Áhugafólk um stjórnmál og fréttaskýrendur leita gjarnan til fortíðar í leit að svörum um líklega framvindu. Ekki er þar á vísan að róa því gjarnan taka stjórnmál nýja og óvænta stefnu ekki síst á okkar tímum breytinga og stöðugrar óvissu,
Stundum virðist samt sagan endurtaka sig og fram koma kunnugleg mynstur úr fortíðinni. Nærtækt dæmi er núverandi staða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (VG). Í síðustu þingkosningum fékk flokkurinn tæp 17% atkvæða og ellefu þingmenn. Eftir kosningar ákvað VG að efna til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokk og Framsókn undir forystu formannsins Katrínar Jakobsdóttur. Þessi ákvörðun VG var vægast sagt mjög umdeild í röðum vinstri manna innan flokks og utan. Fyrir kosningar höfðu stöku forystumenn VG nefnilega gefið sterklega í skyn – svo ekki sé meira sagt – að VG myndi ekki leiða Sjálfstæðisflokkinn enn og aftur til æðstu valda í landinu. Meginþorri kjósenda VG vildi samstarf til vinstri en ekki við hægri öflin.
Drífa Snædal, fyrrverandi varaþingmaður og fyrrum framkvæmdastjóri VG, sagði sig úr flokknum og útskýrði ákvörðunina á FB-síðu sinni m.a. :
„Við munum ekki breyta Sjálfstæðisflokknum. Innviðir hans eru spilltir og fullir kvenfyrirlitningar. Sjálfstæðismenn munu fagna stjórnarsáttmála, fara inn í sín ráðuneyti og haga sér eins og þessi valdastofnun hefur alltaf hagað sér. Við og við vellur gröfturinn upp í formi frændhygli, innherjaviðskipta, skattaskjóla, auðvaldsdekurs, útlendingaandúðar eða skjaldborgar um ofbeldismenn. Þá verður VG í þeirri stöðu að verja samstarfsflokkinn og mörkin færast til í samstarfinu líkt og í ofbeldissambandi. Þetta verður eins og að éta skit í heilt kjörtímabil, ef stjórnin endist svo lengi.”
Þess eru tvö dæmi úr íslenskri stjórnmálasögu að flokkar hafi ekki tapað fylgi eftir stjórnarsamvinnu við Sjálfstæðisflokkinn. Skoðum þau stuttlega.
- Eftir átta ára stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn bætti Alþýðuflokkurinn við sig fylgi í þingkosningum 1967 – hlaut tæp 16% atkvæða í stað 14% áður. Skýringin á fylgisaukningunni var að ráðherrar Alþýðuflokksins opinberuðu djúpstæðan ágreining innan stjórnarinnar um landbúnaðarmál. Þegar up var staðið gekk áframhaldandi stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn nánast af Alþýðuflokknum dauðum – fékk einungis um 10% atkvæða í þingkosningum 1971.
- Í Alþingiskosningum 2009 vann Samfylkingin sigur – hlaut 30.3% atkvæða í stað 27,0% í fyrri kosningum. Flokkurinn bætti við fylgi eftir stjórnarsamvinnu við Sjálfstæðisflokkinn frá 2007, og þrátt fyrir Hrunið. Nærtækasta skýringin er sú að Samfylkingin valdi nýjan formann, Jóhönnu Sigurðardóttur, í stað Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem var af hálfu flokksins meginarkitektinn að stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Jóhanna hafði löngum kosið að starfa fremur til vinstri og áður klofið sig út úr Alþýðuflokknum og stofnað nýjan flokk, Þjóðvaka, sem bauð fram í þingkosningum 1995. Fyrir kosningarnar birti Þjóðvaki samþykkt um að flokkurinn myndi ekki undir neinum kringumstæðum ganga til ríkisstjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn.
Í ljósi fortíðar er sennilegt að skoðanakannanir nú gefi nokkuð glögga vísbendingu um fylgi VG í næstu þingkosningum. Skemmst er einnig að minnast afhroðs VG í sveitastjórnarkosningum 2018; í Reykjavík fékk flokkurinn þá til dæmis 2700 atkvæði í stað um 14.500 atkvæða í þingkosningum árið áður.
Forysta VG getur þó gripið til aðgerða til að styrkja stöðu flokksins meðal kjósenda. Í ljósi sögunnar væri vænlegt fyrir VG að gera opinberan ágreining við Sjálfstæðisflokkinn í mikilvægum málum. Krefjast þess til dæmis að ríkisstjórnin taki miklu fastar á spillingamálum – eins og Samherjahneykslinu. Svo ekki sé talað um það þjóðþrifaverk að endurnýja laskað traust á dómstólum landsins og réttarkerfi eftir látlausar árásir og valdníðslu dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. Í upphafi var eitt af meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar að endurvekja traust á stjórnmálum og stofnunum samfélagsins. Árangurinn er nákvæmlega enginn. Spillingarmálin hrannast upp hvert af öðrum.
Sömuleiðis væri ráðlegt fyrir VG að breikka forystu flokksins og rétta þannig sáttarhönd til andstæðinga stjórnarsamstarfsins í röðum flokksfólks.
Umbótaöflin á Íslandi eru í sókn. Þau myndu styrkjast enn frekar með endurnýjun VG og málefnalegri og virkri fjarlægð flokksins frá núverandi varðstöðu um óbreytt valdakerfi í landinu. Ella á VG – að mínu mati – ekkert betra skilið en að bíða afhroð í næstu þingkosningum.
Höfundur er prófessor emerítus í stjórnmálafræði.