Það er satt að segja skelfilegt að hlusta á fulltrúa ríkisstjórnarinnar og Alþingis ræða málefni Ofanflóðasjóðs og stöðu framkvæmda, sem sjóðurinn á að kosta. Skiptir þar ekki máli hvort um er að ræða fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson, eða ráðherra sveitarstjórnarmálefna, Sigurð Inga og alþingismanninn Lilju Rafneyju, sem tjáðu sig um málið í þættinum Sprengisandi um helgina og svo Lilja Rafney aftur í Silfrinu í RÚV.
Þar er látið sem nauðsynlegt sé að ríkisstjórn og Alþingi leggist yfir hönnunarmál, framkvæmdir og þarfir, eins og fjármálaráðherra ræddi og þau Sigurður Ingi og Lilja Rafney tóku undir, eða ráðamenn mæta til leiks án þess að hafa kynnt sér málið til neinnar hlítar. Leiðum nú þá, sem vita og þekkja, til vitnis um málatilbúnað ráðherranna og þingmannsins.
Síðasta áskorunin
Árum saman hafa þeir, sem best þekkja til, skorað á ríkisvaldið að standa við þau fyrirheit, sem þetta sama ríkisvald gaf í lögunum um Ofanflóðasjóð frá 1997. Síðast var þetta gert þann 3. maí í vor þegar greinargerð um stöðu mála og áskorun á ríkisvaldið um að standa við gefin fyrirheit var send ríkisstjórninni undirrituð af 13 einstaklingum, m.a. fulltrúum þeirra samfélaga, sem mest eiga undir.
Fyrsta dæmið
Lítum á dæmi. Þrettánmenningarnir segja, að tilgangur laganna um Ofanflóðasjóð sé og hafi verið skýr. „Byggja skyldi hratt upp snjóflóðavarnir fyrir hættulegustu byggðir landsins... og að slíkar varnir yrðu komnar upp fyrir 2010. Uppbyggingin hafi gengið hægar en áætlað var EINKUM VEGNA STJÓRNVALDSÁKVARÐANA (leturbreyting mín) og þessu markmiði hafi því verið frestað til 2020“. Er þetta í samræmi við skýringar ráðherranna og þingmannsins? Að frestað hafi verið framkvæmdum EINKUM VEGNA STJÓRNVALDSÁKVARÐANA en ekki af völdum ónógs undirbúnings eins og ráðherrarnir og þingmaðurinn halda fram.
Annað dæmið
Lítum á annað dæmi. Í áskorun þrettánmenninganna til ríkisstjórnarinnar frá 3. maí s.l. eru taldir upp allir þeir framkvæmdaþættir, sem þrettánmenningarnir segja að bíði framkvæmda. „Enn á eftir að reisa a.m.k. 9 leiðigarða, 15 þvergarða, um 30 varnarkeilur, 4-7 km. af stoðvirkjum, 2 km. af snjósöfnunargrindum, 25 vindkljúfa....m.a. á svæðum þar sem snjó- og krapaflóð hafa oft fallið niður undir eða niður í byggð. Verkefnin eru tæknilega flókin og hafa því verið lengi í hönnun og eru hlutfallslega dýr“. Þetta segja þrettánmenningarnir að séu framkvæmdir sem bíða þess, að íbúar, sem eiga líf sitt og eignir undir hættu, fái lausn sinna mála... Svo segir fjármálaráðherra, að í undirbúningi sé að hann og umhverfisráðherra, hönnunarsérfræðingarnir tveir, ´ætli sér næst að fara að skoða saman þessar framkvæmdafyrirætlanir og leggja mat á .. og gera svo hvað? Engin svör við því. Ekki heldur þegar Sigurður Ingi ræddi sömu ígrundanir með sama hætti á Sprengisandi.
Þriðja dæmið
Lítum á þriðja dæmið. Í áskorun þrettánmenninganna til ríkisstjórnarinnar segir um framangreind verkefni: „Fjárhagslega og tæknilega virðist raunhæft að ljúka þeim framkvæmdum sem út af standa fyrir árið 2030.“ Hvert er svar ríkisstjórnarinnar? Ekkert – ennþá. Ráðherrarnir eru að skoða verkefnin, verkefnaáætlunina og hönnun, sem þeir segja að sé ábótavant. Fyrir liggur hins vegar mat Halldórs Halldórssonar, sem á sæti í Ofanflóðanefnd og hefur gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir flokk fjármálaráðherra, að miðað við framkvæmdahraðann, sem verið hefur á verkefnum sjóðsins að tilhlutan stjórnvalda, muni ekki takast að ljúka framkvæmdum á verkum SEM ÞEGAR HAFA VERIÐ UNDIRBÚIN fyrr en á árunum 2050 til 2060.
