Umfjöllunarefni þessarar greinar er þakuppbygging á léttum þökum á Íslandi, með þunna loftrás á milli burðarbita (sperra) í þaki. Ysta klæðning (bárulöguð klæðning) er fest með nöglum/skrúfum í gegnum vatnsvarnarlagið, sem nær inn í byggingarhlutann, en þetta er einmitt einn stærsti gallinn við aðferðina.
Um ástæðu uppbyggingarinnar er fjallað í kafla 2 hér á eftir. Undirritaður tók þátt í að byggja upp þök með þessum hætti í um 15 ár sem trésmiður (frá 1982). Af hverju gerði ég það allan þennan tíma? Svarið við því er: „Ég þekkti ekki annað, þetta hefur alltaf verið gert svona, þetta er svona á teikningum, sjáðu næsta hús þar er þetta í 1:1 svo einfalt er það“.
Í þá daga hafði ég lært að tveggja þrepa þétting væri góð lausn til þéttinga, þ.e. ef hægt væri að koma henni við. Einnig var borin „virðing“ fyrir vindþéttilaginu (mín upplifun), hún átti að þjóna sínum tilgangi. Þeir voru margir fermetrarnir þar sem undirritaður notaði olíusoðið tjörutex (eins og það var kallað) til að reyna að uppfylla kröfuna um tveggja þrepa þéttingu. Veggir timburhúsa eru í flestum tilfellum með tveggja þrepa þéttingu og þá komum við með það „augljósa“. Af hverju byggjum við ekki upp þök á svipaðan máta og timburveggi?
Viðhorfsbreyting varð hjá undirrituðum eftir að hafa búið í Sviss í nokkur ár, lært tækni- og verkfræði og skrifaði um rakabúskap byggingahluta í lokaverkefni beggja greina. Eftir meistararitgerðina var undirrituðum ljóst að breyta þyrfti uppbyggingu léttra þaka með þunna loftrás á Íslandi, þar sem komin voru efni sem gera okkur kleift að breyta uppbyggingu þaka og „einfaldara“ er að byggja þökin með tveggja þrepa þéttingu (lektuð þök). Ég taldi þá meðal annars samfélagslega skyldu mína að benda á þetta. Það hef ég gert m.a. með fyrirlestrum, fyrir tilstuðlan Sylgju Daggar Sigurjónsdóttur, sem haldnir voru hjá Endurmenntun Háskóla Íslands (EHÍ) og voru aðrir fyrirlesarar þeir Björn Marteinsson og Guðbjartur Magnússon. Fyrirlestrarnir gengu undir nafninu „Raki og mygla í byggingum: Fyrirbyggjandi aðgerðir, uppbygging og lagfæringar. Hvernig má fyrirbyggja myglumyndun og viðgerðir á byggingarhlutum?”.
Af hverju er verið fyrst að fjalla um þetta núna? Svarið við því gæti verið að áður fyrr, þ.e. áður en myglan og tengdar skemmdir voru „fundnar“ upp (húsasótt var samnefnari yfir þessi og ef til vill fleiri atriði), voru þök endurbætt nær eingöngu með tilliti til verndunar eignarinnar og oft sáust skemmdir mjög seint [8]. Núna er verið að laga þök einnig með tilliti til heilsuþátta og því má segja að strangari kröfur séu gerðar til viðhalds og byggingu þaka en áður en myglan var „fundin“ upp.
Þessi grein er eitt framlagið til viðbótar til að upplýsa um það sem undirritaður hefur upplýsingar um og hefur safnað saman í gegnum tíðina.
