Hátt ber á árinu sem er að líða hin mikla barátta á sviði orkumála, fyrir sjálfstæði þjóðarinnar og fullveldi hennar yfir mikilvægum orkuauðlindum sínum. Við Miðflokksmenn lögðum nótt við dag í þessari baráttu eins og þjóðin fylgdist með. Þunginn að baki þeim gildum sem hér liggja undir leynir sér ekki og fannst glöggt af viðbrögðum landsmanna að málið hreyfði við fólki um land allt. Við töpuðum atkvæðagreiðslunni en við unnum málið og munum í krafti þess halda uppi baráttu á næstu stigum þegar þessi málefni ber að höndum.
Umræðan um orkupakkann dró fram hvort okkur beri að taka við ákvörðunum erlendis frá sem gefnum hlut. Mátti skilja á utanríkisráðherra og álitsgjöfum ýmsum að sú væri raunin en aðrir héldu fram öðrum sjónarmiðum. Eftir stendur að ekki liggur fyrir greining á kostum og göllum þessa samstarfs og ósvarað er í raun þeirri spurningu hvort við Íslendingar eigum þess kost að hafna ákvörðunum án þess að setja samstarfið í heild sinni í uppnám. Sú spurning er ekki út í bláinn. Hún snýst í raun um hvort löggjafarvaldið liggi hjá Alþingi eða eftir atvikum í stjórnarráðinu eða hjá sameiginlegu EES-nefndinni þar sem Alþingi á engan fulltrúa. Úrslit nýliðinna kosninga í Bretlandi setja Evrópumál í nýtt ljós sem kallar á að Íslendingar gæti hagsmuna sinna á þessum vettvangi sem aldrei fyrr.
Samherji og sjávarútvegurinn
Íslenskt stórfyrirtæki liggur undir þungum ásökunum fyrir framgöngu í þróunarríki. Brýnt er að málið verði rannsakað til hlítar eins og forsendur réttarkerfisins standa til. Í réttarríki starfa stofnanir lögreglu, ákæruvalds og dómstóla með sjálfstæðum hætti án afskipta á hinum pólitíska vettvangi. Kröfur í ræðustól Alþingis um að þessi einstaklingur eða hinn sæti gæsluvarðhaldi, að þessi skjöl eða hin verði haldlögð eða að húsleit fari fram hér eða þar ganga í berhögg við grundvallargildi réttarríkisins. Stjórnmálaleg sjónarmið eiga ekkert erindi í réttarkerfinu. Við Miðflokksmenn höfnum slíkum vinnubrögðum en munum beita okkur fast fyrir því að stofnanir réttarkerfisins séu á hverjum tíma fullfjármagnaðar til að sinna þeim verkefnum sem við er að fást á hverjum tíma.
Tangarsókn gegn verðtryggingunni
Höfundur hefur lagt fram frumvarp sem felur í sér fjórar meginbreytingar á verðtryggingunni: Fyrst ber að telja að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni. Í annan stað eru áhrif óbeinna skatta tekin út svo að hækkanir á áfengi, tóbaki, bensíngjöldum og kolefnisskatti leiði ekki til hækkunar húsnæðislána og þyngri greiðslubyrði. Í þriðja lagi er eitraði kokkteillinn svonefndi tekinn út, það er verðtryggð jafngreiðslulán mega ekki vera til lengri tíma en 25 ára. Í fjórða lagi gerir frumvarpið ráð fyrir að vextir á verðtryggðum lánum fari ekki upp fyrir 2% og styðst sú tala við viðurkennd viðmið um aukningu á framleiðni og hagvöxt til langs tíma.
Lyklafrumvarp til varnar heimilum
Höfundur hefur að tilstuðlan Hagsmunasamtaka heimilanna lagt fram lyklafrumvarp í þeim tilgangi að tryggt verði að skuldarar íbúðalána, sem missa heimili sín, þurfi ekki að þola áframhaldandi innheimtu eftirstöðva íbúðalánsins þegar hin veðsetta eign hrekkur ekki fyrir láninu. Slík frumvörp hafa verið lögð fram á Alþingi a.m.k. fimm sinnum frá hruni. Þeim var ætlað að verja fjölskyldur eftir hrunið gegn því að vera linnulaust sóttar af fjármálastofnunum til greiðslu eftir að hafa misst heimili sín. Frumvarpið er reist á nýlegri lagaþróun og alþjóðlegum sjónarmiðum og sker sig þannig frá fyrri frumvörpum.
