Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verzlunar og þjónustu (SVÞ), skrifar gegn betri vitund þegar hann sakar Félag atvinnurekenda (FA), ásamt öðrum, um að hafa lagzt gegn breytingum í frjálsræðisátt og hundraða milljóna króna kjarabót fyrir neytendur, með því að hvetja til þess að frumvarp landbúnaðarráðherra um breytingar á úthlutun tollkvóta yrði ekki samþykkt óbreytt, heldur frestað og unnið betur. Þannig hafi sérhagsmunir fengið stuðning úr óvæntri átt.
Afleggja útboð á tollkvótum
Afstaða FA til frumvarpsins liggur fyrir svart á hvítu í umsögn til Alþingis. Með frumvarpinu er lögfest skattheimta í formi útboðsgjalds. Sú skattheimta mun fyrirsjáanlega kosta neytendur milljarða króna á komandi árum. Þetta þótti SVÞ og Andrési Magnússyni ásættanlegt. Ekki FA. Þess vegna lagðist FA gegn frumvarpinu og gerði þá kröfu að þessum tollkvótum væri úthlutað gjaldfrjálst með þeim ábata sem neytendum var í upphafi ætlaður.
Breytt aðferð til að úthluta tollkvótum með útboði er vissulega líkleg til að lækka eitthvað útboðsgjaldið, sem innflytjendur þurfa að greiða fyrir kvótana, ekki sízt af því að kvótarnir fara nú stækkandi vegna samnings við Evrópusambandið. Ávinningur neytenda af þeim sökum er hins vegar líklegur til að verða tímabundinn. FA benti í umsögn sinni á að niðurstaðan yrði á endanum sú að útboðsgjaldið myndi leita jafnvægis í tölu rétt undir þeim kostnaði, sem innflytjendur bera af innflutningi viðkomandi vöru á fullum tolli. Þar með er ávinningurinn af tollfrelsinu rokinn út í veður og vind. Það er mat félagsins að það brjóti beinlínis gegn tvíhliða samningi Íslands og ESB að bjóða kvótana upp og innheimta útboðsgjald, sem er ígildi skatts.
Rýmka innflutningsheimildir vegna skorts
Önnur veigamikil breyting í frumvarpinu var sú að afleggja útgáfu svokallaðra skortkvóta, tímabundinna innflutningsheimilda á lægri tollum, sem gefnar hafa verið út ef ekki er nægilegt framboð af búvöru á innanlandsmarkaði á hæfilegu verði. Sérstök ráðgjafanefnd hefur metið hvort ástæða sé til að gefa út skortkvóta. Frumvarp landbúnaðarráðherra gerði ráð fyrir að nefndin yrði lögð af og þess í stað tekin upp fastákveðin tímabil þar sem tollar eru lægri á ýmsum vörum. FA þótti þetta ekki galin tillaga í grunninn, þar sem stjórnsýsla nefndarinnar hefur verið stórgölluð. Félagið lagði reyndar til verulega rýmkun á þeim tímabilum sem sett voru fram í upphaflegu frumvarpi, þótt fólki gæti dottið annað í hug þegar það les grein Andrésar Magnússonar í Morgunblaðinu.
Tala saman um skynsamlegra fyrirkomulag
Í umsögn sinni um frumvarpið benti FA á að einfaldasta leiðin til að koma í veg fyrir skort vegna þess að tollar hamla innflutningi, væri að lækka tollana og styðja innlendan landbúnað með öðrum aðferðum, til dæmis beingreiðslum eins og lýst er í tillögum Samráðsvettvangs um aukna hagsæld frá árinu 2013. Ástæða þess að FA tók undir áskoranir Neytendasamtakanna, Samtaka iðnaðarins og samtaka bænda um að fresta frumvarpinu, er meðal annars að á vettvangi Samtaka grænmetisbænda er raunverulegur vilji til að ræða við ríkið um leiðir til að fjölga þeim grænmetistegundum, sem njóta ekki tollverndar og taka þess í stað upp beinan og gegnsæjan stuðning við ræktun þeirra. FA þótti ástæða til að viðræður um slíkt yrðu kláraðar áður en þetta meingallaða frumvarp yrði keyrt í gegn. Að sameiginleg áskorun um að fresta frumvarpinu hafi orðið stjórnarmeirihlutanum í atvinnuveganefnd skálkaskjól til að gera breytingar til hins verra á því er rökleysa hjá Andrési kollega mínum.Félag atvinnurekenda er þeirrar skoðunar að full þörf sé á breiðara samtali stjórnvalda, verzlunar, neytenda og landbúnaðar um skynsamlegt fyrirkomulag á stuðningi við landbúnaðinn sem hjálpar okkur að stíga skref út úr úr sér gengnu kerfi hafta og tollverndar. Með frumvarpi landbúnaðarráðherra, eins og það var lagt fram og eins og það var samþykkt, er eingöngu verið að lappa upp á ónýtt kerfi, með afleiðingum sem eru að mörgu leyti ófyrirséðar. Af hverju SVÞ kjósa að stilla því máli þannig upp að það hafi verið einhver himnasending fyrir neytendur verður framkvæmdastjórinn að útskýra. Ég ætla að minnsta kosti að sleppa því að gera honum upp skoðanir.
Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.