiréttinda og að í eignarhaldi þjóðarinnar felist óskoraður réttur  hennar til allrar rentu af auðlindunum.

Annað en skylt tilefni fyrir stjórnvöld til aðgerða er sú spurning hvort hér sé um einstakt mál að ræða. Flest stærri sjávarútvegsfyrirtæki landsins hafa byggt upp framleiðslu- og sölukerfi á svipuðum forsendum og Samherji með seignarhaldi á fyrirtækjum erlendis. Þau eru öll útsett þeim freistnivanda sem verðlagning milli skyldra aðila skapar og fært getur þeim skattahagræði og lækkun á kostnaði vegna tengingar á launum sjómanna við aflaverð. Með það í huga sem fram kemur í skýrslu nefndar um eignir Íslendinga á aflandssvæðum má spyrja hvort líklegt sé að aðeins sé eitt skemmt epli í körfunni.

Hefði það ekki verið betur tilfundið að í stað þess að fá erlenda matvælastofnun til þess að skoða hrossamakrílveiðar við vesturströnd Afríku hefðu stjórnvöld sett á laggirnar rannsókn á starfsemi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hér á landi og erlendis með tilliti til þeirra upplýsinga sem fram hafa komið í Samherjamálinu og Panamaskjölunum. Rannsókninni yrði m.a. beint að  viðskiptaháttum og skatthlítni stórra sjávarútvegsfyrirtækja og rannsakandinn fengi með lögum heimild til að krefjast allra nauðsynlegra upplýsinga um starfsemi þeirra og þeirra aðila sem tengjast þeim.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á stóran þátt í því að þolmarkadagur jarðar er jafn snemma á árinu og raun ber vitni.
Þolmarkadagur jarðarinnar er runninn upp
Mannkynið hefur frá upphafi árs notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári. Til þess að viðhalda neyslunni þyrfti 1,7 jörð.
Kjarninn 29. júlí 2021
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar