Höfundur: Thomas Piketty
Bókarheiti: Capital et idéologie
Bókarheiti á íslensku (óþýdd): Auðmagn og hugmyndafræði
Útgáfa: Seuil, París 2019, 1198 bls.
Sjá einnig heimasíðu höfundar: Paris School of Economics
Thomas Piketty öðlaðist heimsfrægð árið 2013 með bók sinni Capital au XX1e siècle [Auðmagnið á 21. öld], stórvirki sem hefur verið þýtt á 40 tungumál, þó ekki íslensku, og selst í ríflega 2,5 miljónum eintaka. Þar sýnir höfundur hvernig tekjur og eignir hafa runnið til fámennrar yfirstéttar og að í reynd sé búið að byggja upp erfðaaðal að nýju, enda skiptir ætt, tengslanet og uppruni meira máli en gæfa og gjörvileiki. Þetta nýja verk, Capital et idéologie [Auðmagn og hugmyndafræði], er ekki síðra. Þar fjallar hann um hugmyndafræðina að baki auðsöfnuninni og þörf ráðandi stéttar til að réttlæta ójöfnuðinn, bæði fyrir sjálfri sér og öðrum. Piketty sagði á kynningarfundi um nýju bókina að ef hann þyrfti að velja milli þeirra tveggja mundi hann mæla með þeirri nýju. Hún væri bæði léttari og skemmtilegri, og tæki auk þess á sömu viðfangsefnum og hin fyrri en gengi talsvert lengra.
Verkið Auðmagn og hugmyndfræði er u.þ.b. helmingi lengri en fyrri bókin, Auðmagnið á 21. öld, eða 1200 síður, auk ríkulegs ítarefnis á heimasíðu Pikettys. Bókin hefur að geyma fjölda myndrita, sem spanna langt tímabil og mörg lönd. Samræming talna milli tímabila í eigin landi krefst mikillar vinnu (sbr. Hagskinna, sem Hagstofa Íslands gaf út í ritstjórn Magnúsar S. Magnússonar og Guðmundar Jónssonar 1997), hvað þá milli landa. Í þessu verki er gengið skrefinu lengra en í Hagskinnu, þ.e. byggt á öllum tiltækum tölum en síðan eru tölur reiknaðar og áætlaðar út frá því á samræmdan hátt. Þar liggur meginvinna höfundar og nýtur hann þar tryggrar aðstoðar, sbr. Annexe technique á heimasíðu Pikettys, og svo stofnun um ójafnræði í heiminum: THE WORLD INEQUALITY LAB, sem helstu hagfræðingar í fræðunum hafa sameinast um. Frá Parísarskólanum í hagfræði sitja í stjórn með Piketty þeir Facundo Alvaredo og Lucas Chancel en frá Berkeley-háskólanum í Kaliforníu eru þeir Gabriel Zucman og Emmanuel Saez. Þetta er gífurlegt magn upplýsinga en hafa skal í huga að sumt af því hefur birst í fyrri bókinni: Auðmagnið á 21. öld.
Bókin Auðmagn og hugmyndfræði skiptist í fjóra hluta, auk inngangs og niðurstöðukafla. Hver hluti skiptist í marga undirkafla. Þetta er þungur og mikill gripur sem ekki er hægt að kippa með sér upp í rúm, hvað þá lesa frá upphafi til enda í einni lotu, en það er gott að byrja á að skoða efnisyfirlitið og sjá hvað freistar manns helst. Svo er best að byrja á niðurstöðukaflanum, sem er aðeins 7 síður, og innganginum, 56 síður. Þá eru menn komnir með góða tilfinningu fyrir verkinu og geta farið að skoða myndir og töflur og síðan lesið það sem helst vekur forvitni en höfundur vísar fram og aftur fyrir sig í verkinu og einnig er skírskotað til Auðmagns á 21. öld.
