Þegar þetta er skrifað geisar aftakaveður á landinu öllu, rauð viðvörun á Norðvesturlandi, appelsínugul víða annars staðar. Í veðurspá dagsins, 10. desember 2019 stendur:
„Spáð er norðan ofsaveðri eða fárviðri (25 til 33 m/s) með mikilli snjókomu og skafrenningi. Búast má við víðtækum samgöngutruflunum og tjóni og/eða slysum ef aðgát er ekki höfð. Ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda, allt að 10 m. ölduhæð og líkur á að smábátar geta laskast eða losnað frá bryggju.“
Hækkandi sjávarstaða og allt að 10 m ölduhæð er veðurspá sem fornleifafræðingar sem rannsaka minjar við sjávarsíðuna hræðast hvað mest. Ekki má aðeins búast við eignatjóni á bátum við bryggjur sökum slíkrar sjávarstöðu heldur er nær víst að hún muni hafa í för með sér óafturkræfa eyðileggingu á menningararfi okkar. Verður eitthvað eftir af rannsóknarsvæðinu næsta sumar? Hversu mikil þekking hverfur á haf út að þessu sinni? Minjastaðir eins og býli, verstöðvar, lendingar og naust sem helst er að finna við sjávarsíðuna eru að hverfa. Þetta eru minjar sem iðulega tengjast sjósókn sem var og er ein af undirstöðuatvinnugreinum þessa lands.
Þrátt fyrir það vitum við enn mjög lítið um sjósókn til forna þar sem fáar heildarrannsóknir hafa verið gerðar á verstöðvum og öðrum strandminjum. Með nýlegum rannsóknum á Gufuskálum á Snæfellsnesi, Siglunesi við Siglufjörð, Sandvík og Strákatanga á Ströndum hófst nýr kafli í rannsóknum á minjum um sjósókn. Þær sýna berlega hversu lítið við í raun vitum um sjósókn og sjávarbyggðir frá fyrri tíð.
Hækkandi sjávarstaða og aukin stormvirkni er raunveruleiki sem við þurfum að horfast í augu við á Íslandi. Við vitum hinsvegar ekki hvar hættan er mest þar sem okkur skortir enn grunnyfirlit yfir fornminjar á Íslandi. Þar að auki eru þeir staðir við sjávarsíðuna sem fornleifafræðingar hafa tekið í fóstur og aflað upplýsinga um, að hverfa á haf út á ógnarhraða. Við fornleifafræðingar getum ekki gert þetta ein: Stjórnvöldum ber lagaleg og samfélagsleg skylda til þess að rannsaka og vernda íslenskan menningararf. Þau verða að setja sjávarminjar í forgang.
Fornleifarannsóknir eru þekktar fyrir að taka langan tíma.Þær eru nákvæmnisrannsóknir sem margir sérfræðingar koma að. Rannsóknarstaðir við sjávarsíðuna eru í hættu vegna landbrots og þola ekki að bíða mörg ár á meðan sótt er um rannsóknarfjármagn, að bíða þar til verkefnið hlýtur næst náð fyrir augum rannsóknasjóðanna. Þessir staðir geta ekki beðið, jafnvel milli ára, því uppgraftarsvæði sem skilið er við að sumarlokum er sjaldnast það sama að ári.
Rannsóknir á strandminjum víða um heim – frá Skotlandi til Alaska – hafa sýnt að fornleifar eru allsstaðar í stórhættu vegna sjávarrofs og hlýnandi loftslags. Á Íslandi benda spálíkön sem gerð hafa verið vegna loftslagsbreytinga sterklega til þess að sjávarrof muni aukast á næstu árum – og mun það auka hættuna á því að strandminjar skemmist eða hreinlega hverfi.
Með aðgerðarleysi í loftslagsmálum í dag bregðumst við enn og aftur komandi kynslóðum. Ef fram heldur sem horfir mun okkur ekki takast að skila menningararfi til þeirra óspilltum eins og okkur ber skylda til. Nauðsynlegt er að stjórnvöld átti sig á sögu- og menningarlegu gildi strandminja og búi svo um hnútana að þær minjar sem þegar eru í hættu skemmist ekki frekar án fornleifarannsókna.
Síðastliðið sumar var sett upp minnismerki um Ok, fyrsta jökulinn sem hefur horfið vegna hlýnunar. Við fornleifafræðingar efumst um að reistir verði álíka minnisvarðar um þær minjar sem hverfa á degi hverjum vegna loftslagsbreytinga. Því miklu má enn bjarga en til þess þarf markvissar aðgerðir ábyrgra stjórnvalda.
Höfundar eru fornleifafræðingar.