1. Mörk myglumyndunar
Algengt er að tala um myglu sem orsök veikinda þegar veikindin eru rakin til rakaskemmda þótt orsakavaldarnir séu ótal fleiri. Auðveldlega má benda á hvað þarf að varast til að koma í veg fyrir að mygla myndist, t.d. í timbri, og sennilega er hún einn stærsti þátturinn í heilsuvandamálum sem tengjast þökum með þunnum loftrásum. Til að auðvelda rökstuðning á þeim atriðum sem verða talin upp í köflunum hér á eftir þá er bent á að raki, hiti, tími og næring þarf að vera til staðar til að mygla myndist. Hvað af þessu getum við ekki ráðið við? Næringin er oftast til staðar, tímanum sem rakaálagið varir getum við að í sumum tilfellum minnkað með því að bregðast við ef um leka er að ræða, útihita breytum við ekki. Þá er eftir rakinn, við breytum ekki útiraka en „getum“ komið í veg fyrir að bæta við þann raka og að gera það er einmitt lykilatriðið. Þegar t.d. klæðningarefni er valið á þök getum við sagt til um hversu há rakaprósenta má vera í timbrinu þegar það er klætt á þakið, til að minnka líkurnar á að við byggjum inn byggingarraka*1. Til eru ýmis línurit sem segja til um skilyrði fyrir m.a. myglumyndunar sem tengja má við línurit sem sýnir jafnvægislínu rakaprósentu efnis sem fall af umhverfishlutfallsraka lofts um t.d. timbur (fura/greni). Til að meta hversu hár efnisrakinn má vera í timbri er hægt nota áðurnefnd línurit. Ef timbur hefur verið í lengri tíma við 80% hlutfallsraka og farið með þá tölu í jafnvægislínu þá má lesa 17% timburraka í timbri. Ef timbur er með meira en 17% raka þá er timbrið búið að vera í langan tíma við hærri hlutfallsraka en 80% og þá eru einhverjar líkur á að mygla sé farin að myndast í því, þetta er þó háð hitastigi. Þess má geta Svíar miða við 75% hlutfallsraka sem mörk á myglumyndun fyrir timbur [10].
*1 Byggingarraki – er raki sem er í efni umfram jafnvægisrakaástand.
2. Kreppuþakuppbygging
Áður en þakuppbygging, sem hér hefur verið kölluð kreppuuppbygging* var innleidd voru þök m.a. með skarklæðningu (borðkantur settur ofan á neðra borð hornrétt á þakhallann) eða rennisúð (en på to samstefna þakhalla). Það þótti mikið framfaraskref að fá bárujárn í stað timburklæðningar sem ystu klæðningu á þök. Ekki aðeins að það reyndist auðveldara að gera ysta lagið vatnsþétt heldur var litið á bárujárnið sem brunavörn líka[1]. Kreppuþakuppbyggingin reyndist vel í upphafi þegar þakhalli var mikill og einangrun þaka var minni en nú. Aðferðin reyndist ágætlega á bröttum þökum með tilliti til leka.
Þakuppbygging, sem kölluð er í þessari grein kreppuþakuppbygging [1], er þakuppbygging má í stórum dráttum lýsa á eftirfarandi hátt, talið utan frá og inn:
- Aðal regn/vatnsvörn þaksins ásamt að vera veðrunar-, högg- og vatnsvörn, oft bárulagað járn eða ál (hér eftir kallað bárujárn) sem fest er í undirlagið með nöglum eða skrúfum sem ná inn í útloftunarrás þaksins.
- „Vatnsvörn“ oftast þunnur asfaltpappi, í seinni tíð hafa komið asfaltríkari dúkar, þetta vatnsvarnarlag er gatað með um það bil 12 festingum (nöglum eða skrúfum) á hvern fermetra í þessari uppbyggingu.
- Klæðning (oft 25 mm þykk borðaklæðning, hér eftir kölluð borðaklæðning) sem hefur það hlutverk að vera festing fyrir bárustálið og til „afstífingar** á sperrum“ (og tenging gaflveggja) ásamt undirlagi fyrir vatnsvörn svo hún svigni ekki niður á milli sperra og loki loftrás. Ásamt því að auðvelda vinnu / umferð um þakið.
- Loftræsirás, loftunarbilið er oft haft 25 mm á hæð (lágmark skv. byggingarreglugerð), til að loftræsa byggingarraka úr klæðningu og smá rakasmit í byggingarhlutanum.
- Vindvörn, vindþéttilagið sem á árum áður var oft 12 mm tjörutexplötur en pappír hefur nánast eingöngu verið notaður í seinni tíð, aðallega vegna brunamála og vinnusparnaðar.
- Einangrun, til að minnka varmaleiðni út úr byggingarhlutanum, einangrunarþykkt jókst um 33% við breytingu byggingarreglugerðar 1998 og varð 200 mm þykk.
- Rakavarnarlag, algengast er að vera með 0,2 mm polyethylen plastdúk.
- Lagnabil, bil breytilegt oft 35 – 45 mm, ef eingöngu er gert ráð fyrir raflögnum í bilinu.
- Inniklæðning, gips-, spónaplötur, „masonit“, krossviður og fleiri plötugerðir.
Þessi uppbygging er vel þekkt á Íslandi um áratuga skeið.