Hér er ætlunin að auðvelda lesendum lesturinn og bæta við upplýsingum um Ísland en það sýnir enn betur gildi verksins. Þær upplýsingar byggi ég á MA-ritgerð minni í hagsögu: Frá tíund til virðisauka. Saga skatta og kvaða frá upphafi til vorra daga, sem má finna á Landsbókasafninu (1996), og MSc ritgerð minni í hagfræði. Molding the Icelandic Tax System, dealt with taxation, administration, budgeting rules, tax evasion, special interest groups and corruption (2014). Fyrir þá sem ekki lesa frönsku má geta þess að bókin kemur út á ensku í mars 2020.
Eins og áður sagði er þetta mikið verk, heilar 1200 síður, það skiptist í fjóra hluta, fyrir utan inngang þar sem gerð er grein fyrir verkinu:
- Fyrsti hluti: Ójöfnuður í sögulegu ljósi-176 bls.
- Annar hluti: Þrælahald og nýlendustefna, forsenda samfélags-242 bls.
- Þriðji hluti: Byltingin mikla á 20. öld-348 bls.
- Fjórði hluti: Forsendur pólitísks ágreinings endurskoðaður-356 bls.
Í inngangi gerir höfundur grein fyrir verkinu og bendir á að hvert samfélag réttlætir samfélagsgerð sína með tilvísun í lög og reglu. Ekki megi hrófla við samfélagsgerðinni eða breyta tekjuskiptingunni af ótta við allsherjarhrun. Í samfélagi samtímans er einkum um að ræða þætti sem varða eignarhald, frumkvæði og hæfni. Misrétti nútímans er sanngjarnt þar sem það leiðir af valkvæðu ferli og þar sem allir eiga að hafa sömu möguleika til aðgengis að markaðinum og að eignarhaldi. Þar njóta allir jafnt og sjálfkrafa góðs af uppsöfnun hinna auðugustu, en þeir sýna mesta frumkvæðið og mestu hæfnina og gera mest gagn. Þetta ætti að vera andstæða við ójöfnuðinn í fornum samfélögum sem hvíldi á mismunandi og óhagganlegri stöðu, einræði og jafnvel gerræði.
Misrétti nútímans einkennist hins vegar af alls kyns venjum sem mótast af mismunun og ójöfnuði. Þessar venjur helgast af stöðu, kynþætti og trúfélagi þess sem fyrir þeim verður. Téðar venjur endurspegla ekki beinlínis ævintýrið um forgang þeirra hæfustu, og með þeim stöndum við nærri því forna misrétti sem við þykjumst hafa snúið við baki. Hér nefnir Piketty máli sínu til stuðnings þann mismun sem heimilislausir verða fyrir, þeir sem eru frá tilteknum hverfum stórborga eða af tilteknum uppruna. Einnig nefnir hann þá innflytjendur sem drukkna án þess að þeim sé komið til bjargar. Frammi fyrir þessum mótsögnum segir hann að okkur skorti nýja, trúverðuga, altæka heildarsýn sem miðast við jafnrétti, og því er ástæða til þess að óttast að æ oftar verði beitt sjálfhverfu og þjóðernishyggju til þess að breiða yfir skortinn á slíkri heildarsýn, eins og gerðist reyndar í Evrópu á fyrri hluta tuttugustu aldar, og eins og vart verður við nú í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar í ýmsum heimshlutum.
Með fyrri heimsstyrjöldinni upphófst hreyfing til tortímingar og endurskilgreiningar á mjög ójafnræðislegri heimsvæðingu verslunar og viðskipta á tímabilinu sem kennt er við „Belle Époque“ (1880-1914), en það tímabil var ekki fagurt nema kannski í samanburði við þá öldu ofbeldis sem fylgdi í kjölfarið segir hann, og bætir svo við að í raun hafi það aldrei verið fagurt nema helst fyrir jarðeigendur, ekki síst hvíta landeigendur.
