Það geta verið margar ástæður fyrir því að fyrirtæki sameinist eða eru yfirtekin. Í flestum tilfellum er hvatinn fyrir sameiningu efnahagslegur og markmiðið getur t.d. verið að öðlast samkeppnisforskot, auka markaðshlutdeild eða lækka kostnað. Einnig getur sameining verið nauðsynleg til að halda lífi á markaðnum. Það getur m.a. átt við í efnahagslægðum eða þegar atvinnugreinar eru að renna saman í eina.
Þegar samruni á sér stað er eitt af verkefnunum að taka ákvörðun um hvaða nafn/vörumerki sameinað félag á að nota. Það getur verið flókið ferli og oft þvælast tilfinningar fyrir í ákvarðanatökunni. Þarna er mikilvægt að vanda vel til verks og þá sérstaklega ef vörumerkin hafa sterka ímynd og mikla vitund á markaðnum.
Í þessari grein ætla ég að fjalla um helstu leiðir sem eru í boði þegar þessi staða kemur upp.
Hvað á sameinað félag að heita?
Til að byrja með er mikilvægt að hafa góða yfirsýn og átta sig á því hvaða áhrif sameiningin getur haft á viðskiptavininn, starfsmenn og aðra hagsmunaraðila s.s fjárfesta. Einnig þarf að hafa skýra sýn á markmiðinu með sameiningunni og hvert á að stefna.
Á myndinni hér að neðan má sjá fjórar leiðir sem hægt er að fara þegar samruni/yfirtaka á sér stað en þær eru: engin breyting, samþætting, sterkara vörumerkið notað eða nýtt vörumerki.
1. Engin breyting
Haldið er áfram að byggja upp og viðhalda vörumerkjum fyrirtækjanna sem eru að sameinast. Það átti til dæmis við þegar Hagkaup keypti Bónus árið 1992 og hefur haldist til dagsins í dag í megin dráttum.
2. Samþætting vörumerkja
Samþætting talar til viðskiptavina þeirra vörumerkja sem verið er að sameina og getur mildað áhrifin af samrunanum. Starfsmönnum fyrirtækjanna finnst þeir eiga eitthvað í sameiginlegu fyrirtæki og skilaboð til markaðarins eru stöðugleiki og samþætting. Það er hægt að fara nokkrar leiðir við að samþætta vörumerki. Hér fyrir neðan eru tvö dæmi.
Þegar Nox Medical og FusionHealth sameinuðust í fyrra var ákveðið að blanda nöfnunum saman og útkoman var Nox Health.
Nox Medical + FusionHealth = Now Health
Árið 2016 keypti 365 fjarskiptafyrirtækið Tal og þar var ákveðið að blanda saman nafni 365 og lit Tals til að ná fram samþættingu á vörumerkjunum.
Hér er áhugaverður punktur varðandi þessa leið:
Viðamikil rannsókn var gerð í Bandaríkjunum á 216 stórum samrunum sem áttu sér stað á árunum 1997 til 2006. Markmiðið með rannsókninni var að kanna hvort að samrunar og yfirtökur skiluðu hærra hlutabréfaverði en meðaltal markaðarins.
Fyrirtæki sem samþættu vörumerkin skiluðu 3% betri niðurstöðu að meðaltali en heildar markaðurinn. Sameiningar sem gerðu engar breytingar á vörumerkjum eða notuðu sterkara vörumerkið skiluðu töluvert verri árangri en meðaltalið á markaðnum.
Fylgst var með hlutabréfaþróun í þrjú ár eftir að samruninn átti sér stað og niðurstaðan var sú að sameiningar sem samþættu vörumerkin skiluðu 3% betri niðurstöðu á hlutabréfamarkaðnum borið saman við meðaltalið á heildar markaðnum.
3. Sterkara vörumerkið heldur velli
Þessi nafnastefna felur í sér að sterkara vörumerkið er notað áfram en hitt lagt niður. Það var til dæmis gert þegar Kvika keypti Virðingu árið 2017. Sameinað félag starfaði undir nafni og kennitölu Kviku eftir sameiningu.
Þessi nafnastefna er oft notuð þegar annað vörumerkið er mun sterkara hvað varðar ímynd og vitund. Yfirleitt heldur vörumerkið sem stendur að kaupum eða yfirtöku velli en er það þó alls ekki algilt. Stundum hefur það komið fyrir að „minna" vörumerkið verði fyrir valinu á kostnað „stærra" vörumerkisins. Ástæðan getur t.d. verið sú að „stærra" vörumerkið eigi við orðsporsvandamál að stríða sem erfitt er að leysa. Ef notast á við sterkara vörumerkið er stundum gott að „hressa" upp á það við sama tilefni. Það er tilvalið þegar undirstrika á breytingar í kjölfar sameiningar t.d. með því að kynna nýtt tákn, nýja litapallettu eða nýtt slagorð. Ókostir þess að hætta með annað vörumerkið eru helst þeir að viðskiptavinir þess geta verið líklegri til að leita annað. Einnig getur dregið úr starfsánægju hjá starfsmönnum vörumerkisins sem lagt er niður þar sem þeir geta dregið þá ályktun að staða þeirra innan fyrirtækisins sé ógnað.
4. Nýtt vörumerki
Að byrja frá grunni með nýtt nafn og vörumerki er leið sem skoða þarf vel áður en ákvörðun er tekin. Ljóst er að vörumerkjavirði mun tapast þar sem hætt verður að nota núverandi vörumerki. Að byggja upp nýtt og öflugt vörumerki frá grunni tekur tíma og kostar peninga. Það getur hins vegar verið góður kostur að búa til nýtt vörumerki þegar atvinnugreinin sem fyrirtækið starfar í er að takast á við miklar breytingar. Markmiðið er þá að gefa skýrt merki um að sameinað fyrirtæki ætli sér að taka þátt í þessum breytingunum eða jafnvel að leiða þær. Gott dæmi hér á landi er sameining Nýherja, Applicon og TM Software undir nafninu Origo árið 2018.
Höfundur er ráðgjafi hjá Brand Huxland. Hægt er að hafa samband við Guðmund með því að senda tölvupóst á gudmundur@huxland.is