*Kreppuþakuppbygging var þróuð á krepputíma þegar skortur var á byggingarefnum, [1].
**Hér er ekki átt við heildarstýfingu fyrir þak/bygginguna.
3. Gallar við kreppuþakuppbyggingu
Hér eru taldir upp nokkrir gallar við kreppuþakuppbyggingu sem lýst er hér að framan. Hafa ber í huga þegar fjallað er um galla hennar að festingar ná frá ysta yfirborði og inn í byggingarhluta (loftrás) og uppbyggingin getur ekki talist til svokallaðra tveggja þrepa þéttinga. Einnig eru allir þakhallar settir undir sama hatt sem er töluverð einföldun. Geislunarþættir hafa minni áhrif á brött þök en þau sem eru hallaminni, sérstaklega er geislun frá þaki minni (kæling), þakið „sér“ minna af himinhvolfinu.
3.1 Geislun til himinhvolfsins
Geislunaráhrif skynjum við t.d. sem hita frá sólu eða eldi. Kæling á yfirborði þaks er vegna geislunar frá þaki til himinshvolfsins því þakið er heitara en himinhvolfið. Hversu mikið kælingin (vegna geislunar) er á yfirborði þaksins er háð ýmsum umhverfisþáttum og mjög háð skýjahulu. Þegar yfirborð þaks (kreppuþakuppbygging) kólnar vegna geislunar er bein leiðni eftir nöglum milli loftrásar og naglahausa og einnig er leiðni þar sem bárujárn snertir borðaklæðningu. Þetta hefur þau áhrif að nagli sem nær inn í loftrás getur verið rúmlega 6°C kaldari en umhverfishitinn í loftrásinni.
Útiloftið, sem fer inn í loftrásina, kólnar í loftrásinni við kalt yfirborð þakflatar, naglar kólna og við það hækkar hlutfallsrakinn í kringum naglana með þeim afleiðingum að raki fellur út á naglana og borðaklæðning verður rök og blaut, þetta veldur m.a. aukinni hættu á myglumyndun á klæðningunni.
*Tekið úr heimild [2] og [6], tekin eru saman gögn frá Veðurstofu Íslands um meðalhlutfallsraka einstaka hitatalna og meðalhita yfir ákveðin tímabil.
3.2 Sólargeislun
Auðvelt er að sjá fyrir sér hitaþenslu, m.a. sem lengdaraukningu bárujárns þegar sól skín á það. Eins er auðvelt að gera sér grein fyrir að ef snögglega dregur fyrir sólu þá dregst járnið saman þegar það kólnar. Það sem gerist við þetta er að járnið nuddar asfaltdúkinn í sundur, sérstaklega á þeim stöðum þar sem borðaklæðning er misþykk.
3.3 Leki vegna ísmyndunar og bráðnunar snævar
Snjór á þökum verkar sem einangrun og getur valdið því að hiti við bárujárn sé töluvert hærri en umhverfishiti. Dæmi um þetta, er ef við höfum þak sem er með 15° halla, með 200 mm steinullareinangrun, nýfallinn snjór sé 100 mm þykkur, útihiti sé -5°C og innihiti sé 22°C, þá getur hitastigið við bárujárnið verið +2°C til +4°C og hluti af snjóhulunni getur bráðnað (sá hluti sem liggur næst bárujárni) og lekið niður í þakrennu þar sem vatnið frýs og verður að klakafyrirstöðu, sem hindrar afrennsli af þakinu. Svipað á sér stað neðan við þakglugga, skorsteina og víðar með þeim afleiðingum að uppistöðulón myndast og lekið getur inn í byggingarhlutann. Þetta hefur aukist í seinni tíð á þeim húsum sem eru einangruð að utan ef ekki er tekið tillit til kuldabrúar þar sem sperrur eru innsteyptar.
3.4 Vaxandi einangrunarþykkt í þökum
Við breytingu á reglugerðinni upp úr 1998 jókst einangrunarþykkt þaka um rúm 33% (fór úr 6“ í 8“). Þetta veldur því að upphitun innan frá í loftrásinni verður minni en áður og því verður hæfileiki loftsins í loftrásinni minni til að taka við raka og verjast kælingaráhrifum geislunar til himins. Tilhneiging verður væntanlega til að auka einangrun í þökum í framtíðinni frekar en að minnka hana.