Það er vel hægt að taka undir þetta. Á Íslandi var þetta t.d. eitt mesta hörmungartímabil í sögu þjóðarinnar og er af nógu af taka. Það hefst með frostavetrinum mikla 1881 þegar frost í janúar var um 30 gráður um allt land ásamt miklu roki en snerist síðan upp í pólitíska kreppu. Stjórnvöld létu efnahagsmálin reka á reiðanum en nú komst fólk í burtu með góðu móti og flutti hér um bil fimmti hver Íslendingur til Vesturheims á þessu tímabili, flestir til Kanada.
Ljóst er að Piketty vill breyta samfélaginu í átt til jafnaðar, sanngirni og sjálfbærni, bæði milli ríkja sem og innan ríkja. Hann bendir á hættuna sem stafar af „pópúlisma“ og útlendingahatri, en hreyfingar sem hampa slíkri hugsun vinna allsstaðar á í kosningum. Ofurkapítalisminn og tölvuvæðing áranna 1990 til 2020 ýtir undir þetta og gæti orðið kveikjan að nýrri heimstyrjöld, segir hann.
Thomas Piketty er baráttumaður og misréttið er honum tilefni til bókaskrifanna en á hvaða hugmyndafræði byggir hann verk sitt?
Hann notar hugtakið hugmyndafræði á jákvæðan og uppbyggilegan hátt, og á þá við kerfi hugmynda og orðræðu, sem er tækt þar til annað kemur í ljós, og sem miðar að því að lýsa því hvernig byggja megi samfélagið upp. Einkum á hann við félagslegar hliðar hennar, efnahagslegar og pólitískar. Með öðrum orðum notar hann hugmyndafræðina, eins og heimspekingarnir forðum, til að svara spurningunni um hvað hvernig samfélagið skuli vera.
Hann gerir sér þó grein fyrir því að engin ein hugmyndafræði gengur upp fyrir öll samfélög, hvað þá fyrir alla einstaklinga, hins vegar þarf að taka hugmyndafræðina alvarlega. Misrétti er ekki efnahagslegt eða tæknilegt. Það er hugmyndafræðilegt og pólitískt, sbr. íslenska orðið þjóðmegunarfræði, sem lengi vel var notað í stað orðsins hagfræði, en Piketty leitar í söguna. Eflaust er það augljósasta niðurstaða þeirrar sögulegu skoðunar sem kynnt er í þessu riti. Með öðrum orðum eru markaðurinn og samkeppnin, ágóðinn og launin, fjármagnið og skuldin, menntaðir og ómenntaðir launamenn, heimamenn og útlendingar, skattafylgsni og samkeppnishæfi í rauninni ekki til. Um er að ræða tilbúin fyrirbæri, félagsleg og söguleg, sem eru alfarið háð lagakerfinu, skattkerfinu, menntakerfinu og stjórnmálakerfinu sem menn kjósa að koma sér upp og þeim flokkunarkerfum sem menn leggja sér til. Þetta val, segir Piketty, vísar fyrst og fremst til þeirra hugmynda sem hvert samfélag gerir sér um félagslegt réttlæti og sanngjarnt efnahagslíf, og um pólitískt og hugmyndafræðilegt kraftvægi milli mismunandi hópa, svo og orðræðunnar hverju sinni. Mestu skiptir að slíkt kraftvægi er ekki aðeins efnislegt, heldur er það fyrst og fremst vitsmunalegt og hugmyndafræðilegt. Með öðrum orðum eru það hugmyndir og hugmyndafræði sem móta söguna. Þær gera mönnum ávallt kleift að hugsa sér nýja heima og skipuleggja þá, svo og ólík samfélög. Alltaf eru til margar leiðir að settu marki.
