„Hún var grafalvarleg. Húðin í andliti hennar virtist næfurþunn, við það að rifna, líkt og pappír. Undir henni ríkti takmarkalaus sorg. Þó grét hún ekki. Það var eins og hún væri að reyna eitthvað.“ Úr bókinni Hugsanlega hæfir eftir Peter Høeg, bók um meðferð kerfis á börnum, bls. 74, Eygló Guðmundsdóttir þýddi.
„Hvernig dirfist þið?“ sagði Greta Thunberg við Sameinuðu þjóðirnar. Hvernig dirfist þið að hugsa um peninga og hagvöxt á meðan að vistkerfin eyðast. Hún var grafalvarleg og húðin í andliti hennar virtist næfurþunn.
-----
Fyrir stuttu síðan fékk ég að sitja á milli Sigmundar Davíðs og Guðmundar Andra í útvarpsþættinum Sprengisandi. Í þættinum voru m.a. svokölluð loftslagsmál eða loftlagsvandinn rædd. Stuttu seinna las ég svo texta frá þeim báðum, annars vegar áramótagrein Sigmundar í Morgunblaðinu og hins vegar Facebook-stöðufærslu Guðmundar Andra sem að Kjarninn flutti frétt af. Þar var áfram fjallað um loftslagsmál.
Fyrst ætlaði ég að segja nokkur orð, innblásin af orðum mannanna tveggja. En svo fengu þau ekki nema stutta stund að vera fýsibelgurinn sem kynnti glæður orðanna minna. Orð allra sem að fara með völd á eyjunni í tilefni áramóta urðu mér innblástur, olía ef svo má að orði komast, á eld þeirrar blöndu af undrun og tortryggni, sorg og skilningi sem býr inn í hjartanu á mér í upphafi nýs árs.
-----
Eitt af Flaggskipum kapítalismans brennur. Þjóðríki, einn af minnisvörðum um yfirráðastefnu hinna voldugu og yfirráðastefnu hinna hvítu logar, inní því eru á flótta undan eldinum tugir þúsunda mannfólks, inní því eru brunnin á báli hryllingsins 500 milljónir dýra. Brútalismi vestrænnar samfélagsgerðar gagnvart náttúru er holdgerður í hvítum karli á toppi stigveldisins, hann horfir beint á kjarnorkusprengjuna og segir „Hér er ekkert sérstakt að sjá. Það hefur alltaf verið eldur í Ástralíu.“
Allt sem best og merkilegast hefur verið talið og verðmætast; vestræn gildi, með alla sína menntun og allan sinn menningararf, allt sitt lýðræði og öll sín lífsgæði geta ekkert gert til að stoppa að lífríkið brenni. Allt sem að hér hefur upp verið talið má sín einskis fyrir uppsöfnuðu kapítali og risahnefanum á því; Ástralía er stærsti útflytjandi heimsins á kolum og gasi.
Af hverju logar þessi eldur? Svarið er ekkert flókið. Sagan og nútíminn eru leidd saman af pírómönum, árhundruðin af brennslu jarðefnaeldsneytis og speglasalur samtímans, þar sem valdastéttin ráfar um, inní kastalanum efst á hauskúpu-hæðinni. Ef að einhver reynir að færa meðlimum hennar fregnir úr kola-kjallaranum er svarað: „Í mannkynssögunni hefur aldrei neinn haft það eins gott og ég. Nýársheitið mitt var að læra að spila á fiðlu. Ég fer einmitt í fyrsta tímann í dag.“
„Sagan hefur lifnað við í gegnum náttúru sem að hefur gert slíkt hið sama,“ skrifar Andreas Malm. En náttúran hefur ekki, þrátt fyrir að vera Reginafl, neitt pláss í speglasalnum. Þar taka arðsemissjónarmið hins kapítalíska kerfis ennþá allt plássið, þau efnahagslegu lögmál sem að sumt fólk, í oflæti sínu, telur svo heilög að það er tilbúið til að taka þátt í því að sefa viðbrögð og breiða yfir staðreyndir, tilbúið í heimsendi frekar en endalok kapítalismans.
Orsakir og afleiðingar eru augljósar, niðurstaðan hræðileg. En í speglasalnum höfum við aldrei haft það betra, aldrei átt fleiri spegla. Við erum best í mannkynssögunni, aldrei neinn verið betri.
Hvernig dirfist þið? sagði barnið Greta. Sumir menn, menn eins og Sigmundur Davíð velta sér upp úr risavöxnum tilfinningum stúlkunnar, horfa á hana með þjósti og þykjast hafa af henni áhyggjur. Voðalega líður henni eitthvað illa! Sumir menn þola verst af öllu kvenfólk með tilfinningar. Með því að beina athyglinni að líðan Gretu ætla þeir að koma sér hjá því að tala um orsakir þess að hjarta hennar slær hraðar, orsakir reiðinnar, sorgarinnar: Sjötta stóra útrýmingin er hafin.
Ægileg móðursýki er í þessari stelpu. Sér hún ekki hvað ég hef það gott?
Til að ná einhverju sem að hægt væri að kalla stöðugleika (hér hljótum við að velta fyrir okkur raunveruleikanum andspænis speglasalnum; stöðugleiki er uppáhaldsorð vestrænnar valdastéttar en hún gerir aldrei neitt til að láta hann raungerast, kerfið nærist á óstöðugleika) þarf að minnka stórkostlega losun á gróðurhúsalofttegundum og hefja aðgerðir til að lagfæra þann skaða sem að unnin hefur verið á lífríkinu með brennslu á jarðefnaeldsneyti í gegnum aldirnar. Ekkert slíkt er í sjónmáli, þvert á móti. Á hnattrænan mælikvarða er árið sem að nú er nýliðið metár í losun á koltvísýringi.
Hvernig getur staðið á því? Þrátt fyrir allt sem við vitum, allt sem að vísindafólk og frumbyggjafólk hefur sagt okkur undanfarin ár og áratugi um þá miklu ógn sem að lífríkinu og mannlegri tilveru stafar vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti; hvernig getur staðan samt verið þessi? Eins og áður er svarið ekki flókið en hræðilegt: Á Global Fortune 500 listanum yfir voldugustu fyrirtæki veraldar eru 6 af 10 efstu sætunum vermd af jarðefnaeldsneytiskapítalinu. Á veraldarvísu eru skrímslin sem að nærast af gróðanum sem að jarðefnaeldsneytis-hagkerfið skapar stærst, sterkust, grimmust. Eiga mest og mega mest.
Met eru slegin í losun, ár eftir ár. Met eru slegin í morðum; Pinkertonar samtímans fara um og drepa málsvara lífríkisins, manneskjurnar sem búa eins langt í burtu frá speglasalnum og hægt er að hugsa sér, fólkið við útmörkin, fólkið í kjallaranum, þau sem að búa í hlutveruleikanum, þau sem að hafa fengið úthlutað hlutverkinu Collateral damage í þessari mögnuðu uppsetningu á Arðráninu, þessu hámarki grill-veislunnar.
Á þessum mannkynssögulegu tímamótum er hlutverk hinna ríku á þessari jörðu svoleiðis að eyðilegging er skipun dagsins. Fortíðin mótar nútímann, staðan er afleiðing sögu síðustu árhundraða. Kostnaður vegna arðránsins, kostnaðurinn vegna forréttindana og kostnaðurinn við blinduna sem að þau slá fólk með er ekkert minna en skelfilegur en niðurstaðan er fullkomlega rökrétt þegar við horfum yfir farinn veg. Yfir aldir öfganna.
Fjöldaeyðing í boði mannkynssögu hinna ríkustu; þessvegna bera tilfinningar Gretu hana því sem næst ofurliði. Eðlilegustu viðbrögð sem að hægt er að hugsa sér.
Til að lina og milda afleiðingarnar hinna manngerðu hörmunga eru átök við kapítalismann óumflýjanleg. Kapítalistar verða að tapa. Þú heldur ekki í hendina á kúgaranum á meðan þú gerir uppreisn gegn kúgun. Umskiptin verða á kostnað þeirra. Það er augljóst. Alþjóðleg stórfyrirtæki munu þurfa að taka á sig mikið tap þegar að við hættum að kynda bálið fyrir þau. Voldugustu kapítalistar í heimi munu missa völdin sín. Heldur einhver að þeir muni gefa þau eftir án átaka? Finnst einhverjum að við eigum við að halda áfram að bíða eftir því að frumkvöðlar og fjármagnseigendur komist að ásættanlegri niðurstöðu? Hver ákvað eiginlega að rétt niðurstaða fyrir auðvaldið væri þess virði að bíða eftir? Hverjum er ekki sama um þeirra „sunk cost“? Hver hefur meiri áhyggjur af þeim en hafinu, moldinni, lífríkinu? Fólkinu?
Átökin við auðmagnskerfið eru óumflýjanleg. Þau eru þegar hafin. There is no alternative; fólkið úr kjallaranum bankar á hurðina á kastalanum efst á hæðinni: „I'm knocking on the doors of your Hummer, Hummer.“
„Það þarf þróttmikið samstarf vísinda og fyrirtækja við að þróa tæknilegar lausnir þar sem stjórnvöld hafa hönd í bagga – leiða saman – stýra för – en stjórna ekki stóru og smáu eða gera allan arð upptækan, eins og fylgir miðstýrðu hagkerfi,“ sagði Guðmundur Andri. Ég ætla að svara honum:
Arður er stöðugt gerður upptækur. Hann er gerður upptækur allan sólarhringinn hringinn í kringum heiminn, af innblásinni hugmyndaauðgi, hugmyndaauðgi sem að fengið hefur að blómsta í gjöfulum jarðvegi ríkisvædds kapítalisma, alþjóðavæðingarinnar, nýfrjálshyggjunnar, algjörum vesældómi frjálslynds lýðræðis gagnvart auðvaldinu. Hverjir gera arðinn upptækan? Kapítalistar. Af hverjum taka þeir hann? Af vinnandi fólki, alþýðu heimsins. Manneskja sem að vinnur við að framleiða, hvort sem er varning eða mannlegt samfélag fær aldrei raunverlega það sem að vinna hennar skóp. Veröldin er t.d. full af konum sem þurfa að fara heimsálfanna á milli til að selja aðgang að vinnuaflinu sínu sem er af innblásinni og sögulegri grimmd undirverðlagt skelfilega, m.a. sökum þess að hin alþjóðlega valda- og auðstétt hefur ákveðið að mikilvægast sé að tryggja að „arður sé ekki gerður upptækur“. Arðurinn er gerður upptækur af eingalausum konum, já, líka hér á Íslandi. Markvisst, án afláts.
Óbreytt ástand, blandað ástand, teknókrasía, búrókrasía, laissez-faire. Allt er í boði, allt nema það að hafna arðráninu í mannlegum og vistfræðilegum samskiptum. Það er sannleikurinn sem fólginn er í orðunum There is no alternative: Arðinn má ekki gera upptækan.
Ekki stjórna stóru og smáu. 26 menn eiga jafn mikið og fátækari helmingur mannkyns, fólkið í kjallaranum, en plís, ekki gera allan arðinn upptækan.
Við getum ekki haft stjórn á leikreglum náttúrunnar. Sífelld og óstöðvandi brennsla á jarðefnaeldsneyti orsakar sífellt vaxandi C02 í andrúmsloftinu, það er náttúrulögmál. En við getum haft stjórn á því hvernig samfélagi við búum í, leikreglum þess kerfis sem að við lifum við. Öll þau sem að trúa enn á að arðránskerfið skuli ákveða leikreglur mannlegs samfélags lifa í stórkostlegri afneitun á afleiðingunum. Hættulegri afneitun.
