Hundar og menn. Besti vinur mannsins.
Hundurinn og maðurinn hafa þróast saman sem tegundir sem ekki geta án hvorrar annarrar verið. Í þúsundir ára hefur hundlaus fjölskylda verið undantekning en ekki normalástand. Hundar hafa þróast með þeim hætti að þeir bæta manninn upp – þeir hafa stórfenglega hæfileika sem manninn skortir og hann hefur stólað á til að ná árangri. Þróun siðmenningar án hunda er óhugsandi og nú á 21. öldinni hefur fólki enn ekki tekist að búa til tæki eða tól sem geta gert allt það sem hundar hafa hjálpað okkur með í þúsundir ára. Hundar hafa t.d. margfalt betri heyrn en við og sömuleiðis þefskyn. Hvoru tveggja hefur nýst manninum og tryggt öryggi hans og gerir enn. Fólk sér hins vegar almennt mun betur en hundurinn.
Hundar hafa í gegnum aldirnar aðstoðað menn við veiðar með því að þefa uppi bráð, elta og drepa og/eða sækja hana, hjálpað til við skepnuhald og búskap, haldið meindýrum frá mat og eigum fólks, tryggt öryggi fjölskyldunnar, heimilisins og bústofnsins, dregið sleða, gætt barna, fundið týnt fólk, nýtt matarleifarnar og varað fólk við náttúruhamförum svo eitthvað sé nefnt. Þeir hafa líka veitt okkur félagsskap og gleði og haldið hita á fólki (vissuð þið að eðlilegur líkamshiti hunda er milli 38-9°C – sem er einmitt afar heppilegt fyrir fólk sem er kalt á tánum).
Rannsóknir sýna að fólk sem á hunda er hraustara en aðrir og því líður betur. Það sefur og hvílist t.d. betur því hundur á heimilinu veitir mun meiri og dýpri öryggistilfinningu en nokkurt öryggiskerfi. Það hefur að meðaltali lægri og heilbrigðari blóðþrýsting og rannsóknir sýna að blóðþrýstingur lækkar og fólk róast þegar hundi er strokið. Það er í betri líkamsþjálfun því það fer í göngutúr daglega og er líklegra til að stunda heilnæma útivist. Börn sem alast upp með dýrum hafa sterkara ónæmiskerfi og fá síður ofnæmi. Fólk sem á hunda þjáist síður af þunglyndi og víða um heim eru hundar notaðir í meðferðarskyni. Sá sem á hund á alltaf vin sem elskar hann skilyrðislaust. Það er dýrmæt tilfinning.
Engin önnur tegund er eins næm á mannlega hegðun og líðan. Þegar hundur horfir á mannsandlit horfir hann meira á hægri hluta þess. Hægri hluti andlits okkar sýnir að jafnaði sterkari svipbrigði en sá vinstri. Þetta gerist ekki þegar hundar horfa framan í aðra hunda eða dýr. Hundar, líka litlir hvolpar sem aldrei hafa hitt fólk, skilja bendingar manna. Kannski þykir einhverjum það ekkert merkilegt en úlfar gera það ekki og heldur ekki mannapar, okkar nánustu frændur. Að sama skapi skilur fólk hunda. Við sem eigum hunda og erum vön að umgangast þá skiljum nákvæmlega hvað mismunandi boffs og gelt þýða, ekki bara hjá okkar eigin hundum heldur öllum hinum líka. Við vitum hvers vegna hundurinn sperrir eyrun, dillar skottinu og við kunnum líka að lesa í öll hin ótal smáatriðin. Fólks sem ekki er vant hundum kann það hins vegar ekki og það getur skapað hættu.
Á Íslandi varð einkennilegt rof á hundahaldi er þéttbýli byggðist hratt upp á 20. öldinni. Það varð til þess að ein, tvær eða jafnvel þrjár kynslóðir Íslendinga kunna ekki á hunda. Við höfum enn ekki náð að vinda ofan af því ástandi þrátt fyrir gríðarlega aukningu á útbreiðslu hunda í þéttbýli. Ég veit ekki hvers vegna hundarnir fylgdu fólkinu sínu ekki í þéttbýlið hér á landi eins og víðast hvar annarsstaðar. Hundar hafa verið hér á landi og verið ómissandi frá landnámi. Hugsanlega er sullaveikin skýringin á því hvers vegna hundar hafa verið tengdir óþrifnaði hér á landi langt umfram það sem ástæða er til. Kannski er það ástæðan fyrir því að þeir voru síður hafðir inni þegar leið á 20. öldina. Myndir úr gömlum ferðabókum frá 19. öld sýna að hundar voru inni við á þeim tíma. Önnur möguleg skýring er að þeir hundar sem voru í sveitum hér á landi hafi ekki hentað sérlega vel í þéttbýli. Hér voru einkum smalahundar sem hafa mikla hreyfiþörf og eru gjarna geltnir og framan af var bannað að flytja inn aðrar hundategundir. Hver sem ástæðan er þá var þróunin hér á landi allt önnur en víðast hvar annarsstaðar. Hundar voru hreinlega bannaðir í Reykjavík en nú er víðast hvar hægt að fá leyfi til að halda hunda hér á landi. Fyrir leyfið greiðum við hundaeigendur hátt gjald án þess að fá mikið í staðinn. Umboðsmaður Alþingis virðist sammála um að nokkuð óljóst sé fyrir hvað sé verið að greiða.