3.5 Lokun loftrása
Mörg dæmi eru um að þunnum loftrásum hafi verið lokað (ef ekki eru gerðar sérstakar ráðstafanir) með því að troða of breiðri einangrun eða of þykk einangrun er sett í sperrubil. Einnig eru þekkt dæmi um að vindvörn (pappír áfastur ofan á einangrun) rúllist upp við vætu og loki loftrás [7].
3.6 Loftskipti í einangrun
Vel frágengið vindþéttilag yfir einangrun er að mínu viti vanmetinn þáttur í uppbyggingu þaka. Vel frágengið vindþéttilag minnkar lofthreyfingu í einangrun og dregur um leið úr loftþrýstingsbreytingu á rakavarnarlagið. Ennfremur getur gott vindþéttilag komið í veg fyrir að einangrun loki loftrás vegna yfirhæðar einangrunar eða að henni sé troðið í sperrubilin (þ.e. ef vindþéttilagið er stíft) og tekið upp tímabundinn leka eða smit sem annars færi inn í einangrun. Pappír, áfastur á einangrun eins og tíðkast að einangra með í dag, minnkar lofskipti í einangrun en vandséð er hvernig hægt er að þétta pappírinn við sperrur og á skeytum þegar einangrað er neðan frá. Pappírinn hindrar ekki að einangrun í yfirhæð loki loftrásinni. Pappírinn tekur upp takmarkaða bleytu og á það til að rúllast upp og loka loftrás [7]. Vegna erfiðleika við að þétta pappírinn við sperrur og skeyti (því hann er ofan við einangrunina þegar einangrað er neðan frá) er ekki hægt að segja að hann dragi nema að litlu leyti úr loftþrýstingi, sem getur orðið á rakavarnarlagið, þegar undir- eða yfirþrýstingur myndast í loftrásinni.
3.7 Flókin þök getur verið erfitt að lofta
Erfitt getur verið að sjá fyrir sér loftun í flóknum þökum og flókið getur verið að sjá fyrir loftun í kringum stóra glugga á þakfleti, skorsteina, skotrennur, mænisglugga og valmaþök. Nánast útilokað getur verið að lofta kvisti (veggi og hluta af þökum kvista). Á valmaþökum sem koma á kvistir, gluggar eða skorsteinar getur verið nær útilokað að vera viss um að þakið sé með nægjanlega loftun.
3.8 Loftun þvert á sperrur er gagnslítil
Komið getur fyrir að ómögulegt sé að lofta samstefna sperrur, dæmi um slíkt er ef þak endar við veggi sem ná upp fyrir sperrur nema t.d. með túðum eða reyna loftun þvert á sperrur. Ef tekið er dæmi af 10 m þaki sem loftað þvert á sperrur (25 mm bil á milli borða (annað hvort borð)) kemur í ljós að þrýstifallið er það mikið að hraðinn á loftinu í rásinni er 0,07 m/s. Ef reiknað er sambærilegt þak sem loftað er samstefna sperrum þá er hraðinn rúmur 0,3 m/s [2] , sem er rúmlega fjórum sinnum meiri hraði. Nánar um forsendur og reikniaðferð má finna í kafla 2.2.3.1 í [2].
3.9 Loftrásin virkar nær eingöngu í vindi
Þunnar loftásir með asfaltlag sem vatnsvörn (kreppuþakuppbyggingu) geta nánast eingöngu virkað þegar vinds gætir og ekki er of kalt. Þetta er vegna þess að asfaltdúkur er gufuþéttur.
3.10 Trjágróður og þétting byggðar
Vindhraði hefur minnkað í byggð m.a. vegna þéttingar byggðar og stækkunar, aukins trjágróðurs og því má draga þá ályktun að loftskipti séu minni á þeim stöðum sem trjágróður hefur aukist hvað mest eins og í Reykjavík.
3.11 Krossloftun og mænisloftun þunnra loftrása
Krossloftun:
Vindur er aðaldrifkrafturinn til loftunar á þunnum loftrásum. Ef reyna á að vera með svonefnda krossloftun þarf að hafa í huga hvernig vindur virkar á bygginguna (loftrásina). Þegar vindur verkar á eina hlið byggingar (ástreymi) þá er sog á öðrum hliðum og stærstur er sogkrafturinn á aðliggjandi hliðum, næst ástreymishlið, sem gerir það að verkum að loftið fer inn í loftrásina og fer til hliðar og „sveltir“ þannig fjærsta enda loftrásarinnar.
