Öllum eru okkur minnisstæðir þeir hörmulegu atburðir, þegar snjóflóðin hrundu yfir byggðirnar á Súðavík og á Flateyri með miklum mannskaða og eignatjóni. Sá, sem þetta skrifar, var þá þingmaður Vestfirðinga og sat auk þess í ríkisstjórn. Mér líða aldrei úr minni þeir atburðir, sem þá urðu og ekki heldur það áfall, sem allir ráðherrar í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar urðu fyrir vegna þessa skelfilegu atburða.
Í þeim viðbrögðum, sem okkur er þar sátu, var bæði skylt og ljúft að beita, gátum við ekki vakið til lífs þá, sem horfnir voru yfir móðuna miklu né bætt til neinnar fullnustu það mikla tjón á eignum, lífsgæðum og tilfinningum, sem af hörmungunum hlutust. Það eina, sem var í okkar færi og í okkar getu var að samhryggjast með því marga fólki, sem um sárt átti að binda – og gera allt sem við gátum og í mannlegu valdi stæði til þess að koma í veg fyrir að svona atburðir myndu endurtaka sig. Gera allt sem við gætum til þess að veita þeim, sem á hættulegum snjóflóðasvæðum byggju, sem allra mest öryggi fyrir því, að álíka atburðir gætu ekki orðið þar eins og þeir sem urðu í Súðavík og á Flateyri og reyna að veita þeim, sem þar bjuggu áfram sem allra mesta tryggingu fyrir því, að slíkir hörmungaratburðir endurtækju sig aldrei aftur.
Svona voru áformin
Þetta gerðum við í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar með því að leggja fyrir Alþingi strax frumvarp til laga um Ofanflóðasjóð, sem Alþingi veitti svo afdráttarlausan stuðning þannig að þau lög öðluðust gildi strax 29. maí 1997. Alþingi hefur nokkrum sinnum síðan breytt þeim lögum og þá til bóta, en meginatriðin í frumvarpinu okkar standa þó öll óbreytt. Tilgangur þeirra: Að byggja upp flóðavarnir gegn ofanflóðum á öllum þeim stöðum þar sem slík flóð voru talin geta stefnt byggðarlögum og fólkinu, sem þar bjó, í hættu. Í samvinnu við hverja: Sveitarstjórnir, og sérfræðinga m.a. sérfræðinga Veðurstofunnar í ofanflóðavörnum, sem annast myndu áhættumat sem og sérfræðinga í hönnun varnarmannvirkja. Hvernig var Ofanflóðasjóði tryggt það fjármagn, sem álitið var að til þyrfti: Með því að leggja á alla landsmenn sérstakt árlegt gjald, sem nema skyldi 0,3% af vátryggingarverðmæti allra fasteigna í landinu. Ríkissjóði var falin innheimtan en gjaldinu var ætlað að greiða kostnað af rekstri sjóðsins, sem nema myndi og numið hefur aðeins broti af tekjunum, en öðru leyti greiða kostnað við varnir gegn ofanflóðum og meðal þess kostnaðar veita sveitarfélögum lán til þess að standa undir undirbúningi slíkra framkvæmda. Allt er þetta skýrt og skorinort orðað í lögunum um Ofanflóðasjóð frá 29. maí árið 1997. Svona voru áformin. Hvernig urðu efndirnar?
Svona urðu efndirnar
Nýjustu upplýsingar um Ofanflóðasjóð og starfsemi hans, sem ég hef aðgang að, eru frá árinu 2016. Þá lagði Ríkisendurskoðun fram skýrslu um starfsemi sjóðsins á því ári. Þar kemur m.a. fram, að tekjur sjóðsins á árinu 2016 námu 3.128,5 milljónum króna. Útgjöld sjóðsins námu á sama ári 1.304,6 milljónum króna. Mismunur tekna og gjalda var því 1.821,2 milljónir króna, sem ríkissjóður hafði fengið frá fasteignaeigendum á Íslandi en haldið eftir og ekki varið til þeirra verka, sem til var ætlast. Þessi mismunur tekna og gjalda var sagður hafa HÆKKAÐ um 364,5 milljónir króna frá árinu á undan, árinu 2015. M.ö.o. á því ári hafði ríkissjóður haldið í sinni vörslu 1.456,7 milljónum króna af fé, sem íslenskir fasteignaeigendur höfðu greitt og ætlað var að kosta varnir mannslífa og eigna. Á árinum 2015 og 2016 samanlagt 3.277,9 milljónum króna, sem ríkissjóður hefur þá nýtt til annara þarfa en þeim fjármunum var ætlað.
ÞIÐ berið ábyrgð!
Nú kemur mér ekki til hugar, að nokkur fjármálaráðherra eða nokkur formaður fjárlaganefndar haldi því fram, að þessar miklu skerðingar á fjármunum Ofanflóðasjóðs stafi af því, að þörf fyrir varnir mannslífa og eigna liggi ekki fyrir eða að verkefni hafi ekki verið nægilega skilgreind. Í ljósi síðustu atburða skora ég því á Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og Willum Þór, formann fjárlaganefndar, að þeir beiti sér nú þegar fyrir því að skilað sé þeim fjármunum til Ofanflóðasjóðs og verka á hans vegum til verndunar mannslífa og eigna, sem þeir og forverar þeirra hafa haldið í ríkissjóði og notað til annara þarfa.
Þeir bera ekki ábyrgð á öllum þeim tuttugu þúsund milljónum króna eða meira sem þar er um að ræða – heldur aðeins hvor um sig ábyrgð á misstórum hluta þeirrar fjárhæðar. Þeirra ábyrgð felst hins vegar í því að bregðast við þegar atburðir hafa orðið eins og þeir, sem íbúarnir á Flateyri hafa mátt sæta, og skila þeim fjármunum, sem þeir og forverar þeirra hafa haldið eftir í ríkissjóði af því fé, sem lagt hefur verið á landsmenn og innheimt af þeim til þess að koma í veg fyrir að atburðir eins og þeir, sem gerðust í Súðavík og á Flateyri fyrir um það bil 25 árum – og hafa nú endurtekið sig að nokkru leyti á Flateyri – hendi nokkurn nokkurn tíma aftur. Ég trúi því ekki, að samflokksmenn og stuðningsmenn þessara valdsmanna séu ekki á sama máli um skyldu þeirra til viðbragða né að nokkur alþingismaður geri sér ekki grein fyrir því, að Alþingi allt ber sína ábyrgð á því hvernig að hlutunum hefur verið staðið. Því VERÐUR að breyta – og breyta strax.
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Vestfirðinga og fyrrverandi ráðherra.