Á Íslandi eru hundaeigendur jaðarhópur sem hefur engin réttindi og þarf alltaf að víkja. Sú meginregla að allt sé leyfilegt nema það sé sérstaklega bannað á ekki við þegar kemur að hundahaldi á Íslandi. Hér er allt bannað nema það sé sérstaklega leyft en þó yfirleitt með stöngum skilyrðum, gjaldtöku og viðurlögum. Það sökkar að vera annars flokks borgari.
Flest lítum við á hundinn sem hluta af fjölskyldunni okkar en hann má ekki fylgja okkur í okkar daglega lífi. Það veldur ýmsum vandamálum. Hundar hér á landi eru margir hverjir meira einir en æskilegt er. Þeir eru félagsverur og þrá félagsskap manna. Þegar þeir komast svo loks út eru margir þeirra yfirtjúnaðir og æstir eftir langa ein- og inniveru. Og eigendurnir eru með stöðugt samviskubit yfir því að sinna hundinum ekki betur. Og nei, hundum líður ekki endilega betur í sveitum og þeir þrá ekki frelsi eins og margir virðast halda. Hundurinn sem tegund hefur aldrei verið frjáls. Frjálsir hundar heita úlfar og eru allt öðruvísi þrátt fyrir nánast sama genamengið.
Þar sem hundar mega hvergi vera læra þeir eðlilega ekki að vera á fjölförnum stöðum. Það segir sig sjálft. Erlendis sjáum við hunda út um allt. Þeir eru hluti af borgarlífinu, ferðast með strætó og lestum, fara inn á veitingastaði, inn í verslanir, hjúkrunarheimili og spítala. Reglurnar eru mismunandi á milli landa en víða er það þannig að þeir eru bara hafðir í taumi til að tryggja öryggi þeirra. Í göngugötum og annars staðar þar sem ekki stafar hætta af bílaumferð fá þeir að ganga lausir með eigendum sínum. Eigandinn metur sjálfur hvort hundinum sé treystandi án taums. Enginn fær heldur bráðaofnæmiskast og fólk hræðist hundana ekki enda engin ástæða til.
Hundar hér á landi kunna þetta ekki vegna þess að þeir fá aldrei að vera í margmenni. Þeir eru illa umhverfisþjálfaðir vegna þess að fá tækifæri gefast til þess að þjálfa þá í að koma með í bankann og á pósthúsið, bíða rólegir fyrir utan matvörubúðina eða vera í lausagöngu í almenningsgarðinum. Og skynsamasta fólk er ýmist hrætt við hunda eða telur góða hugmynd að vaða til þeirra og klappa þeim – sem sumum hundum finnst bæði óskiljanleg hegðun ókunnugra og svo ógnandi að þeir jafnvel bíta. Erlendis þar sem fólk er vant hundum í umhverfi sínu, dettur engum í hug, hvorki börnum né fullorðnum, að vaða í ókunnuga hunda til að klappa þeim eða skoða þá. Fólk veitir þeim ekki meiri athygli en öðrum vegfarendum.
Þennan vítahring sem skapast hefur hér á landi er erfitt að rjúfa nema með auknu frjálsræði hunda og manna og upplýsingum og fræðslu um hunda og hvernig á að umgangast þá.
Ég hef átt þrjá hunda og fóstrað nokkra í viðbót. Tveir af hundunum mínum lentu í því að manneskja lamdi þá án nokkurs tilefnis. Hvorugur snérist til varnar en ef þeir hefðu gert það hefði mér þótt það skiljanlegt. Þá hefðu þeir þó sennilega báðir týnt lífinu.
Hundar eru dásamlegir og koma í öllum stærðum og gerðum. Sumir hundar þurfa mikið pláss, útivist og mikla hreyfingu, aðrir nenna ekki út þegar rignir. Og fólk er líka allskonar og margir virðast ekki alveg átta sig á að sleðahundar eru ekki endilega hentugasta hundategundin í lítilli blokkaríbúð. Þar gæti önnur tegund hins vegar smellpassað og auðgað líf fólks svo um munar. Fólk þarf nefnilega að hugsa aðeins áður en það fær sér hund – alveg eins og þegar það ákveður að stækka fjölskylduna og eignast barn. Hundur er skuldbinding til 10-15 ára. En líf án hunds er manninum sem dýrategund hreinlega óeðlilegt og það hefur ekkert breyst þótt flest fólk lifi nú í þéttbýli og vinni utan heimilisins. Við höfum alveg jafnsterka þörf fyrir öryggi og félagsskap hundsins og áður. Það er mannfjandsamlegt að banna hunda. Verkefnið hlýtur að vera að aðlaga líf okkar og samfélag hundahaldi frekar en að halda í fáránlega og úrelta bannhyggju.
Pistillinn birtist fyrst á vefritinu Herðubreið 20. júlí 2015 en er endurbirtur lítið breyttur til minningar um hundinn Loka. Hann var bestur.