Í Silfrinu á sunnudaginn og í umfjöllun Kjarnans sama dag kom fram að Guðrún Svanhvít Magnúsdóttir, bóndi og fulltrúi í sveitarstjórn Bláskógabyggðar, telur að samtalið um það hvort stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu væri skynsamlegur kostur hafi „aldrei farið fram“.
Guðrún Svanhvít talaði eins og frumvarpsdrög umhverfisráðherra um stofnun hálendisþjóðgarðs hefðu komið sveitarstjórnarmönnum á Suðurlandi í opna skjöldu.
Undirritaður sat í nefnd sem Sigrún Magnúsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, skipaði síðsumars 2016 um forsendur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Nefndin skilaði áliti í nóvember árið eftir. Í nefndinni áttu sæti 8 fulltrúar ólíkra hagsmuna, auk formanns, þar á Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, og Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, bæði tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Lokaskýrslu þeirrar nefndar var skilað til umhverfisráðherra 8. nóvember 2017. Í henni er meðal annars farið yfir helstu sjónarmið sem fram komu á fundum umhverfisráðuneytisins með sveitarstjórnum sem eiga land að miðhálendinu.
Þverpólitíska nefndin leitaði samráðs í þrígang á samráðsgátt stjórnvalda.
Þverpólitíska nefndin sjálf hélt fjölmarga fundi víðsvegar um landið og rætt var við forystumenn allra þeirra 24 sveitarfélaga sem bera skipulagsábyrgð á miðhálendinu. Líkt og áður við svipuð tækifæri voru miklu fleiri kynningarfundir haldnir í fyrrgreindum sveitarfélögum en á höfuðborgarsvæðinu.
Það er því afar hæpið að halda því fram að skortur á samráði eða samtali skýri andstöðu sveitarstjórnarmanna á Suðurlandi við stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu.
Samtalinu ekki lokið
Umhverfisráðherra á enn eftir að mæla fyrir endanlegu frumvarpi um hálendisþjóðgarð. Að því loknu gefst öllum sem hagsmuna eiga að gæta tækifæri á að gera athugasemdir við frumvarpið við umhverfisnefnd Alþingis.
Hagsmunir höfuðborgarbúa
Í umsögn Reykjavíkurborgar um drög að frumvarpi um stofnun hálendisþjóðgarðs segir eftirfarandi:
Friðlýst svæði eru eign allra landsmanna og t.d. eru öll stór náttúruverndarsvæði staðsett utan höfuðborgarsvæðisins þar sem stærstur hluti landsmanna býr. Ákvarðanir um nýtingu og verndun náttúruverndarsvæða t.d. á hálendi Íslands varða ekki síður þá gesti sem heimsækja þau svæði (þ.m.t mikinn fjölda íbúa fjarlægra sveitarfélaga eins og frá Höfuðborgarsvæðinu) en íbúa heimabyggðar. Tryggja þarf að allir landsmenn og samtök þeirra geti haft aðkomu að ákvörðunartöku allra umdæmisráða með góðu, opnu og vel auglýstu samráði um öll áform og áætlanir.
Væntanlega munu þingmenn höfuðborgarsvæðisins gæta þessara hagsmuna.
Meirihluti styður þjóðgarð
Skoðanakannanir gefa til kynna að um 60% landsmanna styðji stofnun þjóðgarðs á hálendinu. Þessir sömu landsmenn „eiga“ hálendið til jafns við íbúa sveitarfélaganna sem liggja að miðhálendinu, enda segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að „Stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila. Skoðaðir verða möguleikar á þjóðgörðum á öðrum svæðum.“
Því skýtur skökku við að Guðrún Svanhvít Magnúsdóttir, fulltrúi í sveitarstjórn Bláskógabyggðar, telji niðurstöðu nefndarinnar árás á sjálfstæði landsbyggðafólks.
Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.