Við undirritaðar skorum á borgarráð að hafna breytingum á opnunartíma leikskóla sem samþykktar hafa verið í skóla- og frístundaráði. Við þurfum ekki af velkjast í neinum vafa um hvaða hópur mun þurfa að aðlaga sig að þessum breytingum. Mæður munu í mun meira mæli en feður þurfa að minnka starfshlutfall, undir auknu álagi um að hlaupa hraðar til að halda öllum boltunum á lofti. Mæður úr viðkvæmum hópum; einstæðar mæður, mæður af verkalýðsstétt eða af erlendum uppruna, sem þurfa að vinna mikið og hafa ef til vill ekki sterkt stuðningsnet munu finna mest fyrir þessari vanhugsuðu aðgerð Reykjavíkurborgar.
Ofan á þetta allt bætast svo hugmyndafræðilegu áhrifin þar sem hugmyndafræði ákafrar mæðrunar (e. intensive mothering) í samfélagi kynjatvíhyggju stangast á við femíníska hugmyndafræði sem vill afbyggja og endurhanna félagslega sköpuð hlutverk mæðra og feðra. Átakalínurnar snúast um „það sem er best fyrir börnin“ annars vegar og jafnréttis hins vegar og niðurstaðan oftar en ekki sú að þetta séu í raun ósamrýmanlegar andstæður. Þessi átök valda vel þekktri og stöðugri sektarkennd hjá konum sem þurfa að standa undir kröfum samfélagsins um virka þátttöku í atvinnu- og efnahagslífi á sama tíma og þær eiga að mæta þörfum barna sinna.
Hin póstfemíníska nálgun um að konur í vestrænum ríkjum séu lausar úr höftum hefðbundinna kynjahugmynda, að hið persónulega sé ekki lengur pólítískt heldur hafi konur val um hvernig þær hagi sínu lífi, er mýta. Það þarf eftir sem áður þorp til að ala upp barn, sér í lagi í samfélagi sem vill kenna sig við jafnrétti kynjanna.
Nýsamþykktar breytingar á opnunartímum leikskóla eru vatn á myllu þeirrar orðræðu sem nú virðist vera í nokkurri sókn, þar sem hagsmunum barna og jafnrétti kynjanna er stillt upp sem andstæðum pólum. Umræðan um leikskóla sem vinnu, sjálfsniðurrif leikskólastarfsfólks sem „allt er sammála um að börn séu allt of mikið í“ og dýrðarljóminn sem formaður skóla- og frístundaráðs hjúpaði 4-6 tíma leikskóladag fortíðar eru til marks um þetta.
Umræðan um breytingarnar munu því ekki bara leiða til verri stöðu áðurnefndra hópa, heldur stuðla að aukinni vanlíðan og samviskubiti hjá konunum sem þurfa að halda öllum boltunum á lofti. Ef okkur er alvara með jafnréttissamfélagi verða innviðir þess að gera fólki af öllum kynjum kleift að taka virkan þátt á vinnumarkaði og axla jafna ábyrgð á barnauppeldi. Það verður ekki gert með styttri opnunartíma leikskólanna heldur með bættum aðbúnaði þeirra, sómasamlegum launum, styttri vinnuviku og minna álagi á starfsfólk. Þar ætti Reykjavíkurborg að ganga á undan með góðu fordæmi.
Claudia Overesch, Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir, Elísabet Ýr Atladóttir, Gunnur Vilborg, Halldóra Jónasdóttir, Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, Hildur Björk Pálsdóttir, Ingibjörg Stefánsdóttir, Hafdís Eyjólfsdóttir, María Lilja Þrastardóttir Kemp, Ósk Gunnlaugsdóttir, Sóley Tómasdóttir, Sunna Símonardóttir og Þóra Kristín Þórsdóttir.