Hamfaraveður verða sífellt algengari um allan heim og má alveg búast við að veður eins og það sem landsmenn upplifðu fyrir fáum dögum verði tíðari. Landsnet þarf í ljósi þessa að endurskoða alfarið stefnu sína og endurhanna uppbyggingu flutningskerfisins. Jafnvel nýjustu framkvæmdir Landsnets slógu út í veðrinu. Þannig var PCC á Bakka rafmagnslaust um stund í tvígang hið minnsta.
Þjóðaröryggisráð var kallað saman. Átakshópur stjórnvalda var stofnaður. Ef koma á í veg fyrir að álíka ástand skapist þarf að leggja raflínur í jörð. Tæknin er til staðar og væri hægt að leggja stóran hluta flutningskerfisins í jörð með því að nota ýmist riðstraums- eða jafnstraumsstrengi. Nú gæti Landsnet farið á undan og hannað Blöndulínu 3 frá Blöndu til Akureyrar sem jafnstraumsstreng alla leið. Þau gætu byrjað strax á morgun og er ég viss um að enginn einstaklingur né sveitarfélög settu sig uppá móti því. Svo mikil stefnubreyting verður þó vart undir núverandi forystu Landsnets. Það gæti verið að þessi lausn sé dýrari en loftlínur en þegar þjóðaröryggi er annars vegar þá má spyrja hvort þeim fjármunum væri ekki vel varið. Stjórnmálamenn mega þar líka velta fyrir sér ábyrgð sinni á óeðlilegum hömlum á jarðstrengjalögnum í stefnu stjórnvalda.
Haft var eftir forstjóra Landsnets í Morgunblaðinu í síðustu viku að það væri á tíu ára áætlun Landsnets að endurnýja Dalvíkurlínu. Það er ekki rétt. Hún hefur aldrei komist inn í kerfisáætlun Landsnets, enda er engin stóriðja á Dalvík. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem forstjórinn fer rangt með.
Hvað skyldi aðgerðaleysi Landsnets hafa kostað þjóðina utan þeirra miklu hörmunga sem fjöldi manna og dýra hefur mátt þola vegna andvaraleysis fyrirtækisins? Ætti forstjórinn kannski að axla ábyrgð og fara frá? Sennilega munum við seint sjá það.
Höfundur er fyrrverandi héraðsdýralæknir á Dalvík og starfar fyrir alþjóðastofnun í sunnanverðri Afríku.