Mænisloftun:
Til að nýta hitastigul sem drifkraft til að lofta þök er einn möguleikinn að vera með mænisloftun, en þá þarf að hafa í huga hvernig vindur verkar á byggingar (þök). Þegar vindur verkar á eina hlið byggingar (ástreymi) þá er sog við mæni og hlé megin við bygginguna. Sogið við mæni er stærri kraftur en sogið hlémegin því er hætta á að helmingurinn á þakinu sé „sveltur“ og loftist lítið sem ekkert. Þess má geta að Jón Viðar Guðjónsson setti fram jöfnu um stærðarhlutföll á milli aðalopnunar og mænisopa [5].
4. Aðrar þakuppbyggingar
Oft er auðveldara að gagnrýna (rýna til gagns) en að koma með lausnir. Hér skal reynt að koma með dæmi, ekki bara fræðilega lausnir heldur praktískar og þær bornar saman við kreppuþakuppbyggingu. Almennt er það talin góð lausn í þéttingum að vera með tveggja þrepa þéttingar, þ.e. vera með veðrunarvörn yst, þá loftbil til að minnka þrýsting og vatnsvörn fyrir innan. Oft tekur veðrunarvörnin (álagsvörn) við mesta slagregnsálaginu, vatnið sem fer inn fyrir veðrunarvörnina „dettur“ niður vegna þrýstifalls og vatnsvörnin hindrar að vatnið fari inn í byggingarhlutann, skýrasta dæmi um þetta er uppbygging á timburútveggjum. Þar er ysta lagið veðrunarvörn fyrir sól, slagregni, hnjaski og framvegis. Er þá ekki lausnin komin? Byggja þakið upp eins og veggina.
4.1 Lektuð þök með asfaltdúk
Kostir við að lekta upp veðrunarvörnina (bárujárn) eru að þá fæst, tveggja þrepa þétting og minni áhrif vegna geislunar. Bárujárnið nuddar asfaltdúkinn ekki í sundur eins og fjallað var um hér að framan. Útiloftið, sem fer inn í loftrásina, kólnar síður í loftrásinni og naglar ná ekki lengur inn í loftrásina eins og fjallað var um. Með því að nota asfaltdúk fæst góð vatnvörn en asfaltdúkar eru venjulega ekki gufuopnir og því eru aðrir gallar þeir sömu við lausnina og eru við loftun kreppuþakuppbyggingarinnar.
4.2 Frá kreppu og myglu. Lektuð þök með gufuopnu vatnsvarnarlagi
Kostir við að lekta upp veðrunarvörnina (bárujárn) eru að þá fæst tveggja þrepa þétting og áhrif vegna geislunar verða minni, eins og fjallað var hér að framan. Með því að vera með gufuopið vatnsvarnarlag er hægt að færa loftunina upp fyrir vatnsvarnarlagið og leysa loftun um mænisglugga, valmaþök, þakglugga, kvista og svo framvegis nánast af sjálfu sér. Hugmyndin er þá að gera vatnsvarnarlagið vind- og vatnsþétt áður en veðrunarvörnin (bárujárn) er sett á þakið. Margar tegundir af gufuopnum vatnsvarnalögum eru að koma inn á markað og er þá gjarnan miðað við þyngd á fermetra þegar leitað er eftir gæðum og einnig er vert að athuga hvort svokölluð „tjaldáhrif*“ eru til staðar á dúknum. Sá dúkur sem kynntur er hér á teikningum hefur ekki þessi „tjaldáhrif“[9]. Tvær útfærslur eru á lektuðum þökum fyrir halla > 10° með gufuopnu vatnsvarnarlagi og eru sýndar hér á myndum 4.2-1a og 4.2-2a. Aðrar tvær útfærslur eru á lektuðum þökum fyrir halla > 5° með gufuopnu vatnsvarnarlagi, þær eru sýndar hér á myndum 4.2-1b og 4.2-2b. Munurinn á lausnunum er að önnur lausnin er með klæðningu ofan á sperru sem er til að auðvelda umgengni og vinnu á þakinu, sjá myndi 4.2-3 til 4.2-5, og til að halda undir vatnsvarnarlagið og stífingar á sperrum. Í hinni lausninni er borðaklæðningunni sleppt og einangrunin er látin halda undir vatnsvarnarlagið, huga þarf að stífingu á sperrum. Vinna verður eitthvað vandasamari á þakinu þar sem ekki er lengur klæðning til að ganga á við vinnslu á þakinu, sjá myndir 4.2-6 til 4.2-8. Þess skal þó getið að þessi lausn hefur verið gerð á Íslandi og tíðkast víða erlendis.
