Síðasta málið sem samþykkt var á Alþingi á þessu ári var lenging fæðingarorlofs. Það var vel við hæfi fyrir þingið að enda á slíku framfaramáli, sem er allt í senn, vinnumarkaðsmál, efnahagsmál, jafnréttismál og snýr að málefnum barna og er auk þess tengt lífskjarasamningunum.
Í upphafi árs voru kjarasamningar lausir á almennum vinnumarkaði og ýmislegt óljóst um þróun efnahagsmála.
Hvernig til tókst með samninga á almennum vinnumarkaði ásamt endurskoðaðri fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og lækkun stýrivaxta leggur grunn að stöðugleika og jafnvægi í efnahagslífinu.
Þrátt fyrir fjölmargar ákvarðanir og afgreiðslu „stórra“ mála á þingi, eins og ríkisfjármálaáætlunar, fjárlaga, samgönguáætlunar, heilbrigðisáætlunar og fjarskiptaáætlunar, áframhaldandi uppbyggingu heilbrigðis- og menntamála, aðgerðir í loftslagsmálum og verulega raunaukningu útgjalda til þessara málaflokka þá má færa fyrir því rök að endurskoðun ríkisfjármálastefnu og mikilvægi lífskjarasamninga skipti sköpum fyrir framvindu efnahagslífsins og allra annarra mikilvægra málaflokka.
Óveðrið sem gekk yfir nú í desember kallar á fjölþætta vinnu, en afleiðingar þessa hamfaraveðurs sitja djúpt í hugskoti okkar og hafa enn mikil áhrif á daglegt líf fólks í byggðunum sem verst urðu úti.
Það er aldrei nóg að hafa skýra sýn og stefnu um þróun samfélagsins og málefna. Stjórnvöld þurfa alltaf að vera viðbúin óvæntum atburðum, hvort sem þeir eru af mannavöldum eða náttúrunnar. Fréttaflutningur af meintri spillingu Samherja við Afríkustrendur, skók okkur öll. Málið er í rannsókn hjá héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra, og við ætlumst öll til þess að það verði rannsakað til hlýtar.
Samspilið er dýrmætt
Eftir langt samfellt hagvaxtarskeið, stöðugt verðlag og aukinn kaupmátt allt frá árinu 2011, stöndum við frammi fyrir þeirri áskorun að mæta minnkandi hagvexti og óvissu í efnahagshorfum. Hagsveiflan hefur áhrif á atvinnulífið og heimilin.
Ríkisfjármálastefnan hefur það meðal annars að markmiði að stuðla að jöfnum hagvexti og draga úr sveiflum. Þess vegna endurskoðaði ríkisstjórnin fjármálastefnuna. Þegar hægir á og við finnum fyrir því í rekstri fyrirtækja og í heimilisbókhaldinu er mikilvægt að ríkissjóður gefi eftir af sinni afkomu í stað þess að fara í sársaukafullar aðhaldsaðgerðir. Það er það sem ríkisstjórnin gerði mögulegt með endurskoðaðri fjármálastefnu.
Ríkisstjórnin skóp svigrúm til að framfylgja áætlunum um fyrirhugaðar framkvæmdir, fjárfestingar og þjónustu og fjárlögin 2020 eru því í samræmi við ríkisfjármálaáætlun. Í fyrsta sinn í hagsögunni sjáum við nú fjármálastefnu stjórnvalda vinna með peningastefnunni og vinnumarkaðnum.
Traustar undirstöður ríkisfjármála eru lykill að því að geta mætt sveiflum og áskorunum sem þeim fylgja. Áherslan hingað til á að greiða niður skuldir og lækka vaxtabyrði hefur styrkt stöðu ríkissjóðs, sem stendur nú öflugur og gefur okkur möguleika á viðspyrnu og dýrmætu samspili við peningastefnu og vinnumarkað. Færið er nýtt í fjárlögum 2020, til þess að sækja fram og halda áfram að byggja upp inniviði samfélagsins og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir.
Stöðugleiki er grundvöllur framfara
Með lífskjarasamningunum urðu viss tímamót á vinnumarkaði og fullyrða má um mikilvægi þeirra sem grundvöll að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika. Aðilar vinnumarkaðarins eiga hrós skilið fyrir ábyrga nálgun. Auðvitað þurfti frekari forsendur, vaxtalækkanir sem hafa gengið eftir, og afgerandi framlag stjórnvalda.
