Norðurlönd standa fremst meðal þjóða þegar mæld er velsæld og hafa, þrátt fyrir að vera ekki fjölmenn, verið leiðandi á sviðum lista, tækni, viðskipta og samfélagsgerðar. Krefjandi kringumstæður skópu þann samhug sem einkennir heimshlutann því án samstöðu var afkoman fallvaltari. Heiðarleiki einkenndi fólkið og hann lykillinn að velgengni ásamt einhug að baki velferðarkerfis fyrir alla þegnana.
Ísland er gott dæmi um hvernig samtakamátturinn náði að byggja upp innviði í strjálbýlu stóru landi. Vegakerfi, lagnakerfi, bryggjur og flugvellir, skólar, sjúkrahús og íþróttamannvirki risu vítt um land og mönnuðust af menntuðu fólki úr ríkisreknu skólakerfi.
Þetta gerðist á þeim tímum þegar stórfyrirtæki greiddu öll skatta. Nú eru vart til peningar til að halda þessum innviðum gangandi á tímum þegar stórfyrirtæki forgangsgreiða sér og sínum arð.
Fíkndrifinn hagnaður
Eftir skipbrot fjármálafyrirtækja á heimsvísu 2008 þar sem arðssjónarmið höfðu tekið öll völd og allt vit, var fjármálafleyinu fleytt aftur með skattpeningum og kallað á eftir áhöfninni að læra nú af þessu og vera ekki öll á sama tíma í spilavítinu um borð.
Ef ég nýkominn úr námi hefði hafið vinnu í alþjóða fjármálafyrirtæki og mér staðið til boða 10 föld laun í bónus fyrir ýmsa fjármálagjörninga (og þagmælsku um þá) hefði ég sjálfsagt tekið því tilboði. Þegar svo hefði farið nokkur misseri hefði ég vísast þróað með mér spilafíkn. Þessa kennd þekkir og þakkar hin kapítalíska fjármálamaskína og hagar sinni uppbyggingu vitandi vits að fátt fær stöðvað kerfi með svo ánetjandi eldsneyti í pípunum.
Stjórnendur alþjóðlegra stórfyrirtækja gera sér grein fyrir að viðfangsefni þeirra eru oftar en ekki á gráum svæðum hins löglega og siðlega. Þess vegna var það svo að þegar forstjóri VW bílaframleiðandans varð að stíga niður eftir svindl fyrirtækisins varðandi útblásturskerfi, var hann leystur út með rúmlega 4 milljarða starfslokagreiðslu og áunnins lífeyris. Þessi annars vitfirrta upphæð var ákveðinn af stjórn fyrirtækisins. Stjórnarmeðlimir voru með því að gefa sjálfum sér vilyrði fyrir viðlíka greiðslu þegar og ef þeir sjálfir þyrftu frá að hverfa.
Þannig starfar björgunarnet stjórnendaveldis kapítalismans hjá fyrirtækjum sem eru þó á almennum hlutabréfamarkaði.
Allar breytingar varðandi skattaívilnanir og takmarkanir regluverks því tengdu sem eru ljúfmælt af þar til gerðum erindrekum á göngum þjóðþinga eru hugmyndir frá þessum frekar fámenna en gíruga hóp sem mynda efsta lagið í stórfyrirtækjum vesturlanda.
Stjórnmálamenn um veröld víða elta svo þessar löggjafir með það á vörunum að annars fari fyrirtækin eitthvað annað.
Hin þolinmóða stigvaxandi bylting kapítalismans
Spilafíkn og gróðrarfíkn eru systur, eineggja tvíburar. Við upplifum nú að fólk merkjanlega blindað af þessum sjúkdómum vegur að samfélagssáttmálum og lýðræðinu. Samfara því veikjast hefðbundnir fjölmiðlar sem veita eiga aðhald og verða fyrir árásum fjölmiðla í eigu auðvaldsins sem ástunda kerfisbundið afvegaleiðingu staðreynda. Yfir öllu fer svo táknmynd afvegaleiðingarinnar einu valdamesta embætti veraldar og afsiðandi hegðunin látin viðgangast því í óreiðunni liggja jú ný tækifæri og tóm fyrir viðskiptagjörninga sem þola ekki sviðsljósið. Mannkostir eru afgangsstærð í þessum kúltur.
Samfélagið í Mexico er nú í stórkostlegum voða og í fréttum af ástandinu er talað um fíkniefnabaróna að berjast á banaspjótum um völd. Í raun eru þessir aðilar að berjast um gróða og hrun samfélagsins varðar þá engu. Í nágrannaríkinu norðan landamæramúrsins hefur stórfyrirtæki markaðssett skipulega mjög ávanabindandi lyf sem hefur samkvæmt samantektum fellt hundruð þúsunda innan Bandaríkjanna og nánast eyðilagt heilu samfélögin þar. Á þessu tvennu er áherslu en ekki stigsmunur.
(Telst þetta með í uppgangi kapítalismans gegn hinum annars „fullreynda sósíalisma“ sem dómsmálaráðherra staldraði við í skrifum sínum á dögunum? Skál fyrir því).
Stórfyrirtæki í sinni auðsöfnun ógna sum hver þjóðfélagsmynstri og stuðla að veikingu lýðræðis sem fékkst með réttindabaráttu fyrri kynslóða.
Uppi eru kinnroðalaust hugmyndir um einkavæðingu vatns, heilbrigðiskerfa, veikingu verkalýðsfélaga og inngrip í verndarsvæði aukinheldur sú yfirlætishugmynd að stórfyrirtæki fái réttarstöðu þjóðríkis! Uppsagnir starfsfólks til aukningar arðsemi eru svo daglegt brauð.
Sú krónutala sem fyrirtæki sparar með uppsögn jafnast sem kostnaður fyrir samfélagið sem tekur við hinum atvinnulausa.
Afleiðingarnar eru veikari innviðir og laskað lýðræði og það er jú markmiðið. Í kjölfarið koma svo flokkar lýðskrumara og kenna flóttafólki eða útlendingum um orsök versnandi efnahags sem í raun er tilkomin vegna skattsniðgöngu og skattaundanskota fyrirtækja og auðmanna í skattaskjólum. Vegna skattasniðgöngu stórfyrirtækja er alls kyns hliðarsköttum og gjöldum komið á minni fyrirtæki og almenna launamenn til að fjármagna innviði og þjónustu. Nýjast nefnt hér á landi eru vegatollar.
Alþjóðakapítalisminn tók ákveðna stefnu fyrir einhverjum 40 árum síðan og þá hófst hin hæga stigvaxandi bylting á samfélagsgerðinni.
Síðan þá hafa stórfyrirtækin framkvæmt sinn mulning gegn lýðræðinu og í þeirri vegferð náð að gera stjórnmálamenn og löggjafa framlengingu á sér og sínum viðfangsefnum. Þessi frekar fámenni hópur sem fer fyrir þessari byltingu hafa einangrast frá samfélaginu, notast ekki við innviðina, en ráðskast með það sem mest þeir mega því þaðan rennur auðurinn.
Ágirnd í auðlindir landa og þjóða hafa í gegnum mannkynssöguna verið kveikjan að mörgum af skelfilegustu illvirkjum mannskepnunnar gagnvart fólki og náttúru. Sá yfirgangur er enn við lýði úr augnsýn djúpt í regnskógum með gróðafíknina drífandi keðjusagir gegnum boli og búalið.
Aðrir stunda svo upp á gamla mátann arðrán í fátækum samfélögum þar sem afkomuöryggi er hverfult og innviðir á við heilbrigðiskerfi ná ekki utan um þegnana.
Þegar kemur á daginn að íslenskir útvegsmenn, milljarðamæringar, séu að innrétta einhverskonar arðránsskúffur í nútímanum hjá bláfátækri þjóð rennur upp fyrir manni hversu afvegaleitt fólk getur orðið í græðgi sinni. Enn og aftur hlaðast upp dæmi úr fjármálaheiminum tilkomin eftir fjármálahrunið (sem allir áttu að hafa lært svo mikið af) sem ekki verða útskýrð með öðru en fíknsækni í gróða.