Í fyrstu tveimur hlutum bókarinnar skoðar höfundur sögu misréttisstjórnarfars til langs tíma litið með það fyrir augum að varpa ljósi á þá flóknu og margslungnu ferla sem leiddu til þess að þrískipt samfélög (leiguliðar, aðall og prestar) liðu undir lok á nítjándu öld og við tóku samfélög jarðeigenda. Í fyrsta hlutanum lítur hann einkum til evrópskra samfélaga þar sem tign og heiður raðaði mönnum í þjóðfélagsstiganum, en þau breyttust síðar í samfélög jarðeigenda.
Þjóðfélagsskipanin kemur skýrt fram á mynd 1.1, sem sýnir Frakkland, Spán og Indland. Ég hef bætt þar við samsvarandi upplýsingum um Ísland. Myndin sýnir hlutfall presta og aðals af heildarfjölda fullorðinna karlmanna og, eins og sjá má á mynd 1.1, er stéttaskiptingin á Íslandi mjög sambærileg við Frakkland. Meirihluti landsmanna, eða um 96%, eru fátækir leiguliðar. Ekki er heldur mikill munur á æðstu stéttinni á Indlandi 1880 (bramínar forn prestastétt og kshatrýar forn stétt hermanna) og á Spáni 1750.
Í öðrum hlutanum eru skoðuð nýlenduríki og ríki þar sem stundað var þrælahald. Einnig er þar kannað hvernig þrískipt samfélög utan Evrópu mótaðist af kynnum þeirra við stórveldi Evrópu.
Á mynd 7.2 má sjá tekjuskiptinguna á þeirra sem hafa lægstu tekjurnar, millistéttarinnar og 10% þeirra tekjuhæstu, jafnframt sem myndin sýnir muninn milli nýlenduríkja (Frakkland) og ríkja þar sem þrælahald viðgengst (Alsír og Haítí). Ég bætti við samsvarandi upplýsingum fyrir Ísland. Hópurinn sem telur 15% tekjuhæstu einstaklinga árið 1927 hefur 81% allra tekna í landinu og greinilegt að Ísland samsvarar sér vel með þeim ríkjum þar sem þrælahald viðgengst en verkamenn í skilningi orðsins í dag voru ekki til á Íslandi á þessum tíma heldur voru þetta í reynd réttindalausir leiguliðar. Þetta kemur í reynd betur í ljós á mynd 7.3 en hún sýnir yfirlit þess hundraðshluta sem hæstar hefur tekjur í sögulegu samhengi og í nýlendum.
Þar kemur skýrt fram að hlutur þess hundraðshluta (1%) sem hæstar hafa tekjurnar er lægstur í Svíþjóð árið 1980, eða rúmlega 4%; í Evrópu lækkaði þetta hlutfall úr 25% árið 1910 í 11% árið 2018. Í ríkjum þar sem þrælahald viðgengst (Alsír, Tansanía o.s.frv.) er hlutfallið mun hærra, eða frá 26% í Kamerún árið 1945 í 36% í Sambíu 1950. Ég hef bætt við samskonar tölum um Ísland. Árið 1927 hefur tekjuhæsti prósentið 35% allra tekna í landinu (170 fjölskyldur) og hafði þá heldur lækkað m.v. árin næst á undan. Þess má geta að í lok 17. aldar átti tekjuhæsta prósentið 24% allra eigna á Íslandi en tekjurnar voru fast hlutfall af eignum. Tekjuhæsta prósentið hafði því frekar bætt við sig á 250 árum en slíkt er algengt meðal ríkja sem hafa verið undir erlendri stjórn þegar hinn innlendi aðall tekur völdin. Í Bandaríkjunum er hlutur þess prósents sem hæstar hefur tekjur 22% af heildartekjunum árið 2018 og 18% á Íslandi árið 2007, rétt fyrir Hrunið en hlutfallið datt þá niður. Allt virðist hins vegar stefna á að hlutur ríkasta prósentsins á Íslandi verði a.m.k. eins og í Bandaríkjunum ef fram fer sem horfir.
