Hvað er auðlindarenta? Það er sá umframhagnaður, sem tilkominn er vegna nýtingar á takmarkaðri auðlind svo sem á fiskimiðum, orku, málmum og öðrum náttúruverðmætum að frádregnum öllum kostnaði við framleiðslu og nýtingu hvort heldur sem er á vinnuafli (launakostnaður), vinnslukostnaði, sölu- og útflutningskostnaði, endurnýjunarkostnaði mannvirkja og tækja, viðhaldskostnaði eða öðrum þeim kostnaði, sem framleiðsla og sala afurða, sem grundgrundvölluð er á nýtingu auðlinda, kallar á.
Hverjir teljast eiga íslenskar náttúruauðlindir og hverjir njóta arðs af þeim? Lengst af hefur arðurinn fallið einkaaðilum í skaut, en um eignarhaldið ríkti óvissa. Áratugum saman var það baráttumál okkar jafnaðarmanna að þjóðin eignaðist sjálf náttúruauðlindirnar. Til hvers? Til þess að hún, íslenska þjóðin, gæti fengið að njóta ávaxta af hagnýtingu þessara auðlinda en ekki bara einhverjir aðrir; einstaklingar eða félög.
Stóðum lengst af einir
Þegar ég fyrst settist inn á Alþingi árið 1974 lágu þar fyrir ýmis mál um þjóðareign náttúruauðlinda, m.a. mál flutt af Braga Sigurjónssyni, alþingismanni Alþýðuflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra. Við Bragi ásamt Jóni Ármanni Héðinssyni, alþingismanni Alþýðuflokksins í Reykjarneskjördæmi og fleiri Alþýðuflokksþingmönnum fluttum þessi mál áfram og ítrekað – m.a. frumvörp til laga um, að allt land utan afmarkaðra eignarlanda skyldi teljast þjóðareign. Ekki nokkurn stuðning frá þingmönnum annara þingflokka fengum við um slík mál. Skipti þá engu máli hvort heldur þeir töldust til vinstri afla á Alþingi, væru miðflokksmenn eða tilheyrðu hægri öflunum.
Við Alþýðuflokksmenn, jafnaðarmennirnir á Alþingi, stóðum einir um áratugi að flutningi mála um þjóðareign á náttúruauðlindum. Það var svo ekki fyrr en dró að lokum síðustu aldar, að við gátum knúið í gegn, sitjandi í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, að fiskimiðin við Íslandsstrendur skyldu vera sameign þjóðarinnar og það ákvæði var í lög fest. Eftir margra ára hlé tókst loksins líka að fá samþykkt Alþingis fyrir því, að allt land utan afmarkaðra eignarlanda skyldi teljast vera þjóðlendur, þ.e. skoðast sem eign þjóðarinnar. Mikil vinna hefur nú farið fram um áraraðir hvernig og hvar skuli skilgreina mörk eignarlanda og þjóðlendna og hefur sú vinna skilað þjóðinni árangri.
Eftirsótt leyfi til nýtingar
Aðgangur að og heimildir til nýtingar náttúruauðlinda eru takmörkuð af handhöfum þjóðarvaldsins; af Alþingi og ríkisstjórn. Þeir, sem hyggjast nýta þær auðlindir þurfa að sækja sér heimild til íslenska ríkisins og öll slík leyfi eru takmörkunum háð enda geta þau verið ávísanir á umtalsverða tekju- og auðsköpun þeirra sem nýta – en geta líka valdið skelfilegum búsifjum ríkis og þjóðar séu þau ranglega nýtt. Eðlilegt og sjálfsagt er, að þeir, sem fá slíkan aðgang, gjaldi fyrir það með með sama hætti og þeir, sem fá leyfi til þess að hagnýta sér eigur annara.
Slík leiga hefur hins vegar fram að þessu ekki verið innheimt fyrir nýtingarrétt á takmörkuðum náttúruauðlindum Íslands nema fyrir nýtingu fiskimiðanna. Sú var hins vegar eindregin afstaða okkar, jafnaðarmanna í Alþýðuflokknum, að gjald ætti að greiða fyrir nýtingu allra auðlindanna. Ég vona, að þau viðhorf eigi sér enn málsvara á Alþingi. Að svo sé skiptir þjóðina miklu meira máli en að fá upplýst hvort einhverjir tilteknir þingmenn mæti mikið eða lítið of seint á nefndarfundi.
