Í gegnum fallegu jólalögin á aðventunni mega hugsanir landsmanna nú glíma við að skilja eða reyna að skilja mannlega hegðun út frá nýjum mælikvörðum. Samkvæmt fréttaskýringaþættinum Kveik, Al Jazeera og fyrir tilstilli Wikileaks, hefur samsteypa í eigu stærsta sjávarútvegsfyrirtækis landsins orðið uppvíst að alvarlegri misbeitingu fjármagns.
Á milli þess sem fjölskyldur, börn, frændur og vinir eru að huga að, hvernig gleðja megi ástvini með hlýjum hugsunum, veislum og gjöfum í anda jólanna, þurfa hin sömu að brjóta heilan um hvernig börnin og fjölskyldurnar í Namibíu hafi það, landi sem lifir við mikla fátækt og skort.
Við erum jú vön að styrkja kristilegt Hjálparstarf kirkjunnar og Barnahjálpar SOS sem annast líknar- og hjálparstörf meðal fátækari ríkja Afríku. Okkur er ekki sama og höfum sýnt það í verki.
Þróunarsamvinnustofnun Ísland stóð fyrir innleiðingu fiskveiðistjórnunarkerfis og kennslu í Namibíu til að hjálpa bláfátækri þjóð að nýta gjöfula sjávarauðlind undan ströndum landsins. Hjartnæmur stuðningur okkar við Namibíu hefur komið úr vösum okkar beint og gegnum skattfé til þróunarstarfsins og myndað traust milli þjóðanna, nokkuð sem handvöldum íslenskum kvótahöfum var afhent til misnotkunar og eyðileggingar.
Nú hafa upplýsingar um mútugreiðslur úr hendi samsteypu stærsta sjávarútvegsfyrirtækis Íslands verið afhjúpaðar. Fyrirtækis sem hefur hagnast gríðarlega í skjóli pólitískt tengdra sérhagsmuna á Íslandi gegnum kvótakerfi sem inniheldur sérhönnuð göt og gloppur fyrir skipulagða fjárplógsstarfsemi.
Umliðna áratugi eða allt frá því ljóst var hvert stefndi í kvótakerfinu bentu almenningur og sérfræðingar á þá staðreynd að ekki væri hægt að leigja frá sér eign til þriðja aðila sem þú ættir ekki, hvað þá heldur að selja til þriðja aðila eitthvað sem hvorki var þín eign, né að þú hafir greitt fyrir hana, hvað þá heldur að stinga andvirðinu í vasann. Um þverbak keyrði síðan þegar handhafa kvóta var leyft að veðsetja óveiddan fiskinn í sjónum sem hann upphaflega átti aldrei, en þessi sjálfs skömmtun fárra er innbyggð í fiskveiðikerfi Íslendinga.
Eitt það fyrsta sem við lærðum í æsku af foreldrum okkar var sú dyggð heiðarleikans, að ef þú færð eitthvað að láni þarf að passa það vel og skila síðan til réttmæts eiganda að notkun lokinni. Þetta er einnig eitt það fyrsta sem við leiðbeinum börnum okkar um, enda inniheldur grunngildi siðferðilegrar hugsunar.
Í fiskveiðikerfi Íslendinga eru allar grundvallarreglur um eignarétt, siðferði, heiðarleika og góða viðskiptahætti þverbrotnar. Reglurnar eru ekki þverbrotnar óvart, heldur vegna þess að stjórnmálafólk og flokkar hafa hag af því að setja völdum útgerðarfélögum reglugerðir og lög til fjárplógs en á sama tíma hlunnfara eigandann, þjóðina, af sama fjármagni. Hvers vegna er siðferðið svona veikt hér á Íslandi þegar kemur að samskiptum stjórnmála og stórútgerðar?
Aðferðafræðin hefur nú verið opinberuð af Kveik, Al Jazeera og Wikileaks í Samherjamálinu.
Namibíumál Samherja opinberar aðferðarfræði sem er ekki ný af nálinni. Hagsmunatengsl stjórnmálaflokka og stórútgerðar á Íslandi bjaga lýðræðið og skekkja stöðu heilbrigðis- og velferðamála.
Sven Harald Oygard fyrrum seðlabankastjóri sagði nýlega í viðtali í Silfrinu: „Það er eitthvað undarlegt í gangi á Íslandi og kominn tími til að hreinsa upp.“
Ég er honum sammála.
Á Íslandi, umliðna þrjá áratugi, hefur ómannúðlegt rányrkjukerfi verið þróað sem svift hefur almenning sanngjörnum arði auðlinda sinna. Hugmyndafræði þessa kerfis er nú orðin útflutningsvara til vanþróaðri landa. Þolendur eru fátækar fjölskyldur og börn sem líða fyrir skort á góðri menntun, húsnæði og heilsusamlegs fæðis. Börn og fjölskyldur sem veikjast og deyja vegna skorts á fjármagni til heilbrigðismála svo fátt eitt sé nefnt.
Ennþá situr íslenskur sjávarútvegsráðherra í embætti þrátt fyrir að vera persónulegur vinur meints höfuðpaurs í þessu máli og fyrrum stjórnarformaður umrædds fyrirtækis.
Kæru vinir, njótið kristilegs kærleika og fallegrar aðventu en ekki gleyma þeim sem minna mega sín í Namibíu og líða skort, því ástand þeirra er m.a. á ábyrgð okkar aðgerðaleysis.