Aðventan er tími til að njóta en margir finna líka fyrir streitu á þessum tíma. Hér eru nokkrar núvitaðar aðferðir sem auka vellíðan og draga úr streitu sem þú getur prófað á aðventunni.
Núvitund snýst um að vera opin og vakandi fyrir því sem er að gerast núna, að vera með því sem er að gerast hvert augnablik. Rannsóknir sýna að ástundun núvitundar eykur hamingju og samkennd og dregur úr streitu og kvíða.
- Æfðu virka hlustun. Þegar margir koma saman og skemmta sér getur verið erfitt að einbeita sér að því sem hver og einn er að segja en reyndu að sýna eftirtekt með því að nota virka hlustun. Sýndu fordæmi í samskiptum með því að slökkva á símanum og virkilega hlusta á þá sem þú ert að tala við. Taktu eftir því sem þeir segja, hvaða tón þeir nota og hvernig líkamsbeiting þeirra er. Það er alveg ótrúlegt hvað virk hlustun er gefandi í öllum samskiptum og þú verður eflaust hissa á því sem þú átt eftir að uppgötva.
- Vertu opinn fyrir tilfinningum annarra. Með því að vera opinn og móttækilegur fyrir fólkinu í kringum þig tengist þú þeim líka betur. Taktu eftir hvernig fólki líður yfir hátíðirnar og vertu tilbúinn til að mæta þeim þar sem þeir eru staddir.
Auglýsing
- Vertu opinn fyrir allskonar tilfinningum hjá sjálfum þér. Hátíðirnar geta vakið upp allskonar tilfinningar- bæði góðar og erfiðar. Hjá mörgum eru hátíðirnar áminning um missi, sorg og einmanaleika. Þú gætir upplifað þessar erfiðu tilfinningar, sérstaklega þegar ástvinir eru fjarverandi, svo gefðu þeim rými og pláss og viðurkenndu þær, en ekki bæla þær niður.
- Slepptu taki á gömlum hefðum sem gætu verið að halda aftur af þér. Hátíðirnar snúast um hefðir og minningar, en stundum geta gamlar hefðir viðhaldið einhverri neikvæðni. Það er auðvelt að falla í kunnugleg mynstur. Kannski ertu pirraður út í tengdaforeldra þína fyrir að segja sömu sögurnar aftur og aftur eða kvíðinn í kringum ákveðinn vinnufélaga sem er í samkeppni við þig. Taktu eftir þeim tilfinningum sem eru að gerast núna og sýndu því forvitni sem er að gerast, í stað þess að vera fastur í hugsunum og tilfinningum úr fortíðinni. Þetta opnar á möguleikann um nýja reynslu í samskiptum þínum og getur dregið úr tilfinningum eins og pirringi og leiðindum hjá þér sjálfum.
- Spurðu þig hvernig þú sýnir umhyggju. Það er til siðs að gefa gjafir á jólunum og það er bara gaman en það eru margar leiðir til að sýna væntumþykju og umhyggju. Kannaðu hvernig þú sýnir umhyggju með því að spurja sjálfan þig spurningar áður en þú kaupir eitthvað. Hvað ertu að reyna að koma á framfæri með gjöfinni? Eru aðrar leiðir til að sýna þá tilfinningu eða umhyggju, eins og að njóta gæðastunda saman, tala beint við viðkomandi eða gera eitthvað gott og styðjandi fyrir hann?
- Slepptu því að dæma — bæði fyrir þig og aðra. Ágreiningur við fjölskyldu og vini yfir hátíðirnar leiðir oft til sjálfsgagnrýni og dóma yfir öðrum. Hvort sem þú ert pirraður út í makann fyrir að hjálpa þér ekki við jólaundirbúninginn eða vonsvikinn út í sjálfan þig þegar þú horfir til baka á árið sem er að líða, þá skaltu taka eftir því hvernig þú dæmir þig og aðra í kringum þig. Taktu skref til baka og reyndu að losa þig við tilfinninguna að þú sért ekki nógu góður eða ófullnægjandi á einhvern hátt. Taktu eftir því sem er að gerast og leyfðu hugsunum og tilfinningum að vera án þess að flækja þær og gefðu þér smá fjarlægð frá þeim.
- Hafðu jafnvægi á milli „ég ætti“ og „hvað þarf ég á að halda“. Skyldur yfir hátíðirnar geta verið margar og mikilvægar en vertu viss um að hafa jafnvægi á þeim og þínum eigin þörfum. Að reyna að þóknast öllum í kringum þig leiðir bara til gremju og leiðinda fyrir þig. Frekar en að einbeita þér eingöngu að því að skipuleggja hinn fullkomna kvöldmat eða finna hinu fullkomnu gjöf, taktu eftir hvernig þessar væntingar hafa áhrif á þig. Vertu viss um að taka þér þann tíma og rými sem þú þarft til að næra sjálfan þig yfir hátíðirnar.
- Æfðu sjálfsumhyggju. Á meðan á hátíðunum stendur skaltu ekki gleyma að hugsa vel um þig sjálfan. Passaðu að sofa nóg og hreyfa þig reglulega. Taktu frá tíma til að slaka á og gera skemmtilega hluti svo þú getir endurhlaðið batteríin. Að hugsa vel um sjálfan þig gerir þér kleift að vera meira til staðar fyrir þitt fólk og jólaandinn með allri sinni gleði verður ríkjandi hjá þér.
Höfundur er MSc í hagnýtri jákvæðri sálfræði og MSc í náms- og starfsráðgjöf.