Niðurstöður Þórólfs og Eyjólfs
Veiðigjöld sem hlutfall af auðlindarentunni í sjávarútvegi komu einna fyrst til álita árið 1991, en þá tók við af samblöndu kvóta- og sóknarmarkskerfis alhliða kvótakerfi með framsalsrétti. Í þeim kafla af úttekt þeirra Þórólfs Matthíassonar og Eyjólfs Sigurðssonar á málefnum fiskveiðiauðlindarinnar, sem náði yfir árin 1980 til ársins 2005, kemur m.a. fram, að afli á Íslandsmiðum hafi vaxið mjög á þessu árabili, einkum afli uppsjávartegunda, en að afli botnlægra tegunda hafi að mestu staðið lítt breyttur. Eftir árið 2005 hafi afli uppsjávartegunda dvínað mjög uns makríllinn rataði á Íslandsmið.
Ekki finn ég í frásögn af úttekt þeirra hver auðlindarentan hafi verið hvert ár fyrir sig á þessum árum. Hins vegar segir þar, að á árinu 2008 hafi hlutur veiðigjalds af auðlindarentu aðeins numið 0,8% og árið 2010 aðeins 4,95%. Handhafar fiskveiðikvótans hafa því haldið eftir í eigin þágu 98,2% af auðlindarentunni árið 2008 og 95,05% af auðlindarentunni árið 2010 – en þetta eru þau ár sem íslenski ríkissjóðurinn og íslenskur almenningur þurfti mest á aðstoð að halda sakir hrunsins, sem Svein Harald Öygard, fyrrum seðlabankastjóri, segir að sé eitt mesta efnahagsáfall, sem nokkur þjóð hafi mátt þola. Á þessum árum segja þeir Þórhallur og Eyjólfur að útgerðarmenn hafi úthlutað sér 54,3 ÞÚSUNDUM MILLJÓNUM KRÓNA í arð en greitt aðeins 18,3% af auðlindarentunni til íslensku þjóðarinnar. Öllum afgangi var haldið fyrirtækjum til handa.
Niðurstöður Stefáns Gunnlaugssonar
Stefán B. Gunnlaugsson, dósent við Háskólann á Akureyri, hefur svo miðlað nýjum upplýsingum um auðlindarentuna og hvað af henni hefur orðið. Það gerði hann í Þjóðarspeglinum í nóvember á s.l. ári og þangað sæki ég eftirfarandi niðurstöður. Auðlindarentan á árunum 2008 til 2017 var á milli 300 milljóna dollara (37,5 milljarðar íkr) árið 2008 upp í 540 milljónir dollara (67,6 milljarðar íkr) árið 2011 en hafði farið niður í ca. 110 milljónir dollara (13,7 milljarða íkr) árið 2017. Á þessu árabili – frá 2008 til 2017 – nam auðlindatrentan í sjávarútvegi samkvæmt þessu mati samtals 3,8 þúsund milljónum dollara – eða 477,5 ÞÚSUND MILLJÓNUM ÍSLENSKRA KRÓNA. – og það á aðeins TÍU ÁRUM!!! Í hverra höndum lenti svo öll þessi auðlegð? Þrír aðilar njóta hennar, segir Stefán. Þeir eru: Ríkið, sem fær veiðigjöld og hærri tekjuskatt, kvótasalar (þeir sem fengu veiðiheimildirnar (kvótann) upphaflega en hafa selt veiðiheimildir sínar endanlega) og svo þau útgerðarfyrirtæki, sem starfandi eru í greininni.
Þessir aðilar eru í hópi allra stærstu fjárfesta á Íslandi og þeir fjárfesta bæði innanlands og utan í margvíslegum og oft ólíkum verkefnum og fyrirtækjum auk þess sem Panamaskjölin leiddu í ljós, en þau lengi verið til rannsóknar en lítið fréttist af þeirri rannsókn. Seðlabankinn opnaði svo leið til þess að koma með mikla fjármuni í erlendum gjaldeyri til landsins á miklu hagstæðara gengi en gilti fyrir allan almenning. Þeir, sem erlenda mynt áttu aflögu, gátu fengið hana flutta hingað til lands á afsláttarverði krónunnar og svo notað fé sitt til þess að kaupa á útsöluverði hrunáranna fyrirtæki og eignir annarra. Hverjir gerðu svo það? Það fæst ekki upplýst. Bannað að segja frá því!.
Er fortíðarsagan framtíðarspá
Það, sem hér hefur verið fjallað um, er saga liðinna tíma. Eru þeir stoltir af, sem á því bera ábyrgð? Víst er, að litlu er hægt að breyta um liðna tíð – en hvað um samtíð og framtíð? Á að halda áfram að ráðstafa eignum þjóðarinnar með þessum sama hætti og þeir Þórólfur, Eyjólfur og Stefán hafa upplýst um? Og hvað um aðrar auðlindir en fiskimiðin? Hver er auðlindarentan þar – og á að halda því áfram að heimila nýtingu á þeim auðlindum án leigugjalds?
Aðeins ein tilraun hefur verið gerð til þess að eigandi slíkra náttúruauðlinda, íslenska þjóðin, njóti arðs af eign sinni. Það var þegar til stóð að innleiða náttúrupassann. Hverjir lögðu það til? Sjálfstæðismenn. Hverjir ónýttu það? M.a. áberandi forystumenn Vinstri grænna. Af hverju gerðu þeir það? Vegna þess að ekki bara útlendir ferðamenn áttu að gjalda eiganda auðlindarinnar, íslensku þjóðinni, leigugjald fyrir afnotaréttinn heldur áttu íslenskir ferðamenn líka að taka þátt í því, en þó í miklu minna mæli en útlendingarnir.
Svona öfugsnúin getur íslenska pólitíkin verið. Hvað ferðamannaiðnaðinn varðar er allt í lagi að útlendingar borgi leigugjald fyrir aðgang að auðlindum í eigu þjóðarinnar, en ef Íslendingar eiga að taka takmarkaðan þátt í því þá má það hreint aldeilis ekki. Það er víst ekki “rétta vinstrið” og auk þess afskaplega lítið grænt! Og hvað um afnotaréttinn að auðlindum orku fallvatna og jarðhita, að orku vinds og að náttúruauðlind íslensku fjarðanna fyrir fiskirækt? Hvert er þá svarið? Svarið þar er, að hvorki megi ætlast til að útlendingar né Íslendingar, sem fá leyfi ríkisvaldsins til slíkrar nýtingar, greiði svo mikið sem einn eyri af auðlindarentu sinni til eigandans.
Aleinn um það?
Sú auðlindarenta, sem runnið hefur til fyrirtækja og einkaaðila bara í sjávarútvegi og sagt er frá hver orðið hefur í rannsóknum þeirra Þórólfs, Eyjólfs og Stefáns er ekkert smáræði. Ef aðeins er nefnd til sögunar sú auðlindarenta, sem á árunum 2007 til 2017 rann til þessara aðila þá myndi hún nægja til þess að greiða allan árlegan kostnað ríkisvaldsins við heilbrigðiskerfið, allan árlegan kostnað þess við menntakerfið, allan árlegan kostnað þess við almannatryggingakerfið sem og allan árlegan kostnað þess við vegi, samgöngur og verklegar framkvæmdir. Má ég svo ekki fá að ljúka þessum orðum með því að segja, að margt annað sé þarfara fyrir alþingismenn að gera en að upplýsa hvaða samþingmenn hafa mætt of seint á nefndarfundi eða hvaða þingmenn ferðist, hvert þeir ferðast, hversu langt, hversu oft og hvernig. Ég verð að segja, að ég sakna margra úr þingmannahópnum, sem þar hafa setið. Ætli ég sé aleinn um það?
Höfundur er fyrrv. þingmaður og formaður Alþýðuflokksins.