Í þriðja hlutanum er fjallað um kreppu í samfélögum jarðeigenda og nýlenduríkja á tuttugustu öld, einkum í ljósi heimsstyrjaldanna og uppgangs kommúnismans, og sagt frá því hvernig tilkoma tekjuskattsins breytti samfélaginu og skóp velferðarþjóðfélagið. Einkum vísar hann þar til New Deal í Bandaríkjunum á fjórða áratugnum og til stofnunar heilbrigðiskerfisins á Bretlandi (NHS) sem Bretar óttast nú að missa. Í báðum þessum ríkjum var ríkisfjármálunum beitt af mikilli dirfsku, einkum með háum tekjuskatti, sjá mynd 10.11.
Á myndinni má sjá hvernig tekjuskattprósentunni er beitt. Bæði í Bretlandi og í Bandaríkjunum nær hún hámarki frá 1930 og fram undir 1980. Ég hef bætt við upplýsingum um Ísland og má sjá svipaðar tölur fyrir árin 1935 og fram undir 1960 þegar reynt var að leggja tekjuskatt af á Íslandi.
Í þessum hluta verksins sýnir hann einnig áhrif fjármagnsflutninga til skattafylgsna á tekjudreifingu, einkum í Rússlandi, og segir þá vera höfuðorsök ójafnaðar þar í landi. Á tímabilinu 1993 til 2018 voru að jafnaði 10% landsframleiðslunnar flutt í skattafylgsni, sem samsvarar um tveimur og hálfri landsframleiðslu yfir tímabilið. Tölur fyrir Ísland í aðdraganda Hrunsins eru samsvarandi, þ.e. 10% á ári að jafnaði. Nú hefur hins vegar dregið úr fjármagnsflutningum frá Rússlandi og ójöfnuðurinn þar í landi kominn á par við Bandaríkin. Ójöfnuðurinn í Evrópu er minni en í þessum löndum. m.a. vegna þessa.
Í fjórða hlutanum er athugun á því við hvaða skilyrði endurreisn þjóðfélaga getur átt sér stað og hugsanleg umskipti í veröld að loknum nýlendutímanum á nýrri öld eigenda í lok tuttugustu aldar og upphafi þeirrar tuttugustu og fyrstu. Þar skoðar Piketty hvernig tekist er á um stjórnmál og hugmyndafræði á öld lýðræðis og almenns kosningaréttar til að byggja réttlátara samfélag með sanngjarnari efnahag og birtast þau átök í mótmælum og byltingum, í bitlingum og bókum. Þau birtast líka í kjörkassanum, í gegnum flokka og samfylkingar þar sem menn greiða atkvæði, einkum út frá eigin heimssýn og pólitískri og fjárhagslegri stöðu hvers og eins. Sumir velja líka að kjósa ekki og er það út af fyrir sig upplýsandi. Í öllum þessum tilvikum vitna þessir gjörningar við kosningar um pólitískar skoðanir og þróun þeirra. Piketty tekur fram að þetta séu ófullkomnar vísbendingar og vandtúlkaðar en þær eru þó ríkulegri og kerfisbundnari en dæmi eru um í samfélögum þar sem ekki er gengið til kosninga. Þar skiptir auðvitað höfuðmáli að á bak hvert atkvæði er einn maður, sbr. nýja stjórnarskráin sem Alþingi hefur ekki enn lögfest, en ákvörðun um skatta liggur hjá þjóðþingunum. Hérlendis hafa að auki verið ýmsar aðrar bremsur á lýðræðinu í gegnum söguna en vægi atkvæða, eins og skipting Alþingis í efri og neðri deild og svo konungskjörnir/landskjörnir þingmenn.
