Við lestur greinar sem framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA) skrifaði í Kjarnann í gær kemst maður ekki hjá því að álykta sem svo að hann hafi fundið til sviða við lestur greinar minnar í Morgunblaðinu 19. desember sl. Meðal annars sakar framkvæmdastjórinn mig um „að skrifa gegn betri vitund“, fara með „rökleysu“ og jafnvel aðhyllast lagabreytingar sem muni leiða af sér vöruskort. Í greininni reifar framkvæmdastjórinn efni umsagna FA um umrætt lagafrumvarp ráðherra um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um tollkvóta fyrir innfluttar landbúnaðarafurðir og bendir á eitt og annað sem þar hafi komið fram máli sínu til stuðnings.
Hugsanlega var meginefni greinar minnar frá 19. desember sl. ekki nógu skýrt í huga framkvæmdastjórans og því tel ég rétt að koma útskýringu á framfæri.
Það ætti öllum að vera ljóst að breytingar á regluverki sem snertir búvöruframleiðslu með einum eða öðrum hætti eru viðkvæmar og erfiðar viðfangs. Hagsmunir bænda og búgreina njóta jafnan ríks stuðnings meðal þingmanna. Af þeim sökum hafa verið tekin afar stutt skref í átt sem gagnast gæti neytendum. Það er ekki annað hægt en að ætla að þessu hafi framkvæmdastjórinn gert sér grein fyrir.
Lesa meira
„[...] undirrituð fullyrðir að þær gagnrýniraddir sem bárust frá ólíkum hagsmunasamtökum bænda, félagi atvinnurekanda og neytendasamtökunum fengu framsögumann málsins til að taka í handbremsuna en með seiglunni og góðs stuðnings þingflokksins náðist að koma þeim í höfn.“
Þrátt fyrir alla ágallana á lagafrumvarpi ráðherra var það eindregin skoðun SVÞ að á heildina litið mundi samþykkt þess skila neytendum ábata. Mat ráðherra var að sá ábatinn gæti numið 240–590 milljónum króna á ári. SVÞ hafði ekki forsendur til að rengja það mat og ekki verður séð að það hafi FA heldur gert. Slíkur ábati hefði vissulega ekki verið nein himnasending en þó skref í rétta átt.
Nú hefur Alþingi fengið frumvarpinu lagagildi og virðist yfirlýsing FA hafa átt ríkan þátt í því að neytendaábatanum var að miklu leyti varpað fyrir róða.
Það var í framangreindu samhengi sem ég leyfði mér að vísa til svohljóðandi kínversks málsháttar í grein minni hinn 19. desember sl.: „Það heyrist jafnan meira í því sem þú gerir en í því sem þú segir“. Í efnissamhengi greinarinnar var merkingin sú að það skiptir í raun ekki máli þó þú berjist opinberlega fyrir tilteknum sjónarmiðum ef gjörðir þínar bera vott um að annarskonar hagsmunir ráði för.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.