Lengi má gott bæta

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóra SFS, fer yfir hvaða þættir það eru sem skapað hafa þá stöðu sem nú er uppi í íslenskum sjávarútvegi.

Auglýsing

Vel hefur gengið í sjávarútvegi á árinu sem er að líða. Þrátt fyrir loðnubrest og samdrátt í útflutningi sjávarafurða að magni til hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða aukist milli ára. Ástæðan er hagstæð verðþróun á sjávarafurðum erlendis sem vegur upp þann samdrátt sem varð í magni. Á fyrstu 10 mánuðum ársins nam útflutningsverðmæti sjávarafurða um 224 milljörðum króna, samanborið við 198 milljarða á sama tímabili árið 2018. Það er um 13% aukning í krónum talið milli ára, en tæp 2% aukning að teknu tilliti til gengisáhrifa. En hvaða grunnþættir eru það sem hafa skapað þessa stöðu? Rétt er að fara yfir þá helstu.

Umhverfið

Það er við hæfi vegna mikillar umræðu um umhverfismál að byrja á þeim. Íslenskur sjávarútvegur stendur þar vafalítið í fremstu röð. Samdráttur í olíunotkun stappar nærri 50% frá árinu 1990. Þrátt fyrir það hefur útflutt magn á sjávarafurðum haldist nokkuð stöðugt. Verðmætin eru á hinn bóginn umtalsvert meiri. Þarna leggst því allt á eitt; minni notkun olíu, jafnmikið magn og hærra verð. Þetta er sú þróun sem ætti að vera eftirsóknarverð öllum þeim sem láta sig umhverfismál varða. Ástæðan fyrir samdrættinum byggist á því kerfi sem viðhaft er við stjórn fiskveiða. Hægt er að stjórna sjósókn af meira öryggi en áður, fiskistofnar eru sterkir og ný, öflugri og sparneytnari skip hafa komið í flotann. Eldri skip hafa horfið úr flotanum á móti. Er nóg að gert? Nei, íslenskur sjávarútvegur mun halda áfram á sömu braut. 

Nýjasta tækni 

Sjálfsagt hafa margir furðað sig á fréttum af því að Íslendingar séu að selja heilu og hálfu verksmiðjurnar fyrir vinnslu á fiski víða um heim. Sá útflutningur nemur nú tugum milljarða á ári. Íslensk iðn- og tæknifyrirtæki fást við fjölbreytta framleiðslu og mörg þeirra byggjast á svokallaðri fjórðu iðnbyltingu. Þau eru því spennandi hátæknifyrirtæki. Það athyglisverða við þetta er, að Íslendingar eru í fremstu röð í heiminum þegar kemur að framleiðslu tækja og búnaðar fyrir sjávarútveg. Þar eru þeir gerendur í stað þess að þiggja lausnir frá öðrum. Ekki aðeins hefur orðið til ný stoð undir útflutning Íslendinga í formi sjávarútvegstækni, heldur þarf sjávarútvegur þá jafnframt í minni mæli að flytja inn tæki og búnað. Virðisaukinn af sjávarútvegi er því fyrir vikið meiri fyrir efnahagslega velsæld okkar Íslendinga.

Auglýsing

Þetta skiptir miklu máli og afrakstur þessa er sífellt að koma betur í ljós. Nefna má að Skaginn 3X á Akranesi er með um 300 starfsmenn. Þar af eru um 200 á Akranesi og um 70 á Ísafirði. Tekjur fyrirtækisins námu rúmlega 8 milljörðum króna í fyrra og jukust um 2,4 milljarða frá árinu á undan. Þetta er í raun stóriðja fyrir sveitarfélag eins og Akranes og vonandi vel þegin í atvinnulífið á Skaganum. Hvernig vildi þetta til? Af hverju hafa íslensk fyrirtæki náð þessum árangri? Það er ekki eitt afgerandi svar til við þeirri spurningu, en þó er ljóst að grunnurinn liggur í nánu samstarfi íslenskra fyrirtækja í sjávarútvegi og iðn- og tæknifyrirtækja. Fjárfesting sjávarútvegsfyrirtækja er því grunnstefið í þessari jákvæðu þróun. 

Fjárfesting

Til þess að sjávarútvegur á Íslandi haldi velli og verði sú stoð undir íslensku efnahagslífi sem honum er ætlað verður hann að standast alþjóðlega samkeppni. Höfum í huga að um 98% af íslensku sjávarfangi eru flutt úr landi. Kostnaður við rekstur fyrirtækja á Íslandi er hár í alþjóðlegum samanburði og Ísland er eyja fjarri stórum markaðssvæðum. Á þessu er ekki fyrirsjáanleg breyting. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki geta ekki ákveðið að hækka verð á afurðum í samræmi við kostnaðarhækkanir sem verða innanlands. Til þess er íslenskur sjávarútvegur allt of lítill. Hann verður því að sætta sig við þau verð sem bjóðast, en freista þess að ná fram hækkun eftir öðrum leiðum, eins og til dæmis með gæðum og áreiðanleika. Til þess að draga úr kostnaði þarf sífellt að vera að fjárfesta. Það er eins í sjávarútvegi og svo mörgum öðrum greinum, að þeir sem ekki fjárfesta í nýjustu tækni og búnaði, sitja eftir og helltast úr keppni. Það er staðreynd sem ekki er hægt að líta fram hjá. Það er heldur ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að við það kann að fækka störfum í fiskvinnsluhúsum, störfin breytist og verði sérhæfðari. En oft miðast nýjasta tækni við að létta af fólki erfiðum og lýjandi störfum. Þá er einnig til þess að líta að mikill fjöldi starfa hefur orðið til í þeim fyrirtækjum sem minnst var á hér að framan. Hátæknistörf hafa orðið til, bæði í hand- og hugverki. Það eru dýrmæt störf, eins og störfin í fiskvinnslunni. En hvaða beinu áhrif hefur íslenskur sjávarútvegur haft hér á landi í þróun og afkomu þessara fyrirtækja? Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fengu Deloitte til að gera úttekt á hagrænum áhrifum af þjónustu innlendra iðn- og tæknifyrirtækja við íslenskan sjávarútveg. Þar kemur fram að á árinu 2018 var framlag þessara iðn- og tæknifyrirtækja til landsframleiðslu, sem rekja má til þjónustu við íslenskan sjávarútveg, alls 19,4 milljarðar króna. Beint framlag til hins opinbera nam 5,1 milljarði króna. Þetta eru ánægjulegar tölur.