Fíkn eyrir engu og það er það sem við verðum að fara að gera okkur grein fyrir og bregðast við með viðeigandi hætti að samfélög eiga undir högg að sækja sem og lýðræðið vegna fíkndrifins fjármálakerfis.
Framtíðarauður fyrirtækja eru nú í vasa fólks sem myndar samfélög
Ein mesta tekjulind samtímans er athygli fólks. Athygli fólks á samfélagsmiðlum er ávísun á auglýsingatekjur. Þær skapa hagnað stóru samfélagsmiðlana sem eru á skömmum tíma orðnir með efnuðustu fyrirtækjum veraldarinnar.
Allar framtíðar hagnaðaráætlanir þessara fyrirtækja er fjármagn í þessum rituðum orðum í vasa venjulegs fólks sem myndar samfélög.
Ef fólk í samfélögum tekur sig saman og notar meðvitað þennan auð sin og völd, má stjórna því hvernig fyrirtæki hegða sér. Hvort þau sjái sér hag í að borga til samfélagsins, greiða fólki mannsæmandi laun og séu ábyrg í umhverfismálum. Einnig hvort fyrirtæki sýni af sér samfélagslega ábyrgð og borgi skatt t.d. af þjörkum og vélmennum eins og Bill Gates hefur lagt til varðandi fjórðu iðnbyltinguna.
Í dag er mögulegt með snjalltækjum og samstillingu að senda alþjóðakapítalismanum skír skilaboð hvað fólk, samfélög, ætlast til af fyrirtækjum.
Með þess háttar samstillingu má hætta öllum samskiptum við eitthvað það fyrirtæki sem stendur fyrir verstu hliðar kapítalismans, opna ekki netsíður og á allan hátt sniðganga starfsemina líkt og hermt er að Inuitar hafi komið fram við brotamenn og dagar þeirra þar með verið taldir.
Með beinum táknrænum aðgerðum er sýnt fram á hvar valdið á endanum liggur, hjá samstilltum fjöldanum og án þess að berjast á götum úti eins og vísast verður raunin ef áfram heldur á vegferð græðginnar.
Ef starfandi fyrirtæki sjá sér ekki hag í að breyta hegðun sinni, þráast við, skapast tækifæri fyrir athafnafólk að koma inn á markaðinn og stofna fyrirtæki sem stunda samfélagslega ábyrga stjórnunarhætti. Þau fyrirtæki sem skilja ekki kall tímans munu daga uppi sem risaeðlur.
Táknræn sniðganga alla leið
Áhlaup er það kallað þegar fólk missir trú á banka og tekur út fé. Ef fyrirtæki fer gegn hagsmunum samfélags og fólk vill hætta viðskiptum við það mætti kalla það fráhlaup. Fráhlaup er ekki sársaukalaus aðgerð en með lífvænlegri niðurstöðu. Vegferð óhefts kapítalisma stórfyrirtækja stefnir hinsvegar öllum, þeim sjálfum meðtalið, fram af hengifluginu í bálið.
Það eru erfið úrlausnarefni sem ört fjölgandi mannkynið stendur frammi fyrir og til að eiga einhverja möguleika á að vinna á vandamálum sem nú hrannast upp þarf samstillingu fólks og þjóða.
Fíkndrifinn kapítalismi er ein af þessum áskorunum og er hann nátengdur öðrum viðfangsefnum sem nú ógna tilverunni, loftlagsvá, eiturefnum, veikingu lýðræðis, lýðskrumi, og fólsku.
Fólk á Norðurlöndum skóp lífvænleg fyrirmyndarsamfélög með samtakamætti sínum. Það var vegferð fyrir fjöldann. Aflið sem felst í samtakamætti getur hæglega tekið niður afvegaleidd fyrirtæki þess vegna eitt af öðru til að siða kapítalismann, með hans eigin kennisetningu, þar til jafnræði skapast og lýðræðið nær vopnum sínum. Það er vart tími tiltækur í að bíða eftir að stjórnmálamenn taki hér við sér.
Hvar eigum við að láta okkur bera niður?
Höfundur er myndlistarmaður.