Piketty athugar líka hvernig „stéttbundin“ uppbygging pólitísks ágreinings eins og hún birtist í kosningum gjörbreyttist milli sósíaldemókratíska skeiðsins á árunum 1950 til 1980 skeiðs ofurkapítalískrar heimsvæðingar á árunum 1990 til 2020. Á fyrra tímabilinu fundu alþýðustéttir hljómgrunn í ýmsum flokkum sósíalista, kommúnista, verkalýðs, demókrata og sósíaldemókrata, sem þá mynduðu vinstri væng stjórnmálanna í lýðræðisríki. Þannig var því ekki lengur háttað á síðara tímabilinu, þegar þessir flokkar eru flokkar þeirra sem best eru menntaðir, og stundum virðist sem þeir séu að verða flokkar þeirra sem hæst hafa launin og mestar eiga eignirnar. Þessi þróun, bendir Piketty á, er til marks um það meðal annars að sósíaldemókratískri samfylkingu eftirstríðsáranna hefur ekki tekist að endurnýja grunninn að áætlunum sínum, einkum hvað varðar skattheimtu, menntun og alþjóðleg mál. Þessar breytingar eru líka sönnun þess að uppbygging jafnaðarfylkingar er árangur flókins ferlis hvað varðar stefnu og hugmyndafræði. Kjósendur skiptast í mörg horn eftir félagslegum og hugmyndafræðilegum átakalínum, ekki síst varðandi landamörk og eignarrétt, og ekki er hægt að komast fram hjá þeim nema með sértækum félagslegum og sögulegum aðferðum, stefnumótun og hugmyndafræði til þess að komast yfir þessa hjalla og sameina í eina heild alþýðustéttir af ýmsum uppruna hvort heldur úr borgum eða sveitum, launamenn eða ólaunaða, heimamenn eða aðkomumenn, og þar fram eftir götunum.
Í lok fjórða hlutans tekur Piketty saman hugmyndir sínar um skattkerfi til að fjármagna velferðarþjóðfélagið og breyta samfélaginu. Hann gengur út frá að hið opinbera þurfi um 50% af landsframleiðslunni. Með öðrum orðum að önnur hver króna fari í sameiginlega neyslu, sem er svipað og tíðkast í Skandinavíu en heldur minna en í Frakklandi í dag. Hann er ekki ýkja hrifinn af óbeinum sköttum (eins og vaski), telur þá falla þyngst á þá tekjulægstu. Hann vill heldur hækka eignaskatta og erfðaskatta og tekur þar undir með John Stuart Mill, sem ekki var par hrifinn af silfurskeiðungum í sínum fræðum og lagði áherslu á jafnræði einstaklinga. Menn eiga að byrja á sama stað í tilverunni sagði hann. Piketty vill að stighækkandi eignaskattar og erfðafjárskattar standi undir um 5% af sameiginlegri neyslu, svo eiga 45% að fást með stighækkandi tekjuskatti og skal hann nema allt að 90% af þeim tekjum sem eru 10.000 sinnum hærri en meðaltekjur. Hafa skal í huga að hér er átt við allar tekjur, líka fjármagnstekjur. Þennan háa skatt rökstyður hann m.a. út frá mynd 10.11 og vill meina að það sé samsvörun á milli hárra skatta, jafnra tekna og hagvaxtar, og þótt hann taki skýrt fram að þessar hugmyndir séu aðeins til viðmiðunar til að ýta umræðunni af stað—sem hann gerir svo sannarlega með þessu verki—og þær þurfi að máta og prófa á marga vegu finnst mér hann hefði mátt orða hugsun sína hér skýrar og taka af öll tvímæli um vensl skattstiga, jafnra tekna og hagvaxtar. Skattstiginn, einn og sér, segir lítið um hagvöxtinn eða jafnari tekjur. Tekjuhugtakið var líka mun þrengra á tímabilinu 1930 til 1980 heldur en það er núna, og það hafði alls ekki sömu skírskotun allan þennan tíma. Háir tekjuskattar vilja iðulega lenda á þeim sem gefa allt upp til skatts. Þeir, sem hæstar hafa tekjurnar, flytja þær hins vegar í skattafylgsnin eins og dæmin sanna.
Höfundur er hagfræðingur og sagnfræðingur.