Skefjalausar skerðingar
Mikilvægt er að koma til móts við þá hópa í þjóðfélaginu sem mega þola skerðingar á alla vegu reyni fólk að bæta hag sinn með aukinni vinnu. Hjón og sambýlisfólk búa við að húsnæðisuppbót er tekin af báðum. Búi einstæðingur einn er tekin af honum húsnæðisuppbót ef nákominn ættingi flytur inn á heimilið. Skerðing á bótum almannatrygginga vegna atvinnutekna er svo hamslaus að ríflega 80 krónur af hverjum hundrað sem einstaklingur vinnur sér inn umfram krónur 100 þúsund á mánuði eru hirtar í ríkissjóð. Fjárhæðin 100 þúsund hefur staðið óbreytt í tvö ár. Allar fjármagnstekjur umfram krónur 25 þúsund á mánuði eru skertar með líku lagi. Hin árlega hækkun bóta almannatrygginga við áramót hækkar minna en laun hafa gert og sú hefir verið reyndin flest undanfarin ár. Vart er hægt að kalla slíka framgöngu af hálfu stjórnvalda annað en skipulega aðgerð til að lækka að raungildi bætur almannatrygginga til lífeyrisþega.
Við afgreiðslu fjárlaga kom fram tillaga frá nokkrum þingflokkum stjórnarandstöðu um hækkun bóta. Af hálfu flutningsmanna kom fram að tillagan átti að kosta 25 milljarða króna án þess að bent væri á neinar leiðir til fjármögnunar. Þingflokkur Miðflokksins lagðist ekki gegn tillögunni en taldi ekki unnt að styðja ófjármagnaða tillögu frekar en aðrar tillögur sem sýnast meira í ætt við sýndarmennsku en raunhæf úrræði. Við umræðu um fjárlög lögðum við Miðflokksmenn fram fjölmargar tillögur í þágu aldraðra og lífeyrisþega sem miða að því að draga úr hinum geigvænlegu skerðingum sem þessir hópar búa við og áður var vikið að. Allar voru úrbótatillögur Miðflokksins að fullu fjármagnaðar og þess vegna framkvæmanlegar þegar í stað. Fyrir liggur greinargerð, sem ekki hafa verið bornar brigður á, að ekki kosti ríkissjóð svo mikið sem krónu að leyfa fólki að bæta hag sinn í krafti sjálfsbjargarviðleitni með aukinni vinnu.
Hjúkrunarrými fyrir aldraða
Höfundur hefur lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um málefni aldraðra til að tryggja að fé Framkvæmdasjóðs aldraðra sé varið í samræmi við upphaflegan tilgang, þ.e. til uppbyggingar og viðhalds húsnæðis fyrir aldraða. Hafa verður í huga að sjóðnum hefur ekki enn verið bætt upp það fé sem runnið hefur úr honum til rekstrar á umliðnum árum í stað þess að vera varið til uppbyggingar hjúkrunarrýma.
Brýn verkefni
PISA-skýrsla upplýsir að skólabörn, og þá ekki síst drengir, geti alltof mörg ekki lesið sér til gagns. Miðflokkurinn beitir sér í þessum málaflokki og má geta sérstakrar umræðu á Alþingi sem Karl Gauti Hjaltason alþingismaður stóð fyrir um vanda ungra drengja í íslensku samfélagi. Menntamálaráðherra ber að beita sér fyrir sérstakri úttekt á þessu atriði í skólakerfinu með það fyrir augum að greina þá þætti sem standa drengjum fyrir þrifum og gera þá að einhverju leyti utangátta í skólanum.
Þá ber að geta nýlegrar skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um þá alvarlegu vá sem þjóðinni stafar af skipulagðri glæpastarfsemi þar sem erlendir hópar hafa gerst áberandi. Miðflokkurinn vill tryggja lögreglu allan þann mannafla og aðbúnað sem þarf til að tryggja öryggi fólks í landinu og verja það fyrir skipulagðri glæpastarfsemi eins og varað hefur verið við af hálfu ríkislögreglustjóra.
Verkefnin fram undan
Fyrir utan þau mál sem að ofan er getið eru fram undan fjölmörg brýn og aðkallandi verkefni á vettvangi stjórnmálanna Miðflokkurinn mun ekki þola að lífeyriseignir landsmanna séu gerðar upptækar í ríkissjóð með hinum skefjalausu skerðingum á bótum almannatrygginga sem raun ber vitni.. Undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur Miðflokkurinn lagt fram áætlun um að hefta umsvif ríkisbáknsins með hagkvæmni og skilvirkni í opinberum rekstri fyrir augum. Miðflokkurinn hefur lagt fram tillögur í fjölmiðlamálum sem stuðla að því að jafna samkeppnisstöðu á fjölmiðlamarkaði. Efla ber einkarekna fjölmiðla og stuðla með kraftmiklum hætti að gerð fjölbreytts íslensks dagskrárefnis.
Lesendum Kjarnans og landsmönnum öllum óska ég farsældar á nýju ári.
Höfundur er þingmaður Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.