Aðgerðir stjórnvalda í tengslum við kjarasamningana falla vel að stefnu Framsóknar. Þar er vert að draga fram lækkun á tekjuskatti einstaklinga með viðbótarskattþrepi einkum til þess að auka ráðstöfunartekjur tekjulægri hópa. Hækkun á greiðslum og lengingu fæðingarorlofs. Barnabætur og skerðingarmörk þeirra eru hækkuð. Margvíslegar umbætur í húsnæðismálum, framlög aukin til félagslegs húsnæðis og átak í uppbyggingu húsnæðis á landsbyggðinni. Atvinnuleysisbætur eru hækkaðar og tryggingagjald lækkað.
Samstaða
Elja, þrautsegja og samtakamáttur einkennir gjarnan okkur Íslendinga þegar mikið liggur við. Það er stutt síðan aftakaveður gekk yfir og á reyndi. Þrátt fyrir tímanlegar spár og viðbúnað, yfirlýstu hættustigi, var veðurhamurinn slíkur að reyndist mannskaðaveður. Það er átakanlegt og vekur samkennd að hlusta á frásagnir af baráttunni sem háð var við náttúruöflin. Þá voru veikleikar í innviðakerfum afhjúpaðir svo um munar. Samtakamátturinn birtist ekki síst í framlagi viðbragðsaðila og fjölmargra sjálfboðaliða björgunarsveitanna og Rauða Krossins sem verður seint fullþakkað.
Eftir stendur að fara þarf ítarlega yfir það sem brást, veikleikana í raforku- og fjarskiptakerfum, og bregðast skipulega við. Átakshópur á vegum ríkisstjórnarinnar vinnur nú að tillögum til úrbóta. Samstaðan er mikilvæg og áorkar miklu en við verðum líka að vinna úr afleiðingunum þannig að við verðum öll betur undirbúin næst.
Manngildi ofar auðgildi
Framsókn leggur ávallt áherslu á jöfnuð og jafnrétti á öllum sviðum og að tryggja velferð allra landsmanna óháð efnahag og búsetu.
Til þess þarf uppbygging grunninnviða að vera í öndvegi. Til merkis um það eru stóraukin framlög til samgönguframkvæmda um allt land, samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins, frumvarp menntamálaráðherra um menntasjóð og áherslur félags- og barnamálaráðherra á málefni barna.
Ríkisstjórnin hefur á kjörtímabilinu aukið útgjöld til heilbrigðismála og einn lykilþátta heilbrigðisstefnunnar er jafnt aðgengi að þjónustu óháð efnahag og búsetu.
Frá áramótum verður áfram dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Komugjöld á heilsugæslu verða lækkuð og stefnt að því í áföngum að fella þau alveg niður en eins og hingað til greiða börn, örorku- og ellilífeyrisþegar ekki komugjöld.
Heilbrigðisráðherra kynnti á dögunum fjölmörg önnur áform, sem fjármögnuð eru í ríkisfjármálaáætlun til næstu ára m.a auknar niðurgreiðslur fyrir tannlæknaþjónustu og lyf, tiltekin hjálpartæki og rýmkun reglna um ferðakostnað.
Í leit að bættu samfélagi hættir okkur til að horfa einkum til efnahagslegra þátta eins og landsframleiðslu og hagvaxtar. Skilningur hefur jafnt og þétt aukist á nauðsyn þess að horfa samhliða til annarra ekkert síður mikilvægra þátta eins og heilsu, menntunar, húsnæðis, vatns- og loftgæða ofl. umhverfis- og félagslegra þátta, sem hafa mikil áhrif á okkar daglega líf.
Mikilvægt er að mæla þessa þætti m.a. til þess að bæta stefnumótun og ákvörðunatöku á vettvangi ríkisfjármála.
Tillögur þverpólitísks hóps á vegum ríkisstjórnarinnar um þróun og framsetningu mælikvarða um aukna hagsæld og lífsgæði samrýmast því afar vel stefnu og grunngildum Framsóknar.
Þingflokkur Framsóknar óskar öllum landsmönnum gleði og farsældar á nýju ári.
Formaður fjárlaganefndar og starfandi Þingflokksformaður Framsóknar.