1. Stofnum miðhálendisþjóðgarð án nýrra virkjana og ekki gráta brotthvarf Rio Tinto
Ég hef áður gagnrýnt frumvarpsdrög umhverfisráðherra um miðhálendisþjóðgarð fyrir að halda opnum virkjunarkostum sem eru í ferli rammaáætlunar innan fyrirhugaðra þjóðgarðsmarka. Þetta gengur gegn markmiðum þjóðgarða og náttúruverndarlaga, er alger óþarfi og tímaskekkjan. Friðum óhikað allt miðhálendið eins og stjórnarsáttmálinn kveður á um og endurskoðum rammaáætlun í samræmi við það. Þjóðin þarfnast ekki meiri orku frá stórum vatnsaflsvirkjunum sem ævinlega krefjast mikilla náttúrufórna.Rio Tinto hefur nýlega tilkynnt um 15% samdrátt í orkukaupum fyrir álverið í Straumsvík. Álverið hefur verið rekið með miklum halla undanfarin ár og heimild er fyrir sölu eigna þess á Íslandi. Rio Tinto virðist áhugasamt um að draga sig alfarið út úr rekstrinum og þá losnar um mikla orku, 450 MW eða þar um bil sem eru ígildi 10 Skrokkölduvirkjana!.
Kæra ríkisstjórn, ekki fara á taugum og reyna að halda álverinu gangandi með ríkisstyrkjum eða niðurgreiðslu orkuverðs og ekki fá lukkuriddara til að rigga upp nýrri mengandi starfsemi. Lítið á mögulega lokun álversins sem blessun og frábært tækifæri til að laga loftslagsbókhald Íslands – við stöndum okkur langverst Norðurlandaþjóða þar. Notum tækifærið til að hraða orkuskiptum í samgöngum og eflum orku- og loftslagstengda nýsköpun þar sem starfsmenn álversins sitja fyrir nýjum störfum.
Vindorka verður æ hagkvæmari kostur við orkuframleiðslu eins og áhugi fjárfesta sýnir. Brýnt er að setja bindandi reglur og leiðbeiningar um staðarval, stærð og fjölda einstakra vindmyllugarða. Föllum aldrei aftur í stóriðju- og stórvirkjanagildruna. Stórar virkjanir, hvort sem um er að ræða vatnsafl eða vindorku, eru almennt eitraðar því þær kalla á miklar fjárfestingar og gera arðsemiskröfur sem taka takmarkað tillit til almannahagsmuna eða umhverfissjónarmiða. Sníðum okkur stakk eftir vexti og tryggjum að loftslagsvæn verkefni, sem bæta mannlífið, bíði orkunnar áður en lagt er af stað.
2. Friðum illa farna afrétti landsins fyrir beit, hættum offramleiðslu lambakjöts og hefjum stórátak í vistheimt
Síðara tækifærið til að tryggja ódauðlegan orðstír sitjandi stjórnar er líka loftslagstengt. Þurrlendi Íslands er að losa gríðarlegt magn koltvísýrings, a.m.k. tvöfalt á við alla losun af beinum mannavöldum en líklega margfalt meira (hér skortir ítarlegri upplýsingar). Ástæðan er ósjálfbær landnýting í gegn um tíðina, svo sem óþörf framræsla votlendis, eyðing gróðurlendis og jarðvegsrof vegna ofbeitar. Þarna liggja stórkostlegt tækifæri í að snúa þróuninni við hratt og örugglega og slá margar loftslagsflugur í einu höggi. Það má m.a. gera með því að draga úr framleiðslu lambakjöts um a.m.k. 30%, sem er nálægt núverandi offramleiðslu, setja kvóta/umhverfisskatta á glórulausa hrossaeign, friðlýsa gosbeltið fyrir sauðfjárbeit – byrja á þeim 20–30% afrétta sem verst eru farnir – og margfalda átak í vistheimt á þeim svæðum sem best eru til þess fallin. Bæta þarf bændum þar tekjumissinn eða bjóða þeim að gerast kolefnisbændur með sambærilegum stuðningi og sauðfjárræktin nýtur.
Rétt er að minna á að vistheimt er landgræðsla sem miðar að endurheimt upprunagróðurs, svo sem mýra, víði- og bikivistkerfa, oft með lágmarks aðstoð manna. Aðstoðin felst þá t.d. í friðun lands fyrir beit, smávægilegri áburðargjöf til að koma náttúrulegri gróðurframvindu af stað, gróðursetningu eða sáningu lykiltegunda, fyllingu framræsluskurða og heftingu virks jarðvegsrofs. Vistheimt bindur kolefni, verndar jarðveg, votlendi og náttúruskóga og uppfyllir því fjölþætt markmið loftslags-, landslags- og náttúruverndar. Hefðbundin skógrækt styður ekki við jafn fjölbreytt markmið og vistheimt. Hún breytir líka vistkerfum og ásýnd og landsins á dramatískan hátt og hentar því ekki sem alhliða landbótaaðgerð á stórum svæðum.
Landbúnaður losar mikið magn kolefnis við framleiðslu matvæla. Sauðfé og hross nýta stóran hluta úthagans til beitar á sumrin, en vetrarfóður fyrir allt búfé er ræktað á túnum sem að stórum hluta eru á framræstu mýrlendi. Kolefnisspor eða sótspor kjötframleiðslu er hátt og sauðfjárræktar allra hæst eða 28,6 kg CO2-ígilda fyrir hvert kg, samkvæmt útreikningum Environice (til samanburðar er reiknað sótspor laxeldis 3,2 og kartöfluræktar 0,12 kg CO2-ígilda). Sé heyframleiðslu á framræstum mýrum, losun frá landið, beit á illa förnum úthaga, útflutningi og förgun sauðfjárafurða bætt í jöfnuna hækkar sótsporið margfalt.
Með samræmdum aðgerðum friðunar og vistheimtar er hægt að minnka sótspor búfjárræktar hratt og örugglega á næstu árum. Sem dæmi hafa sérfræðingar Landbúnaðarháskóla Íslands áætlað, með fyrirvörum, að með því að taka 2.500 km2 af illa förnum afréttarsvæðum á láglendi til vistheimtar muni þessi svæði geta bundið allt að 500.000 tonn CO2 á ári áður en langt um líður. Þannig væri unnt að kolefnisjafna allan landbúnað á Íslandi á sama tíma og búin eru til vistkerfi sem falla vel að landslagi og náttúru Íslands og verða hluti af náttúruarfi og auðlindum framtíðar. Byrja má á þjóðlendum og öðru landi í eigu þjóðarinnar. Hættum að vinna með litla afmarkaða landskika, „frímerki“, en tökum þess í stað fyrir stórar landslagsheildir og heila afrétti sem verst eru farnir. Eftir fáa áratugi spretta þar upp gróskumikil, náttúruleg gróðurlendi sem aftur má fara að nýta á nýjum forsendum sjálfbærni.
Á næsta ári hefst Áratugur Sameinuðu þjóðanna tileinkaður vistheimt. Á sama ári ber aðildarríkjum Samningsins um líffræðilega fjölbreytni að innleiða svokölluð Aichi markmið til verndar lífríki jarðar. Aichi markmiðin bera yfirskriftinni „lifum í sátt við náttúruna“. Hvað væri flottara á þeim tímamótum en að tilkynna um 2.500–5.000 km2 vistheimtarátak!
Fjárfestum í betri náttúru; nóg er til af illa förnu landi til vistheimtar og orku til heimabrúks.
Höfundur er líffræðingur og rithöfundur.