Varla er til það dómsmál sem orðið hefur eins sögufrægt og Dreyfus-málið. Það hefst haustið 1894 þegar Frakkar verða þess varir að ríkisleyndarmálum er lekið til Þjóðverja sem voru þá höfuðandstæðingar Frakka vegna stríðsins 1870 til 1871. Upphaf fransk-prússneska stríðsins má rekja til klækja Bismarcks, járnkanslarans, við sameiningu Þýskalands. Frakkar töpuðu stríðinu og neyddust m.a. til að flytja höfuðborg sína til Tours og afsala sér kolahéruðunum, Elsass og Lothringen, til Þjóðverja. Héruðin urðu skiptimynt í báðum heimsstyrjöldunum, allt þar til Kol og stálbandalagið, undanfari ESB, var stofnað 1951. Upplýsingaleki til Þjóðverja var mjög alvarlegt mál og heiður franska hersins í húfi. Strax um haustið 1894 er gyðingurinn Alfred Dreyfus handtekinn, dæmdur fyrir landráð, auðmýktur og opinberlega sviptur liðsforingjatign. Dreyfus er ekki líflátinn heldur sendur í lífstíðarútlegð á Djöflaeyjuna þaðan sem enginn átti afturkvæmt.
Georges Picquart, nýr yfirmaður njósnadeildar franska ríkisins, verður þess brátt var að ríkisleyndarmálin halda áfram að berast Þjóðverjum, og hefst þá hið raunverulega Dreyfus-mál en það snerist fyrst og fremst um landlægt útlendinga- og gyðingahatur um Evrópu þvera og endilanga. Í baráttunni gegn gyðingahatri bar hæst menn á borð við sósíalistann kattfróma, Jean Jaurès, og Georges Clemenceau, sem síðar varð forsætisráðherra Frakka, en hann var útgefandi L'Aurore, dagblaðsins sem birti grein rithöfundarins Émile Zola en hún hófst með setningunni, J‘accuse — Ég ákæri — og markar upphaf baráttunnar. Þess má geta að í kjölfarið var Émile Zola kærður og dæmdur, og varð hann að flýja til Lundúna til að lenda ekki í dýflissunni. Málið var tekið upp að nýju. Ekki þótti ráðlagt að halda réttarhöldin í París og voru þau flutt til Rennes á Bretaníuskaga þar sem Dreyfus var að nýju fundinn sekur um landráð. Þáverandi forseti Frakklands, Émile Loubet, sá sig hins vegar tilneyddan til að biðja Dreyfus afsökunar til að bjarga heiðri franska hersins. Dreyfus féllst á þá afsökunarbeiðni og losnaði ar með úr prísundinni.
Robert Badinter, dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Mitterands, er einna þekktastur fyrir að hafa aflétt dauðarefsingu í Frakklandi árið 1981. Hann telur að dómsúrskurðurinn, sem stríðsráðið kvað upp í Rennes í septembermánuði 1899, hafi gífurlegt vægi, hvort heldur siðferðislegt eða pólitískt. Enn þann dag í dag sætir þessi lagagjörningur tíðindum, þar sem „heiður“ stofnunar var tekinn fram yfir sakleysi einstaklings. Badinter bendir á að þarna sé dæmi um það hvað gyðingahatur og kynþáttahyggja getur leitt til alvarlegrar siðblindu.
Frakkar hafa hins vegar tekið allt aðra afstöðu en Íslendingar og í tilefni þess að 120 ár eru liðin frá dómi stríðsráðsins í Rennes var haldin þar mikil sýning og ráðstefna og fyrrnefndur Robert Badinter heiðursforseti hennar. Sýning á ljósmyndum af atburðunum við hús dómstólsins, sem nú hýsir menntaskóla kenndan við Émile Zola, stórsýning á Þjóðminjasafni Bretaníu, þar í grennd, ráðstefnur og fyrirlestar með virtum fræðimönnum um konur og Dreyfus, gyðingaandúð, þátt fjölmiðla, gyðinga- og frímúrarasamsærið, um rithöfundinn Émile Zola, auk upplestrar barnabarns Dreyfusar, Charles Dreyfus, um nauðsyn þess að halda málinu á lofti. Jafnframt settu mannréttindasamtök Dreyfus-málið í samhengi við atburði líðandi. Allt er gert til að sagan endurtaki sig ekki.
Höfundur er hagfræðingur og sagnfræðingur.