Ég er alveg til í að arður arðræningjanna sé gerður upptækur af konunum í kjallaranum. Ég vona að þær láti til skarar skríða.
Arðrán og kúgun, upptaka lands, próletaríat-væðing mannkyns; full lotningar á því reginafli sem að býr í kapítalismanum ráfa þau um inn í speglasalnum:
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, haldin í nýliðnum desember, var grillveisla Óbreytts ástands, skilaði engum árangri. Hún var bilun, hnignun, afturför. Hún var vanræksla, hún var gjaldþrot, hún féll á prófi. Fjölþjóðleg samvinna komst að niðurstöðunni að best væri að halda áfram að leyfa nokkrum mönnum að drottna yfir lífríkinu. Samfélagsgerð grillveislunnar lengi lifi!
Við búum á Auðvaldsöld en valdastéttin getur ekki einu sinni sagt auðvald. „Hið gamla deyr og það nýja getur ekki fæðst; í millibilsástandinu birtast ýmis og fjölbreytt sjúkleg einkenni.“ Að geta ekki sagt sönn orð um raunveruleikann er sjúklegt einkenni. Að vilja ekki segja satt, að vilja ekki tala um sannleikann er paþólógía.
Hjá sumum manneskjum vekur bálið engar sérstakar tilfinningar. Risavaxnir, mannkynssögulegir atburðir eru ekkert sérstak til að velta fyrir sér. Sumar manneskjur geta staðið á bjargbrúninni, horft ofan í hyldýpið og haft fulla stjórn á tilfinningum sínum. Þær upplifa ekki felmtur, ofboð, hvað þá skelfingu. Þessar manneskjur trúa því að vilji þeirra til að móta allt í kringum sig muni sveigja raunveruleikann undir sig. Muni sveigja hyldýpið til hlýðni. „Sá einn sem áfram sækir.“
Fólkið í speglasalnum, djúpt inn í kastalanum, efst á hæðinni, horfir á heiminn og telur hann góðan. Hér væri hægt að segja brandara um Altúngu en mér líður einhvernveginn eins og tími brandaranna sé liðinn. Þau horfa á ótrúlega og skelfilega hluti eiga sér stað og komast ekki í uppnám, það er til marks um ástundun vestrænna gilda að komast ekki í uppnám. Þau sjá fólk sem að látið hefur verið gjalda grimmilega og af offorsi fyrir stöðu sína í veraldarstigveldinu, fólk í suðrinu, brúnt og svart fólk, fátækt fólk, sumt ó-iðnvætt, sumt fórnarlömb grimmilegs arðráns, rogast um með skelfilegar byrðar hins sjúka óréttlætis sem hvílir eins og mara á veröldinni og þau upplifa ekki djúpa löngun til að umbreyta kerfinu sem býr til ástandið. Þau nota sviðspallinn sinn sem þeim hefur hlotnast vegna forréttinda þeirra sem að þau njóta í svo ríkum mæli, til að draga úr möguleikanum á því að uppgjörið við arðránið megi hefjast.
Við erum komin inn í veruleikann þar sem kapítalisminn nær hápunkti sínum í svakalegustu trickle-down sprengju sem sögur fara af. Sameindasýran úr Xenomorphinu, klímax úr eldi og brennisteini. Árhundruðin af brennslu jarðefnaeldneytisins til að knýja áfram maskínu arðránsins hafa skapað þá kapítalísku losun sem mannkynið þarf nú að takast á við. Ástandið krefst stórkostlega inngripa. Engar nýjar kolaverksmiðjur mega rísa, engir nýjir olíuborpallar. Umskipti í endurnýjanlega orkugjafa geta ekki beðið. Strax þarf að innheimta skatta-skuldina hjá fjármagnseigendum og atvinnurekendum, strax verður að loka öllum skattaskjólum. Strax verður að viðurkenna algjöran rétt frumbyggjaþjóða til þess lands sem að þær búa á, rétt þeirra til að lifa frjáls undan eignaupptöku og ofbeldi, rétt þeirra til að leiða baráttuna fyrir samlífi mannfólks og náttúru. Strax verður að gefa upp á bátinn þá blekkingu sem sjónhverfingafólkið í speglasalnum hefur skapað, kolefnismarkaðinn. Það er glæpur að láta markaðsöflin, helsta óvin lífríkisins, fá enn meiri völd til að græða á Móður Jörð. Strax verður að gera arð mengunar-auðvaldsins upptækan og nota í að bæta lífskjör arðrændrar alþýðu veraldarinnar. Strax þarf að innleiða réttlæti í mannlegum samskiptum. Strax þarf að bjarga veröldinni okkar.
Ég trúi því að allt fólk sé fætt jafnt, að allt fólk hafi nákvæmlega sama óumdeilanlega rétt til að lifa frjálst undan því að vera kastað á auðsöfnunnarbál ágjörnustu eintaka stofnsins. Ég trúi því að ekkert betra geti gerst en að við sameinumst í að hafna því að niðurstaðan í „samtalinu“ um tilveru okkar sé að yfirráð arðránskerfisins, í öllum sínum fjölbreyttu og skelfilegu útgáfum, fái að lifa, vaxa og dafna á meðan að vistkerfi veraldarinnar eyðast. Ég neita að samþykkja að veröldin okkar, Móðir Jörð, breytist í kaunum slegna tötrahypju, þjáða og sjúka. Ég neita að samþykkja að hundruðir milljóna mannfólks þurfi að leggja á flótta frá heimkynnum sínum einfaldlega vegna þess að 1%-ið neitar að hætta að rústa sameiginlegum heimkynnum okkar. Kapítalocene hefur gripið veröldina í krumlu sína; í upphafi nýs árs hvet ég okkur öll til að sjá og viðurkenna að baráttan fyrir framtíð okkar er and-kapítalísk. Hún getur ekki verið neitt annað. Úr kjallaranum sækjum við upp hæðina, alla leið að kastalanum, alla leið inn að speglasalnum, til að brjóta hann í þúsund mola. Fámenn valdastétt getur einfaldlega ekki lengur komist upp með að leyfa forhertri auðstétt að komast upp með hvað sem er. Fólk og lífríkið allt geta ekki lengur þolað það að vera undirseld hagsmunum hinna auðugu og snarbrjáluðu. Við skulum ekki lengur ráfa stefnulaust um fyrir utan speglasalinn, án þess að komast þangað inn, en þó algjörlega á valdi þeirra bragða og brellna sem að þar verða til. Er það ekki augljóst; ekki ætlum við að leyfa að móðir okkar allra, þetta stórkostlegasta kraftaverki sem að mennsk augu hafa nokkru sinni litið, sé grilluð til að óvinir okkar geti grætt?
There is no alternative. Ég vona að konurnar og börnin úr kjallaranum leiði saman, stýri för, geri árás á kastalann og ég vona að riddarinn Kató drepist. Þessi von er áramóta heitið mitt.
-----
Ástralía brennur. Stærsti útflytjandi veraldar af kolum og gasi framkvæmir æðisgengna sjálfsíkvekju. 500 milljónir dýra brennd á báli, fólk á flótta innan úr bræðsluofninn, allt fuðrar upp. „Þetta er ekki kjarr-eldur, þetta er kjarnorkusprengja.“
„Það hefur alltaf verið eldur í Ástralíu,“ segir einn af æðstu valdamönnum landsins. Eruði ekki með loftkælingu í Hummernum ykkar eins og ég?
„Vinsamlegast segið mér: Hvernig getiði brugðist við þessum tölum án þess að upplifa í það minnsta einhverja skelfingu? Hvernig bregðist við þeirri staðreynd að ekkert er að gert, án þess að upplifa neina reiði? Og hvernig komiði skilaboðunum áfram án þess að hljóma eins og hrakspámaður? Mig langar virkilega til að vita það.“
Höfundur er formaður Eflingar.