*Tjaldáhrif, efnislag er með bleytu á annarri hlið og er þurrt á hinni hliðinni, þar til að þurra hlið er snert þá fer vætan í gegn, vel þekkt á tjöldum og því kallað hér tjaldáhrif.
Komið er á markað rakavarnarlag sem hefur stefnuvirka rakamótstöðu (Siga Majrex) þ.e. rakamótstaðan er lægri á þeirri hlið sem snýr að byggingarhlutanum heldur en þeirri sem snýr inn að vistarverunni, sem gerir það að verkum að byggingarraki getur sveimað úr byggingarhlutanum og inn. Þetta eykur öryggi byggingarhlutans, m.a. þegar byggingarraki eða rakasmit eru í byggingarhlutanum. Þetta rakavarnarlag er einnig hægt að nota í þeim tilfellum sem loftun „þaka“ verður ekki komið við, eins og t.d. inndregnar svalir, og er því möguleg lausn þegar halli er <5°.
Til eru efni sem eru framleidd með viðeigandi eiginleikum, þ.e. eru vatnsþétt en gufuopin. Upplýsingar um þessi efni má finna m.a. hér.
Gallar við að vera með lektað þak með gufuopnu vatnsvarnarlagi er að lausnin er ný á Íslandi og því þurfa hönnuðir og smiðir að aðlaga sig að frágangi í skotrennum, við rennur, þakkanta og svo framvegis.
Kostir þeirrar uppbyggingar sem fjallað er um og sýnd í kafla 4.2, þar sem „loftrásin“ er komin út fyrir vatnsvarnarlag byggingarhlutans, eru:
- Það dregur verulega úr áhrifum geislunar, bæði vegna geislunar til himins og frá sólu.
- Leki vegna bráðnunar snævar er úr sögunni því að aðalregnvörnin er „ógötuð“.
- Lokun „loftrásar“, m.a. vegna of þykkrar einangrunar, er útilokuð.
- Engin loftskipti verða í einangruninni, byggingarhlutinn er orðinn „samlokueining“.
- Loftun flókinna þaka og þakhluta leysist nánast af sjálfu sér.
- Raki getur sveimað úr byggingarhlutanum þótt ekki sé vindur og safnast því ekki fyrir, þ.e. „loftrásin“ virkar þótt ekki sé vindur.
Það má með því með sanni segja að sú breyting að fara úr kreppuþökum yfir í lektuð þök eins og sýnt er hér að framan sé og verði framfaraskref, þó að deililausnir og aðferðin séu enn sem komið er lítið þekktar á Íslandi.
Heimildir:
[1] Jón Sigurjónsson, yfirverkfræðingur hjá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins, tveggja manna tal.
[2] Agnar Snædahl, Rakabúskapur byggingarhluta II, loftræst þök og mælingar. Lokaverkefni í byggingarverkfræði 2009.
[3] Hannu Viitanen, Factors affecting the development of mould and brown rot decay in wooden material and wooden structures. Uppsala 1996.
[4] Agnar Snædahl, Raki og mygla í byggingum: Fyrirbyggjandi aðgerðir, uppbygging og lagfæringar. Hvernig má fyrirbyggja myglumyndun og viðgerðir á byggingarhlutum. 6 fyrirlestrar hjá EHÍ, 2013 -2014.
[5] Jón Viðar Guðjónsson. Loftun þaka með þunnu loftbili. Lokaverkefni í byggingartæknifræði. Tækniskóli Íslands (Háskólinn í Reykjavík). Reykjavík mars 1990.
[6] Agnar Snædahl, Rakabúskapur byggingarhluta. Lokaverkefni í byggingartæknifræði 2003.
[7] Samtal við Björn Marteinsson, á fundum Betri bygginga, tímasetning gleymd.
[8] Samtal við Ríkharð Kristjánsson, á fundum Betri bygginga, 4. janúar 2019.
[9] Óformleg tilraun gerð af Birni Marteinssyni. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, 2010.
[10] Swedish Forest Industries Federation Swedish Wood. Design of timber structures Structural aspects of timber construction.
Teikningar: Agnar Snædahl
Höfundur er fagstjóri mannvirkjasviðs Lotu.