Sú þróun sem átt hefur sér stað í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum árum hefur gert þetta mögulegt. Sitt sýnist hverjum um fyrirkomulag við fiskveiðar, en fullyrða má að vöxt iðn- og tæknifyrirtækja má meðal annars þakka tryggum fiskveiðiréttindum og fjárfestingum sjávarútvegsfyrirtækja - fjárfestingum sem ráðist hefur verið í til þess að treysta og viðhalda stöðu á erlendum mörkuðum. 

Kvótakerfið

Það má vissulega halda því fram að verið sé að æra óstöðugan með því að fara að nefna kvótakerfið til sögunnar. Hjá því verður ekki komist. Kerfið hefur reynst vel og haft meiri áhrif en menn ætluðu í upphafi. Því var upphaflega ætlað að koma í veg fyrir ofveiði og ýta undir hagræðingu í greininni, enda var mikil og dýr offjárfesting í henni. Þetta hefur tekist. Það sem menn sáu hins vegar ekki fyrir var að veiðar eru orðnar miklu umhverfisvænni en áður, gæði afurða hafa stóraukist og öryggi til sjós hefur tekið stakkaskiptum. Allt þetta byggist á tryggum fiskveiðiréttindum, að öðrum kosti er útilokað að fyrirtækin hefðu fjárfest í þeim mæli sem raun ber vitni. Sá sem ekki veit nokkurn veginn hvað bíður hans, skuldsetur sig ekki til langs tíma og ræður fjölda manns í vinnu. 

Á því hefur borið að einstaka stjórnmálamenn telji, vegna málefna Samherja í Afríku, að stokka verði upp í íslenskum sjávarútvegi. Sú ályktun er varhugaverð. Málefni Samherja verða rannsökuð af þar til bærum yfirvöldum og það er öllum fyrir bestu að fá niðurstöðu í þau mál sem fyrst. Leikreglur réttarríkisins verða að gilda í þessum málum sem öðrum þar sem grunur leikur á að lög hafi verið brotin. Það breytir ekki þeirri staðreynd, að ekkert kerfi sem notað er við stjórn fiskveiða í heiminum, er betra en það íslenska. Það er ekki gallalaust, frekar en önnur mannanna verk, en þau mál sem upp hafa komið nýverið og tengjast málefnum Samherja í Afríku, eiga ekki nokkra tengingu við íslenska kvótakerfið. Það er mikilvægt að skilja þarna á milli. 

Framtíðin

Það verður vart skilið við áramótaskrif öðruvísi en að minnast á það sem framundan er, þótt ekki sé það kannski allt mjög fyrirsjáanlegt, frekar en fyrri daginn. Hvað rekstur og markaði áhrærir má telja stöðuna nokkuð góða fyrir komandi ár. Áhyggjur má hins vegar hafa af hafrannsóknum. Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda um eflingu hafrannsókna, þá er ekki verið að sinna þessum mikilvæga þætti af þeim þunga sem þarf við þær miklu breytingar sem eru að eiga sér stað í hafi og auknum kröfum markaða. Staðan er raunar þegar orðin alvarleg. Má því til staðfestingar nefna að Hafrannsóknarstofnun hefur hvorki nægjanlega fjármuni í reglubundið togararall né loðnuleit. Þarna verður allra tap. Íslendingar þurfa einfaldlega að gera betur, sé ætlunin að flytja út fisk á kröfuharða erlenda markaði í fyrirsjáanlegri framtíð. 

Við nýtingu takmarkaðra auðlinda er alltaf hætta á að tortryggni vakni. Vísasta leiðin til að eyða henni er að auka samtalið og þar með skilninginn. Það samtal hyggst atvinnugreinin eiga á næstu misserum. Vonandi auðnast okkur að auka skilninginn á mikilvægi öflugs sjávarútvegs á Íslandi og vonandi tekst okkur ekki síður, sem atvinnugrein, að skilja betur þær væntingar sem samfélagið hefur í þessum efnum. 

Höfundur er framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Við mölunina eru notuð tæki sem eru búin hnífum eða löngum plastþráðum sem snúast hratt og sjálfvirkt. Afköstin skulu vera, að því er fram kemur í svari MAST við fyrirspurn Kjarnans, nægilega mikil til að tryggja að öll dýrin séu deydd samstundis.
Mölun karlkyns hænuunga „er hryllileg iðja“
Á Íslandi er heimilt að beita tveimur aðferðum við aflífun hænuunga; gösun og mölun. Báðum aðferðum er beitt á tugþúsundir unga á ári. „Allir karlkyns ungar sem fæðast í eggjaiðnaði eru drepnir eftir að þeir klekjast út,“ segir formaður Samtaka grænkera.
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiÁlit