Ég á starfsmönnum leikskóla svo margt að þakka. Án leikskóla hefði ég ekki getað klárað námið mitt þegar við hjónin vorum fátækir námsmenn á framandi slóðum án nokkurs stuðningsnets. Án leikskóla gæti ég ekki sinnt núverandi vinnu minni. Leikskólinn er undirstaða þess að mæður jafnt sem feður geti menntað sig og stundað atvinnu.
Í sveitarstjórnarkosningum 1994 voru dagvistarmál eitt aðalbaráttumál R-listans, sameiginlegs framboðs allra flokka nema Sjálfstæðisflokks (Guðný Björk Eydal, 2006). Lagt var upp með að í lok kjörtímabils fengju öll eins árs börn og eldri þá vistun sem foreldrar vildu nýta sér (Guðjón Sigurðsson, 1998). Það skýtur því sannarlega skökku við þegar núverandi meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Viðreisnar og Pírata virðist ætla að taka þá harkalegu ákvörðun – án nokkurs fyrirvara eða samfélagslegrar umræðu – að skerða starfsemi leikskóla Reykjavíkur.
Skert þjónusta leikskóla felur í sér tvennt: Hámarksdvalartími er styttur og sömuleiðis er skellt í lás á leikskólum 16:30 í stað 17:00. Hvaða afleiðingar getur þetta haft?
Skert starfsemi leikskóla er jafnréttismál
Við á Íslandi trónum á toppi hinna ýmsu lista um jafnrétti kynjanna. Þegar til kastanna kemur er þó enn ójafnvægi þegar kemur að barnauppeldi. Sem dæmi styttu feður almennt fæðingarorlofstöku sína í kjölfar efnahagshrunsins á meðan mæður lengdu orlofstöku (Heiða María Sigurðardóttir og Ólöf Garðarsdóttir, 2018 ), væntanlega því einhvern veginn þurfti fólk að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og dagvistunar. Það bil brúa almennt konur frekar en karlar. Skert þjónusta leikskóla getur bitnað á öllum foreldrum, en hún er líkleg til að bitna mest á konum, þá sérstaklega konum í erfiðri félagslegri stöðu.
Skert starfsemi leikskóla er lýðheilsumál
Mikið hefur verið talað um neikvæð áhrif streitu á líkama og sál. Skerðing á starfsemi leikskóla er ekki vel til þess fallin að minnka álag á barnafólk – sem nú þegar á nógu erfitt með að púsla saman öllum þeim mýmörgu verkefnum sem þarf að sinna hvern einasta dag. Þreyttir, útúrstressaðir foreldrar sem ná ekki endum saman af því að þeir geta ekki sinnt fullri vinnu eru síður líklegir til að vera glaðir, gefandi og nærandi umönnunaraðilar.
Skert starfsemi leikskóla getur komið niður á börnum
Í viðtali við Vísi.is þann 16. janúar segir Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, að ekki séu nema 62 börn sem nýti sér núverandi opnunartíma leikskólanna til fulls, rétt eins og 62 börn og foreldrar þeirra skipti engu máli. Þá eru ótalin þau börn sem dvalið hafa á leikskólanum til kl. 17 án þess þó að hafa dvalið þar allan opnunartímann, til dæmis börn foreldra með vinnutíma frá 9-17 í stað 8-16. Var eitthvert samráð haft við foreldra þessara barna? Var nokkurt foreldri spurt hvaða áhrif þessi skerðing hefði á það og barn þess? Er ekki einmitt líklegt að einhver góð og gild ástæða hafi verið fyrir því að fólk hafi þurft að nýta þennan leikskólatíma? Er ekki sömuleiðis líklegt að aðstæður þessa fólks breytist ekki eins og hendi væri veifað bara af því að skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar skipar svo fyrir?
Undir niðri marar samt alltaf sú hugmynd að það sé vont fyrir börn að dveljast á leikskóla, að það hafi slæm áhrif á þroska þeirra að dveljast þar í stað þess að vera hjá foreldrum sínum. Ég vil með ekki með nokkru móti gera lítið úr samveru foreldra og barna. Aftur á móti hafa margar rannsóknir sýnt að dvöl á góðum leikskóla þarf alls ekki að hafa neikvæð áhrif á börn og getur jafnvel haft jákvæð áhrif á ýmsa þroskaþætti.
Ég ætla að gerast mikill Nostradamus og spá því að þessi ákvörðun komi niður á börnunum. Þessi börn eru ekkert að fara að fá auknar gæðastundir með foreldrum sínum. Þessi börn eru að fara í einhverja aðra pössun eða til foreldra undir enn meira álagi en áður.
Skert starfsemi leikskóla gengur gegn rétti fólks til að ráða eigin lífi
Með allt þetta í huga biðla ég auðmjúklega og innilega til skóla- og frístundaráð um að endurskoða þessa ákvörðun. Hún var gerð af góðum hug en breytingin gengur því miður gegn rétti foreldra barna í Reykjavík til að haga lífi sínu og fjölskyldu sinnar eins og þeim hentar best.
Höfundur er lektor við Sálfræðideild Háskóla Íslands, fyrrverandi starfsmaður leikskóla, og móðir leikskólabarns.
Heimildir:
David R. Samson o.fl. (2017). Chronotype variation drives night-time sentinel-like behaviour in hunter–gatherer.
Guðjón Sigurðsson, 1998: Hverju lofaði R-listinn?
Guðný Björk Eydal (2006). Þróun og einkenni íslenskrar umönnunarstefnu 1944-2004.
Heiða María Sigurðardóttir og Ólöf Garðarsdóttir (2018). Backlash in gender equality? Fathers’ parental leave during a time of economic crisis.