Fjórða dæmið
Lítum á fjórða dæmið. Í greinargerð þrettánmenninganna fyrir áskorun sinni á ríkisstjórnina segir m.a. „Fé Ofanflóðasjóðs.....skal notað til að greiða kostnað við varnir gegn ofanflóðum“. Hver er reyndin? Að meðaltali hefur um það bil einum þriðja hluta af árlegu ráðstöfunarfé sjóðsins, sem aflað er með sérstökum skatti á fasteignaeigendur, verið notaður til þeirra þarfa, sem lögin mæla fyrir um að gert sé. TVEIR ÞRIÐJU HLUTAR tekna sjóðsins hafa verið settir í annað. Hverjir hafa gert það? Viðkomandi ráðherrar, fjármálaráðherra og umhverfisráðherra, studdir af fjárlaganefnd og Alþingi. Þeirra er ábyrgðin. Segjast þeir axla hana?
Þar sem þekkinguna skortir
Þátturinn Sprengisandur er merkilegur og markverður – og hefur svo verið frá upphafi. Hann veitir innsýn í svo margt – m.a. þekkingu þeirra, sem þar mæta. Í þættinum mæltist sveitarstjórnarráðherranum svo, að ónotað fé Ofanflóðasjóðs væri um 13 milljarðar króna. Í úttekt Ríkisendurskoðunar frá árinu 2016 segir, að við árslok þess árs hafi 20 þúsund milljónum króna munað á tekjum sjóðsins og útgjöldum, verið ónotað. Það hafði ráðherrann ekki kynnt sér. Fannst svona það hlytu að vera einhverjar þrettán þúsund milljónir Ekki heldur hafði hann kynnt sér að miðað við hefðir og venjur í búskap sjóðsins ættu þessar inneignir á ónotuðu fé, sem í árslok 2015 var 20 milljarðar króna að hafa í árslok 2019 numið 23-24 milljörðum króna.
Þetta reddaðist – ekki
Annað, sem fram kom í þessum þætti, veldur mér þó meiri áhyggjum. Eins og fram kemur í bók Svein Harald Øygard, Í víglínu íslenskra fjármála, vakti það sérstaka athygli hans, að ekki nokkur einn einasti Íslendingur fékkst til þess að axla minnstu ábyrgð á því, sem olli fjármálahruninu á Íslandi, því mesta, sem þekkst hefur í heimssögunni að sögn Svein Harald. Alkunn er sú afstaða Íslendinga í öllum málum, að „það reddist“. Erfiðleikar eiga að leysast helst svona af sjálfu sér Þegar eitthvað sem á að reddast ekki reddast telur enginn sig bera ábyrgðina. Það, að ekki nema þriðjungur þess fjár, sem lagt var á landslýð og tryggja átti líf, limi og eignir fólks í byggðarlögum þar sem hættuástand ríkir hafi verið notaður í samræmi við tilgang – en tveir þriðju hlutar ekki – er dæmigert um „það reddast“ hugsunarháttinn. Og nú, þegar það reddaðist ekki, hvað sagði þá Lilja Rafney á Sprengisandi? Hún sagði, að ábyrgðin væri samfélagsins. SAMFÉLAGSINS! Og hvert er það samfélag. Samfélag kjósenda hennar? Samfélag fólksins sem býr á Siglufirði, á Norðfirði, í Fjallabyggð, í Fjarðabyggð – sem sé ábyrgðin lendi á öllum öðrum en ráðherrum og alþingismönnum sjálfum? Þeim, sem valdið hafa og valdinu beittu. Samfélagið skal það vera, sem ábyrgðina ber. Ekki þeir, sem breyttu út frá réttu og löglegu af því „þetta reddast“. Nei, samfélagið – fólkið í landinu- skal axla ábyrgðina. Sú var skoðun Lilju Rafneyjar á Sprengisandi s.l. sunnudag. Slík er alþekkt skoðun meðal forvígismanna á Íslandi. Þeirra er aldrei sökin. Samfélagsins skal hún vera. Ef ekki bara útlendinga!
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Vestfirðinga og fyrrverandi ráðherra.