Á þriðjudagskvöld 3. desember var sýndur mjög góður þáttur Kveiks um Árneshrepp á Ströndum og Hvalárvirkjun. Þar var rætt við margt mætt fólk sem yfirleitt fær ekki að tjá sig um stóru málin, þ.e. íbúana á svæðinu. Einnig fékk einstök náttúrufegurð svæðisins að njóta sín á hátt sem sjaldan hefur tekist nógu vel í sjónvarpi.
Í fyrirsögn þáttarins á vef Kveiks er byggðaþróun og nátturuvernd stillt upp sem andstæðum. Því er haldið fram að fólk sé annað hvort með náttúrunni eða byggðinni í liði. Þar birtist gamaldags hugsunarháttur sem gerir ráð fyrir því að byggð geti eingöngu þrifist í landinu á kostnað náttúrunnar. Í nútíma er þetta langt frá því að vera rétt eins og skýrsla Hagfræðistofnunar um friðlýst svæði og hag sveitarfélaga sýnir skýrt. Friðlýst svæði hafa nefnilega jákvæð áhrif á afkomu og atvinnu í dreifðum byggðum.
Þá sýnir nýleg skýrsla sem Environice vann fyrir náttúruverndarsamtökin Ófeigu að friðlýsing Drangajökulsvíðerna skilar mun meira til samfélagsins á Ströndum en virkjun til langs tíma, en markið hlýtur alltaf að vera að tryggja stöðugleika til langs tíma en ekki uppgrip í örfá ár sem síðan skilja ekkert eftir nema eyðilagða náttúru og gróða örfárra aðila.
Aðalfundur Landverndar ályktaði fyrir 20 árum um nauðsyn verndar náttúru- og menningarminja í Árneshreppi. Ályktuninni fylgdi Landvernd eftir með fundum í héraði og úttekt sem leiddi til tillagan um aðgerðir að bjarga búsetu og byggð í þessari fögru svei. Í kjölfarið samþykkti Alþingi þingsályktun sem tók undir þau sjónarmið sem Landvernd hafi sett fram. En því miður brugðust stjórnvöld; lítið sem ekkert var gert til að fylgja þeim tillögum eftir. Var það vegna áforma um Hvalárvirkjun?
Náttúrufræðistofnun Íslands birti tillögur sínar um friðlýsingu Drangajökulsvíðerna fyrir einu og hálfu ári en þær sitja nú fastar hjá Umhverfisstofnun. Er það Hvalárvirkjun sem veldur að það þjóðþrifamál situr fast í kerfinu?
Með því að fylgja eftir tillögum Náttúrufræðistofnunar, aðgerðaráætlun Landverndar 1998 og niðurstöðum í skýrslu Environice og Hagfræðistofnunar öðlast sú einstaka saga, landslag og náttúra sem er að finna í Árneshreppi á Ströndum þá viðurkenningu og athygli sem þau eiga skilið. Með því að vernda það sem er einstakt á svæðinu má tryggja áframhaldandi byggð á forsendum svæðisins. Með því að eyðileggja það sem er einstakt á svæðinu er framtíð þess stofnað í hættu.
Það má því færa rök fyrir því að áform Hvalárvirkjun hafi verið „Þrándur í Götu“ tilrauna til að styðja byggðina í Árneshreppi. Reynslan sýnir að náttúruvernd og byggðaþróun fara vel saman. Tökum nú höndum saman, verndum Drangajökulsvíðerni og dustum rykið af tillögum um stuðning við búsetu sem komu úr smiðju Landverndar á sínum tíma. Án þessara aðgerða verður þjóðin einni byggðinni fátækari og glatar einum glæstustu víðernum Evrópu.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landverndar.