Í nýrri könnun Lífsvirðingar, félags um dánaraðstoð, sem Maskína framkvæmdi í nóvember 2019, kemur í ljós að 77,7% Íslendinga styðja dánaraðstoð en þeir voru 74,5% árið 2015 í könnun sem Siðmennt lét framkvæma.
Ef tekin eru öll svör þá svara 77,7% „Mjög hlynntur“ eða „Fremur hlynntur“ en 6,8% (7,1% árið 2015) svara því til að þau séu „Mjög andvíg“ eða „Fremur andvíg“. Þá eru 15,4% sem svara „Í meðallagi“ en árið 2015 svöruðu 18% „Hvorki né“.
Þeim fjölgar verulega, eða um nærri 7 prósentustig, sem segjast „Mjög hlynnt“ á milli kannana eða úr 30,4% 2015 í 37%. Að sama skapi fækkar þeim sem eru „Fremur hlynnt“ úr 44,5% 2015 í 40,7%. Þeim fækkar einnig sem eru „Mjög andvíg“ úr 3,1% 2015 í 2,4% 2019. Þá fjölgar þeim um 0,4% sem eru „Fremur andvíg“.
Lagðar voru fyrir þrjár spurningar, sú fyrsta um afstöðu til dánaraðstoðar en önnur spurningin var einungis beint að þeim sem voru andvígir henni og var spurt um ástæðu andstöðu fólks. Þriðja spurningin var síðan um hvaða aðferð viðkomandi teldi rétt að nota við dánaraðstoð. Um aðferðafræðina við framkvæmd könnunarinnar má lesa í skýrslu Maskínu sem má finna hér.
Spurning 1 af 3 hljóðar svo:
Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt (dánaraðstoð) ef hann er haldinn sjúkdómi eða ástandi sem hann lifir óbærilegt og metið hefur verið ólæknandi?
Marktækur munur er eftir aldri og heimilisgerð en ekki eftir búsetu eða menntun
Það er marktækur munur á afstöðu fólks eftir aldri en í aldurshópnum 18-29 ára styðja 85% dánaraðstoð en 63,4% í aldurshópnum 60 ára og eldri.
Einnig mælist marktækur munur eftir heimilisgerð þar sem 84,1% þeirra í hópnum „Fullorðin(n)/Fullorðnir með 1-2 börn“ styðja dánaraðstoð. Minnstur er stuðningurinn í hópnum „Tveir eða fleiri fullorðnir, engin börn“ en þar nýtur dánaraðstoð stuðnings 73,2%.
Ekki marktækur munur
Ekki er marktækur munur eftir búsetu en mestur er stuðningurinn við dánaraðstoð í Reykjavík og mælist hann 80,7% en minnstur í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur þar sem hann mælist 74,4%. Þar hefur orðið töluverð breyting frá 2015 en þá studdu 83,2% íbúa í nágrenni við Reykjavík dánaraðstoð.
Ástæða andstöðu við dánaraðstoð
Þeir sem voru andvígir dánaraðstoð voru spurðir um ástæðu andstöðu sinnar og töldu 30,7% (af þeim 8% sem lýstu sig vera á móti) að hætta væri á misnotkun. Þá töldu 23,5% að dánaraðstoð væri andstæð siðferðislegum og faglegum skyldum lækna. 21,7% töldu að líknandi meðferð (núverandi þjónusta við sjúklinga) nægði til að draga úr þjáningu. 20,4% töldu dánaraðstoð vera andstæð eigin siðferðisgildum og að lokum töldu 3,6% dánaraðstoð vera í andstöðu við trúarskoðanir þeirra.
„Hollenska leiðin“ nýtur mest stuðnings
Í þriðju og síðustu spurningu könnunarinnar var spurt um hvaða aðferð Íslendingar ættu að nota þegar dánaraðstoð yrði leyfð en í dag er notast við þrjár meginaðferðir við dánaraðstoð.
Spurningin 3 hljóðaði á þessa leið:
„Hvaða leið af eftirtöldum aðferðum við dánaraðstoð telur þú að Íslendingar ættu að taka upp ef dánaraðstoð yrði lögleyfð?“
„Læknir gefur banvænt lyf í æð“ - er oft nefnd „hollenska leiðin“ en á ensku heitir hún euthanasia og er notuð í Hollandi, Belgíu og Lúxemborg. Í þeim tveimur fyrst töldu löndunum var þessi aðferð leyf með lögum árið 2002 en í Lúxemborg árið 2008.
„Einstaklingur innbyrðir sjálfur banvæna blöndu hjá samtökum sem útvega lyfseðilsskyld lyf í gegnum lækni“ – er notuð í Sviss fyrir innlenda sem og erlenda ríkisborgara sem koma til landsins í þeim eina tilgangi að fá dánaraðstoð til að binda enda á þjáningar sínar. Fyrir ríkisborgara í Sviss er dánaraðstoð þjónusta sem veitt er á sjúkrahúsum sem hluti af líknarmeðferð. Það var árið 1942 sem dánaraðstoð var lögleyfð í Sviss.
„Læknir skrifar upp á banvæna lyfjablöndu sem einstaklingur sækir í apótek og innbyrðir sjálfur“ – er aðferð sem notuð er í níu ríkjum Bandaríkjanna og er oft kennd við Oregon en það ríki heimilaði dánaraðstoð þegar árið 1997.
Þá vildi rúmur fjórðungur ekki svara þessari spurningu.
Spurningu breytt
Spurningin um afstöðu Íslendinga til dánaraðstoðar í könnun Lífsvirðingar er orðuð aðeins öðruvísi en gert var í könnun Siðmenntar árið 2015. Hún hljómar svo í könnuninni 2019:
Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt (dánaraðstoð) ef hann er haldinn sjúkdómi eða ástandi sem hann lifir óbærilegt og metið hefur verið ólæknandi?
En í könnun Siðmenntar frá 2015 hljómaði hún svo:
„Ertu hlynntur eða andvígur því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda endi á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi (líknandi dauði)?
Stjórn Lífsvirðingar telur að um sé að ræða stigsbreytingu í spurningunum en ekki eðlismun en samanburður niðurstöðu mun koma betur í ljós við næstu könnun sem framkvæmd verður. Árið 2015 var ekki búið að stofna Lífsvirðingu og hugtakanotkun því ekki í samræmi við það sem félagið styðst við í dag. Með því að orða spurninguna upp á nýtt er verið að ná fram skoðun Íslendinga á sjúkdómi eða ástandi sem hann (einstaklingurinn) telur óbærilegt og metið hefur verið ólæknandi. Það er í samræmi við áherslur samtaka um dánaraðstoð um allan heim.
Það er mjög ánægjulegt að sjá afgerandi stuðning Íslendinga við dánaraðstoð og má velta því fyrir sér hvenær Alþingi muni taka tillit til afstöðu kjósenda.
Höfundar eru formaður Lífsvirðingar og stjórnarmaður í Lífsvirðingu.